18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í D-deild Alþingistíðinda. (3802)

109. mál, perlusteinsvinnsla í Loðmundarfirði

Fyrirspyrjandi (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þessa fsp. út af perlusteinsvinnslu í Loðmundarfirði. Það hefur um allmörg ár staðið yfir athugun á þessum perlusteini eða biksteini og það hefur ekki enn þá komið í ljós hvort hér geti verið um framtíðarmál að ræða, að það sé hægt að skapa af þessu útflutning. En alveg nýlega veit ég, að það hefur verið unnið að því að taka sýnishorn til rannsóknar og þau munu hafa verið rannsökuð bæði í Ameríku og Evrópu og ég tel þetta mál það mikilvægt, að æskilegt sé að fá fram þær upplýsingar, sem nú liggja beztar fyrir í þessu efni og þess vegna hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp.