27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í D-deild Alþingistíðinda. (3689)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Þó að erfitt sé að ræða svo viðamikið mál sem þetta í fsp.–tíma, þá sé ég þó ástæðu til að segja nokkur orð, þar sem ég var formaður hinnar svokölluðu hafísnefndar.

Það er þá í fyrsta lagi varðandi framsöguræðu hv. 1. þm. Norðurl. e., sem flutti þessa fsp. Hann átaldi nokkuð, að mér skildist, þann drátt, sem á því hefði orðið, að n. skilaði af sér. Ég vil aðeins til upplýsinga og okkur til afsökunar vekja athygli á því, að við þurftum að leggja í allviðamikla upplýsingasöfnun, áður en við skiluðum áliti okkar. Við gerðum okkur ljóst, að undirstaða að skynsamlegum till. um ráðstafanir til birgðasöfnunar hlaut að verða sú, að maður gerði sér einhverja grein fyrir því, hvaða líkur væru á hafíshættu hér við land. Þess vegna lögðum við allmikla vinnu í að kanna með aðstoð sérfræðinga möguleika á hafísspám. Aðalaðstoðarmaður okkar í því efni var Páll Bergþórsson veðurfræðingur, en áður en hann lét okkur í té sitt álit, sem hann hafði þó allan fyrirvara um, þurfti hann að framkvæma all viðamiklar athuganir, t.d. á veðurfari norður og austur af landinu, þannig að það álit fengum við í lok júlímánaðar og var engan veginn hægt að ætlast til, að það gæti orðið fyrr.

Enn fremur þurftum við að safna miklum upplýsingum frá þeim aðilum, sem annast dreifingu olíu og kjarnfóðurs. Þessir aðilar þurftu að senda menn út um land til þess að kanna birgðarými og annað. Í þriðja lagi skiptum við nm. með okkur verkum og fórum um þetta svæði og könnuðum eftir föngum aðstæður á hverjum stað. Þessu gat ekki verið lokið fyrr en í ágústlok, en þá gátum við setzt að því að vinna úr þessum upplýsingum og ganga frá nál., sem við gerðum 18. sept.

Þetta er sú skýring, sem ég vildi gefa á því, sem ég tel fullkomlega afsakanlegt, að álitið gat ekki orðið til fyrr en raun varð á. Og víst er um það, að þeir ófullkomleikar, sem okkur er vel ljóst, að á þessari álitsgerð eru, eiga fyrst og fremst rót sína að rekja til þess, að ef vel hefði verið, hefðum við þurft lengri tíma.

Ég játa það fullkomlega, að þegar við tölum um verulega hafíshættu hér á bls. 5 í því áliti, sem hér hefur verið útbýtt, þá gæti það auðveldlega valdið misskilningi, en skýringin á því er sú, að í okkar huga er hafíssvæðið raunverulega allmiklu stærra en það svæði, sem við teljum nauðsynlegt, að stofnað sé til birgðasöfnunar á. Við höfum með Páll Bergþórssyni farið yfir línurit, sem náði allt aftur til ársins 1688 og þá kom í ljós, að í slæmum ísa árum hafði oft skeð, að ísinn umlukti allt landið að undanteknum Breiðafirði og Faxaflóa, þannig að suðurströndin var einnig lokuð af hafís. Þá hrollvekju höfum við að vísu ekki sett á pappír í okkar nál., en í okkar huga var það svæði, sem möguleiki er á siglingateppu vegna hafíss, stærra en það, sem við köllum hafíssvæði hér, þannig að þegar við tölum um verulega hafíshættu eigum við, við svæðið frá Vestfjörðum austur og suður um til Hornafjarðar. Þar teljum við hafíshættuna það verulega, að ástæða sé til að gera ráðstafanir til birgðasöfnunar.

N. hefur orðið við tilmælum hæstv. forsrh. um að kanna, í hverju liggi munurinn á niðurstöðum þeirrar skýrslu, sem viðskrn. fékk samkv. áliti n., sem skipuð var snemma á þessu ári til að kanna olíumálin og niðurstöðu okkar skýrslu. Þar get ég vísað til þess, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að eftir því sem við komumst næst, liggur þetta í því, að í skýrslu viðskrn. er miðað við ársmeðaltal, en í okkar skýrslu er það notkunin yfir vetrarmánuðina, sem miðað er við, en hún er meiri, þannig að byggt á þeim grundvelli endist birgðarýmið skemur.