27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í D-deild Alþingistíðinda. (3698)

263. mál, öryggisráðstafanir vegna hafíshættu

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að það er látið að því liggja, að hér sé um öryggismál að ræða, sem geti stafað hætta af ef ekki geti haldið áfram umr. um fsp. hér á Alþ. Það er ákaflega mikill misskilningur í þessu. Þm. og sérstök hafísnefnd sem þingið hefur kosið, hafa auðvitað fullkomna aðstöðu, — hvort sem við ræðum lengur eða skemur hér í þessum fsp.–tíma — til þess að koma fram sínum málum við ríkisstj., að svo miklu leyti sem þm. eða þessi hafísnefnd telur, að öryggi landsmanna sé hætta búin af einhverju aðgerðarleysi.

Þetta á ekki aðeins við um þessa fsp. Fjöldinn allur af fsp. er þannig, að þm. hafa mjög auðveldan og greiðan aðgang að þeim upplýsingum, sem þeir eru að biðja um, á annan hátt. En þeir kjósa að bera fsp. fram til þess að gera málefnið, sem spurt er um, að málþingi eða hafa um það málþing hér, af hvaða ástæðum sem það er. En það má ekki líta þannig á það mál, sem hér er um að ræða, að það sé eitthvað dregið úr, að hægt sé að koma fram ábendingum um öryggismál landsmanna í sambandi við það, hvort sem hér er rætt lengur eða skemur.