26.02.1969
Sameinað þing: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í D-deild Alþingistíðinda. (3828)

143. mál, fyrirhugaður flutingur á aðalviðhaldssviði Loftleiða til Keflavíkurflugvallar

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í septembermánuði s.l. sneru fulltrúar frá Loftleiðum sér til mín og óskuðu eftir því m.a. að fá aukið húsrými í aðalflugskýli flughers varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Var beiðni þessi fram borin vegna þess, að félagið hafði í hyggju að flytja aðalviðhaldsstöð sína frá New York til Keflavíkurflugvallar, en um þetta leyti var að renna út samningur frá árinu 1965, sem utanrrn. hafði gert við varnarliðið og tryggði Loftleiðum afnot í 3 ár af hluta þessa sama flugskýlis. Var hér um að ræða húsnæði, sem var nægilega stórt til að hýsa flugvél af gerðinni CL–44 þ.e.a.s. stærri gerðinni, lengri gerðinni, tilheyrandi verkstæði og skrifstofur. Loftleiðir greiddu ekki leigu samkvæmt samningi þessum, en tóku að sínum hluta þátt í rekstrar– og viðhaldskostnaði flugskýlisins.

Málaleitun Loftleiða var því í rauninni tvíþætt: Í fyrsta lagi að tryggja Loftleiðum áframhaldandi afnot af því húsnæði, sem þeir höfðu haft s.l. 3 ár og í öðru lagi að óska eftir því, að varnarliðið léti þeim í té skýlisrými til viðbótar vegna viðgerðarþjónustunnar. Mál þetta var strax tekið fyrir í varnarmálanefnd og lofuðu fulltrúar varnarliðsins að taka allt þetta til gaumgæfilegrar athugunar, þ.e. hvort tiltækilegt væri að endurnýja samninginn um afnot Loftleiða og rýma jafnvel enn meir til fyrir þeim. Jafnframt bentu fulltrúar varnarliðsins á, að flugvélakostur sá, sem nota þyrfti nú á vellinum, hefði aukizt á árinu 1968 og ættu þeir því erfitt um vik, þar sem þeir þyrftu raunverulega á auknu skýlisrými að halda, eins og nú stæðu sakir, a.m.k. fram eftir árinu 1969. Umr. héldu áfram í varnarmálanefnd um þetta mál þar til 19. nóvember á síðastliðnu ári, að fulltrúar frá varnarliðinu lögðu fram svofellda bókun:

„Bandaríski formaðurinn lýsti því yfir, að nákvæm athugun, sem gerð hefði verið á því skýlisrými, sem fyrir hendi væri í flugskýli 885 og þeim afnotum, sem varnarliðið þyrfti að hafa af þessu skýlisrými, hefði leitt í ljós, að ekki mundi þurfa að óska eftir því við Loftleiðir, að félagið færi úr því húsnæði, sem það hefur nú til afnota í flugskýlinu. Á hinn bóginn væri ekki mögulegt að útvega Loftleiðum neins konar viðbótarrými, eins og nú standa sakir.“

Bandaríski formaðurinn lýsti því yfir, að honum þætti leitt að geta ekki orðið við þessari beiðni, því að eftir vandlega athugun á öllum málavöxtum, væri nauðsynlegt að neita beiðni Loftleiða um viðbótarrými í flugskýli 885 til þess að tryggja viðunandi starfsaðstöðu varnarliðsins. Þessi málalok voru tilkynnt Loftleiðum með bréfi dags. 20. nóv. s.l. Fulltrúar Loftleiða gengu þá á minn fund nokkrum dögum seinna og ítrekuðu óskir sinar. Ég ræddi þá þegar við yfirmann varnarliðsins, Stone aðmírál um það, hvort unnt mundi vera að verða við óskum Loftleiða, þegar eitthvað væri komið fram á árið 1969, ef hægt væri að fresta heimflutningi viðgerðarverkstæðisins fram eftir árinu. Óskaði aðmírállinn þá eftir að fá upplýst, hve lengi Loftleiðir gætu sér að skaðlausu beðið með flutninginn og að rannsakað yrði, hvort þeir gætu komizt af með eitthvað minna húsnæði, en upphaflega var farið fram á. Mundi hann þá láta fara fram nýja athugun á því, hvort unnt væri að verða við óskum Loftleiða, án þess að það truflaði um of starfsemi flugsveita varnarliðsins. Ég óskaði þá strax eftir svari frá Loftleiðum við spurningum aðmírálsins. Það var í byrjun desembermánaðar s.l., en þeir báðu um frest til að athuga málið. Aðmíráll Stone, yfirmaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, fór alfarinn til Bandaríkjanna 16. jan. s.l., og var þá ekki enn komið svar frá Loftleiðum, en það kom að vísu skömmu síðar.

Mér er kunnugt um, að hinn nýi aðmíráll hefur haft málið til athugunar síðan hann kom og verða nú teknir upp samningar við hann. En ég tel mig geta fullyrt, að málið hafi mætt fullum velvilja hjá yfirmönnum varnarliðsins, þó að ekki væri hægt að leysa það eins og á stóð í okt. eða nóv. s.l. Ég get því miður ekki svarað nákvæmlega hvenær niðurstaðan fæst, en ég vona, að ekki líði á löngu þar til hún liggur fyrir.

Um það, hvenær Loftleiðir þurfi á þessu skýlisrými að halda, segir svo í bréfi þeirra frá 15. jan. s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Fáist flugskýlispláss á Keflavíkurflugvelli, eins og farið hefur verið fram á, þyrfti félagið að fá það til ráðstöfunar upp úr miðju þessu ári og þó ekki síðar en 1. sept., þannig að tími vinnist til að koma fyrir vélum og tækjum, sem til starfrækslu viðhaldsdeildarinnar þarf. En eins og við staðfestum í viðtali við yður, er óhjákvæmilegt, að skýlisrýmið verði ekki minna, en fyrir tvær flugvélar af gerðinni RR-400 samtímis. Mundi einn endabás í flugskýlinu og tvær svokallaðar eyjar nægja í viðbót við það rými, sem félagið hefur nú þegar til afnota í flugskýlinu.“

Ég vildi þess vegna vona, að niðurstaða í málinu fengist örugglega, áður en sá tími er liðinn, sem Loftleiðir hafa tiltekið sem síðasta mark fyrir því að fá skýlið til afnota, sem er 1. sept. Það ætti að vera nægur tími til þess, þó að þetta hafi af ástæðum, sem rn. eru ekki viðráðanlegar, dregizt þetta lengi.

Út af tollamálum og öðru slíku er allt hægara um vik, því að þar eru rn. ein til ákvörðunar, og ég get fullyrt, að það er vilji fyrir því hjá ríkisstj. að verða við þessari beiðni Loftleiða að svo miklu leyti, sem möguleikar eru til af okkar hálfu og við munum gera það sem hægt er til þess að reyna að fá þetta pláss frá varnarliðinu, sem þó er orðið það mikið, ef þetta fæst, að það er nálega rúmur þriðjungur af stærsta flugskýlinu, sem þarna er afhentur til afnota fyrir Loftleiðir.