12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í D-deild Alþingistíðinda. (3848)

163. mál, skuldir Íslendinga við aðrar þjóðir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í þessum umr. og hafði ekki búið mig undir það, en það voru ummæli, sem féllu hjá hæstv. fjmrh., sem gáfu mér tilefni til að standa á fætur.

Hæstv. ráðh. hnykkti sýnilega nokkuð við, þegar hann var spurður að því, hvort hann teldi þjóðina eiga auðvelt með að standa undir þeim lánum, sem hafa verið tekin, þegar greiðslur af þeim væru líklegar til að verða 15% af gjaldeyristekjunum og þegar haft væri í huga, að talsmenn stjórnarflokkanna í byrjun stjórnartímabilsins hefðu haldið því fram, að nálega þjóðargjaldþrot væri framundan, þar sem sýnilegt væri, að greiðslur af erlendum lánum mundu komast upp í 1l% af gjaldeyristekjum. Þeir töldu sem sagt þá og sögðu þjóðinni og það var ekki Jónas Haralz einn, sem sagði það, heldur var það stjórnarliðið allt í kór, sem endurtók sífellt, að þjóðin væri að farast fjárhagslega. Þeir ætluðu sér að reisa hana við. Skuldabyrðin væri orðin svo mikil, að það væri hættulegasti þátturinn, og það liti út fyrir, að 11% af gjaldeyristekjunum færu til að greiða af erlendum lánum. Þetta sögðu þeir þá, en nú segja þeir, að þjóðinni sé vel borgið með því að greiða 15% vegna erlendra lána. Viðreisn þeirra hefur verið fólgin í því m.a. að auka skuldabyrðina um 40—50% og það segja þeir nú, að sé í lagi.

Það er eðlilegt að hæstv. ráðh. gangi illa að koma þessu heim og saman. Ég vona, að íslenzka þjóðin geti staðið undir þeirri byrði, sem þeir hafa á hana hlaðið. Ég vona það. En það er þó alveg víst og það ætti hæstv. fjmrh. að viðurkenna, að sé það rétt, var það markleysa, sem þeir sögðu 1959 og 1960. Geti þjóðin staðið undir þessu, sem ég vona að verði, þá var það markleysa, sem þeir sögðu þá, og það er það minnsta sem hægt er að ætlast til, að hæstv. fjmrh. viðurkenni drengilega, að það var marklaus áróður. Með því að viðurkenna ekki þetta bætir hann ekkert hlut sinn eða þeirra sem stóðu að þeim rógi, sem þá var fluttur um efnahag landsins bæði utan lands og innan af hendi þeirra. Það var ekkert annað en rógur um efnahag landsins, þær fullyrðingar, sem þeir viðhöfðu þá um möguleika þjóðarinnar til að standa við skuldbindingar sínar, og það mætti ekki minna vera en þeir viðurkenndu það nú, eins og þetta er komið, að það var markleysa, sem þeir sögðu.

Öll viljum við auðvitað trúa því, að við getum staðið undir jafnvel þeim gífurlegu byrðum, sem nú hafa verið lagðar á, hvað þá þeim tiltölulega léttu byrðum, sem þá höfðu verið lagðar á þjóðina. Eðlismunur er enginn á skuldabyrði þá og nú af þeirri einföldu ástæðu, að mest af því, sem þá hafði verið tekið að láni, hafði gengið til nauðsynlegra framkvæmda a.m.k. ekki síður en nú, að ekki sé nú meira sagt. Og þetta tal hæstv. ráðh. um, að það sé mikill eðlismunur á þessu, því að þá hafi verið mikið af lausaskuldum og yfirdráttarskuldum út um allan heim, fær ekki staðizt. Ég held, að hæstv. ráðh. hljóti að vita það mjög vel, að yfirdráttarskuldir bankanna eru ekki teknar inn í þetta skuldadæmi. Þær eru teknar inn í sjálfa gjaldeyrisstöðuna og dregnar frá innistæðum. Ég hygg, að hæstv. ráðh. viti þetta og því er ég ákaflega hræddur um, að hann hafi mælt gegn betri vitund, þegar hann sagði þetta. Hitt er svo annað mál, að þá voru ekki lausar verzlunarskuldir út um allt eins og nú. Það er nýtt fyrirbrigði, sem hefur komið til. Manni skilst, að þær muni vera hátt í 1.000 millj.

Fleira mætti telja í þessa átt og það er ósæmilegt af hæstv. ráðh. að vera að gefa það í skyn, að skuldirnar, sem þá voru, hafi verið hættulegri en þær skuldir, sem nú eru. Það er algjörlega rangt og það mundi sjást, ef þetta mál væri skoðað. Ég hef ekki þær nauðsynlegu skýrslur við hendina, sem þyrfti, en þær eru í Fjármálatíðindum. Sannleikurinn er sá, að það er ekki ólíklegt, að það kæmi í ljós, að lán til stutts tíma væru meiri nú tiltölulega, en nokkru sinni áður, vegna þess að það hefur verið tekið svo mikið af lánum til stutts tíma t.d. til að kaupa báta og skip og miklu meira en nokkru sinni áður. Ég hugsa, að það væri fremur þetta, sem kæmi í ljós, ef væri skoðað, en hitt, sem hæstv. ráðh. gaf í skyn.

Ég spyr: Finnst mönnum ekki í raun og veru ósæmilegt að vera að pexa um, hvort byrðin er þyngri núna, þegar hún er 15%, en þegar hún er 11%. Ég verð að segja, að þeir menn færast nokkuð í fang, sem ætla sér að telja þjóðinni trú um, að skuldabyrðin sé léttari, þegar hún er orðin 15%, en á meðan hún var 11%. Og það er algjörlega vonlaust fyrir hæstv. fjmrh. að ætla sér að fá okkur til þess að trúa því, að þjóðarbúið kasti svo miklu betur af sér tekjum nú miðað við fjárfestinguna, en áður var, að þar sé að vænta björgunar í þessu. Við sjáum svona hér um bil, hvernig fjárfestingin á þessu 10 ára tímabili hefur gefizt á því, hvernig þjóðartekjurnar eru nú, sem út eru mældar í launum og kaupgjaldi og samt er sagt, að atvinnuvegirnir eigi mjög erfitt með að bera kaupið. Kaupmáttur tímakaups er minni núna en hann var fyrir 10 árum og afkoma fyrirtækjanna líklega upp og ofan lakari en þá. Og það er þessi fjárfesting, sem svona gefur af sér, sem kemur svona fram í þjóðarbúskapnum, sem hæstv. ráðh. segir, að sé svo vel heppnuð, að það muni vera léttara fyrir þjóðina núna að láta 15% af gjaldeyristekjunum í vexti og afborganir en 11% áður. Þetta er vonlaust, og mér finnst, að tíma Alþingis mætti verja betur.