26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í D-deild Alþingistíðinda. (3865)

174. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Athygli okkar alþm. hefur að undanförnu verið vakin á mjög alvarlegu ástandi á

Fæðingar— og kvensjúkdómadeild Landsspítalans. Bandalag kvenna hefur sent öllum alþm. samþykkt um nauðsyn þess, að fæðingardeildin verði stækkuð og þar verði komið upp sérstakri kvensjúkdómadeild með fyllstu aðstöðu til nútímageislalækninga og samþykkt bandalagsins fylgdi mjög skýr grg. Að bandalaginu standa sem kunnugt er öll Kvenfélög Reykjavíkur. Hliðstæðar samþykktir hafa verið gerðar af Kvenréttindafélagi Íslands og Kvenfélagasambandi Íslands.

Hér á lestrarsal Alþ. liggur nú skjal undirritað af 218 ljósmæðrum, hjúkrunarkonum og öðru starfsfólki Landsspítalans, þar sem sérstök athygli er vakin á því, að starfsaðstaðan á fæðingardeildinni er ósæmileg með öllu. Í þessu áliti er m.a. komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Fæðingardeildin er eldhúslaus og í tvo áratugi hefur matur verið fluttur, fyrst í hjólbörum, síðan í bílum milli húsa. Sjúklinga verður að flytja í bílum steinsnar milli deilda, t.d. til röntgendeildar, þar sem allur slíkur flutningur á að ske innanhúss. Salernismálin eru alræmd. Tveir skápar inni í skápum, ætlað fyrir 30 konur, fullnægja engan veginn lágmarkshreinlætiskröfum vegna þrengsla. Um þrengsli deildarinnar er margbúið að kvarta án þess að árangur hafi náðst og er nú svo komið, að nemar spítalans, sem mikið af starfi hans hvílir á, neita að una þessum vinnuskilyrðum lengur.“

Ástæðan fyrir ófremdarástandinu á Fæðingardeild Landsspítalans er sú, að deildin hefur aldrei verið fullgerð. Þegar sá áfangi, sem nú er í notkun, hóf starfrækslu fyrir 20 árum var ráðgert, að byggingin yrði von bráðar stækkuð og tengd aðalspítalanum. Teikning af stækkuninni var fullgerð 1956, en síðan hefur ekkert orðið úr framkvæmdum, þótt erfiðleikar deildarinnar hafi magnazt ár frá ári. Á fæðingardeildinni sjálfri eru aðeins 27 rúm fyrir sængurkonur, en deildin fær afbrigðilegar fæðingar frá öllu landinu. Vegna þess, hve mikið er um afbrigðilegar fæðingar á þessari litlu deild, verður hlutur eðlilegra fæðinga of lítill fyrir þá kennslu læknanema og ljósmæðranema, sem þar á að fara fram. Auk þessara 27 rúma eru 10 rúm fyrir sjúkdóma meðgöngutímans, en það er tæpur helmingur af þörfinni.

Á deildinni allri er aðeins ein skurðstofa, en þar fara nú fram á níunda hundrað aðgerðir á ári. Sótthreinsunaraðstaða hefur verið ófullnægjandi frá byrjun, engar dagstofur eru á legudeildum, skoðunarherbergi vantar á deildirnar og þannig mætti lengi telja.

Alvarlegast er þó ástandið á kvensjúkdómadeildinni, en það er eina kvensjúkdómadeild landsins. Þar eru aðeins 16 rúm, svo að deildinni er gersamlega um megn að sinna aðkallandi sjúkdómstilfellum. Lögum samkvæmt er deild þessi skylduð til að sinna vönunum og fóstureyðingum, en þar er um að ræða nær 100 sjúklinga á ári. Auk þess eru sjúklingar með krabbamein í móðurlífi sendir deildinni af öllu landinu. Starf leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands hefur undanfarin ár leitt til þess, að fundizt hafa ýmis grunsamleg tilfelli, sem þurft hefur að kanna og lækna tafarlaust. En þá hafa margir rekið sig á þá ömurlegu staðreynd, að ekki var rúm fyrir þá á kvensjúkdómadeildinni og sjúklingar annað hvort orðið að láta skrá nöfn sín á biðlista, fara á önnur sjúkrahús eða leita til útlanda.

Neyðarástandið á þessari deild er nátengt ástandinu á Geislalækningadeild Landsspítalans, því að um fjórðungur af sjúklingum geislalækningadeildarinnar hefur að undanförnu verið með krabbamein í móðurlífi. Vinnuaðstaða geislalækningadeildar, sem hefur starfað frá 1931, er afar slæm. Þar eru hvorki skoðunarherbergi né viðtalsherbergi, engin aðstaða til ísótópalækninga, engin aðstaða fyrir eftirrannsóknir sjúklinga, hvorki aðstaða fyrir geislaáætlun sjúklinga né geislamælingar og fjölmörg önnur atriði mætti telja upp. Í áratug hefur verið kunnugt, að deildin gæti náð stórbættum árangri með kóbaltgeislatæki og fyrir þremur árum bauðst Landsspítalanum slíkt tæki að gjöf. Þá var engin aðstaða til að veita því móttöku og nú er loks verið að koma því fyrir í bráðabirgðahúsnæði, sem engan veginn getur tryggt þá eðlilegu þjónustu, sem fengist, ef geislalækningarnar væru í beinum tengslum við kvensjúkdómadeildina.

Hversu alvarlegt ástandið er á þessu sviði má marka af því, að samkvæmt doktorsritgerð Ölafs Bjarnasonar prófessors nam árangur lækninga á leghálskrabbameini 28% hérlendis á árabilinu 1946—1955 en 45% í hliðstæðri stofnun sænskri. Guðmundur Jóhannesson læknir hefur á hliðstæðan hátt fjallað um árangur slíkra lækninga á árabilinu 1955—1966. Árangur af meðferð á leghálskrabbameini var þá hérlendis 38.7%, en erlendis 63%. Af sjúklingum með legholskrabbamein á sama tíma lifðu hér ekki nema 57%, en í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndum um 90%. Hér er því um mörg mannslíf að tefla.

Ég vék að því í upphafi máls míns, að konur hefðu að undanförnu vakið athygli okkar alþm. á þessu ósæmilega neyðarástandi. Málflutningur þeirra hefur verið svo vel rökstuddur, að ég tel, að Alþ. Íslendinga beri skylda til að taka þetta vandamál föstum tökum og beita sér fyrir tafarlausum aðgerðum. En áður en unnt er að taka slíkar ákvarðanir, er nauðsynlegt að vita um áform hæstv. ríkisstj., og því hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp. til hæstv. heilbrmrh.