11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í D-deild Alþingistíðinda. (3760)

91. mál, ráðstafanir til að bæta úr rekstrarfjárþörf atvinnuveganna

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ríkisstj. er vissulega ljóst, hve mikil áhrif erfiðleikar í lánsfjármálum hafa haft á rekstrarstöðu atvinnuveganna. Hins vegar er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að lánsfjárskorturinn er að mestu leyti bein afleiðing þeirra efnahagsáfalla, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir. Hinn mikli hallarekstur sjávarútvegsins hefur valdið vaxandi skuldasöfnun við bankana, jafnframt því sem aukning innlána í bönkum hefur farið mjög minnkandi og á hinn almenni tekjusamdráttur vafalaust meginþátt í því. Síðustu tölur, sem liggja fyrir um inn– og útlán banka og sparisjóða, miðast við októberlok, en samkvæmt þeim var útlánaaukningin frá áramótum til loka okt. 1.028 millj. kr., en aukning innlána aðeins 378 millj. kr. Meginhlutinn af hinum mikla mismun útlána og innlána var jafnaður með skuldaaukningu bankanna gagnvart Seðlabankanum. Skuldaaukning bankanna við Seðlabankann jókst enn í nóv., en samkvæmt reikningum Seðlabankans hafði staða innlánsstofnana rýrnað gagnvart Seðlabankanum um 753 millj. kr. frá áramótum til loka nóv.

Af þessum tölum er ljóst, að rekstrarfjárskorturinn stafar ekki af því, að þrengt hafi verið um útlán úr Seðlabankanum, því að raunverulega hefur meginhluti útlánaaukningarinnar á árinu komið frá honum. Sýnir þetta bezt, að það eru erfiðleikar atvinnuveganna og minnkun sparifjjár aukningarinnar, sem lánsfjárskortinum hafa valdið, en einmitt af þeim ástæðum eru vandamálin miklu torleystari, en vera mundi, ef eingöngu væri um íhaldssemi lánastofnana að tefla.

Gengisbreyting sú, sem nýlega var framkvæmd, var gerð í þeim tilgangi að leysa það grundvallarvandamál, sem hér er við að etja og skapa skilyrði til þess, að hægt verði að endurreisa fjárhag atvinnurekstrar og tryggja atvinnu. Fyrstu áhrif gengisbreytingarinnar á fjárhag margra fyrirtækja eru engu að síður neikvæð, vegna þess að hún hefur í för með sér miklar hækkanir á erlendum vörum, er krefjast aukins rekstrarfjár, ef fyrirtæki eiga að geta notað þau tækifæri til framleiðsluaukningar, sem gengisbreytingin skapar. Ríkisstj. er ljóst, að mikla nauðsyn ber til þess að reynt verði að leysa þetta vandamál, eftir því sem frekast er unnt. Hafa rekstrarfjárvandamálin verið rædd bæði við viðskiptabankana og stjórn Seðlabankans. En á vegum hans er nú unnið að því að kanna, hvaða aðgerðir séu framkvæmanlegar til lausnar þessu vandamáli og hefur í þessum viðræðum komið fram, að bankastjórn Seðlabankans er ríkisstj. sammála um það, að óhjákvæmileg sé enn frekari útlánaaukning bankans á næstu mánuðum, til þess að gengisbreytingin geti náð tilgangi sínum. Sérstaklega verður nauðsynlegt að auka afurðalán til útflutningsframleiðslunnar, en einnig eru þegar ráðgerð sérstök útlán til fyrirtækja, sem orðið hafa fyrir mestum áföllum vegna gengistaps á stuttum vöruskuldum erlendis. Er þess að vænta, að ekki líði á löngu, áður en unnt er að taka frekari ákvarðanir til að létta þau miklu lánsfjárvandamál, sem íslenzkur atvinnurekstur á nú við að búa.