12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í D-deild Alþingistíðinda. (3846)

163. mál, skuldir Íslendinga við aðrar þjóðir

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að hefja neina almenna umr. um þessar fróðlegu tölur, sem hæstv. fjmrh. lét okkur í té, en mig langaði aðeins að beina til hans einni viðbótarspurningu af þessu tilefni.

Ég minnist þess, að í upphafi viðreisnar, haustið 1959, flutti Jónas Haralz, sem verið hefur helzti efnahagssérfræðingur hæstv. ríkisstj., mjög athyglisverða ræðu 1. des. og ræddi þar um vanda okkar við að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi á Íslandi, sérstaklega vandann í efnahagsmálum. Þar vék hann að því, að skuldir Íslendinga væru þvílíkar, að árlegir vextir og afborganir væru allt að 11% af gjaldeyristekjum okkar á ári og hann taldi, að aðeins ein þjóð í viðri veröld þyrfti að greiða jafn háa hlutfallstölu af árstekjum sínum til þessara þarfa. Hann taldi einnig, að þessar greiðslur væru svo miklar, að þær ógnuðu hreinlega tilveru okkar sem efnahagslega sjálfstæðrar þjóðar.

Sú tala, sem hæstv. fjmrh. nefndi áðan, er greinilega miklu hærri en sú tala, sem Jónas Haralz nefndi 1959. Því vildi ég spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann teldi, að þessi kenning Jónasar Haralz hafi verið rétt 1959, að 11 % af gjaldeyristekjum til vaxta og afborgana ógni efnahagslegu sjálfstæði þjóðar eða hvort hann telur e.t.v., að sú kenning hafi verið röng. Ef hann telur kenninguna rétta, vil ég enn fremur spyrja, hvort fjárhag okkar sé þá þannig komið, að hætta sé á, að við séum að missa efnahagslegt sjálfstæði.