16.04.1969
Sameinað þing: 0. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í D-deild Alþingistíðinda. (3916)

280. mál, mál heyrnleysingja

Auður Auðuns:

Herra forseti. Við höfum heyrt svör hæstv. menntmrh. við fsp. hv. 6. landsk. þm. Við höfum fengið í hendur það nál., sem hér hefur borið á góma og ég vil þá ekki láta hjá líða að segja nokkur orð, einmitt í sambandi við nál. Ég vil þá fyrst benda á að, að mínu viti er það nokkur veila í nál., að á bls. 4, næst á undan fyrstu greinaskilum, segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Venjulega veit eyrnalæknir álíka mikið um kennslu heyrnarskertra og kennari um eyrnalækningar. Það er því jafn fráleitt að eyrnalæknir segi til um kennslu heyrnarskertra og kennari um eyrnalækningar.“

Þetta síðasta ætti þá enn frekar að gilda um lækni, sem ekki er þó með sérmenntun í eyrnalækningum. Eftir því hefur þarna verið lýst yfir, að því ég bezt fæ séð, að 2/3 hlutar n., læknarnir 2, hafi nánast sagt lítið eða ekkert vit á að segja fyrir um kennslu heyrnarskertra barna. Þó kemst n, allt að einu að eindreginni niðurstöðu um það grundvallaratriði kennslunnar, að sérskólar séu nauðsynlegir eða eins og segir orðrétt neðst á bls. 4 í nál.:

„Niðurstaða n. er sú, að sérskólar fyrir heyrnarskerta séu nauðsynlegir og ekki komi til mála að hætta við þá viðbyggingu við Heyrnleysingjaskólann, sem áformuð var.“

Nú veit ég, að fyrir n. hefur það ekki vakað með þessum orðum beinlínis að vera að gefa sjálfri sér hæfnisvottorð, heldur er þessum tilvitnuðu orðum fyrst og fremst ætlað að vara við kenningum ákveðins nafngreinds læknis, prófessors dr. med. Ole Bentsen. Það er rétt að kynna hann nokkuð. Hann er yfirlæknir og forstöðumaður heyrnarmiðstöðvar danska ríkisins í Árósum, en þær eru 3 þar í landi og spanna yfir allt landið. Þessi maður hefur auk þess m.a. það ég veit bæði á Indlandi og í Egyptalandi unnið að skipulagningu heyrnarstöðva á vegum ríkisstj. þeirra landa og hann hefur fyrrum verið ráðgjafi Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um málefni heyrnarskertra. Ég sé reyndar í einu af fylgiskjölum með nál., sem ég skal viðurkenna, að ég vissi ekki áður, að hann sé fyrrum ráðgjafi Sameinuðu þjóðanna um kennslumál heyrnleysingja. Ég held, að þetta eigi að gefa nokkra hugmynd um, hvers álits þessi danski læknir nýtur. Hann hefur árum saman beitt sér fyrir þeirri kenningu, að kennslu barna sem eru bækluð, andlega eða líkamlega, þar á meðal heyrnarskert, — að þá kennslu eigi að fella inn í hið almenna skólakerfi, ýmist þá í venjulegum bekkjum með hjálparkennslu við einstaka börn eða í sérbekkjum og þó leggur hann megináherzlu á vistun barna innan venjulegs skólaskyldualdurs, þ.e.a.s. yngstu barnanna, í leikskólum innan um heyrandi og talandi börn. Þessa kenningu sína hefur hann rökstutt með félagslegum rökum og þeim, að það hafi reynzt stórauka þroskamöguleika og kennsluárangur barnanna að vera samvistum við heyrandi og talandi jafnaldra sína.

Það er rétt, að styrr hefur staðið um þessar kenningar. Það er ekkert nýtt og það út af fyrir sig sannar hvorki ágæti þeirra né fánýti, en hvað heyrnarskertu börnin snertir hefur andstaðan verið allmikil og kannske hvað hörðust frá Heyrnleysingjaskólanum. Ég ætla mér ekki þá dul að ætla að fara að kveða upp úr um það, hvort yfirleitt sé nokkur þörf á sérskóla fyrir heyrnleysingja. Hins vegar verð ég að segja, að ég hef í vaxandi mæli hallazt að því, að verulegur hluti þeirra barna, sem talið hefur verið og talið er, að eigi heima í heyrnleysingjaskóla, eigi að vistazt og geti vistazt í hinu almenna skólakerfi og þá alveg sérstaklega eigi yngstu börnin að vera, — þ.e.a.s. þau, sem eru innan við hinn almenna skólaskyldualdur, — í leikskólum með heilbrigðum jafnöldrum sínum. Það er vegna þess, að ég þykist hafa sannfærzt æ betur um það, eftir það, sem ég hef um þessi mál heyrt, að heyrnskertum börnum sé nauðsynlegt að vera í eðlilegu, heilbrigðu, talandi umhverfi og ég vil í þessu sambandi upplýsa, að í síðustu viku var lagt fram erindi skólastjóra Heyrnleysingjaskólans í borgarráði Reykjavíkur, og þar er farið fram á það, að Reykjavíkurborg veiti stuðning sinn til þess, að starfrækt verði dagheimili næsta sumar, þar sem verði allt að 30 heilbrigð börn ásamt 13 börnum úr Heyrnleysingjaskólanum og ég hlýt að segja, að mér virðist þetta þó alltaf nokkur viðurkenning á þeim kenningum, sem hinn danski læknir hefur haldið fram.

N. kemst að þeirri niðurstöðu, að ekki komi til mála að hætta við þá nýbyggingu fyrir Heyrnleysingjaskólann, sem áformuð var. Sú nýbygging mun vera miðuð við allan þann fjölda, sem nú er í skólanum, eða með öðrum orðum, að það sæti þá allt við það sama með kennsluna. Þó að talið verði rétt að hafa sérskóla fyrir kennslu heyrnarlausra barna, þá ber þó að mínu viti a.m.k. að endurskoða fyrri áætlun gaumgæfilega með hliðsjón af því, hve mikinn hluta núverandi nemenda og þá á ég fyrst og fremst við yngstu börnin, sé rétt og unnt að vista í hinu almenna skólakerfi og í leikskólum. Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. þm. á útdrætti úr grg. eftir Stefán Skaftason lækni, sem Zontaklúbbur Reykjavíkur hefur sent alþm. og væntanlega gefst tækifæri til að ræða seinna, þegar til umr. kemur þáltill. um byggingu Heyrnleysingjaskóla, sem er á dagskrá þessa fundar, en ræðutími hér takmarkaður við fsp. Þessi læknir, Stefán Skaftason, sem hefur aflað sér víðtækrar framhaldsmenntunar sem háls—, nef— og eyrnalæknir og er auk þess viðurkenndur sem heyrnfræðingur í Danmörku, hefur dvalið þar tvö undanfarin ár og fylgzt þar sérstaklega með endurhæfingu og þar með skólagöngu og kennslu heyrnarskertra barna. Hann mun vera væntanlegur hingað heim næsta sumar og ég vænti þess fastlega, að hæstv. ríkisstj. geri ráðstafanir til að notfæra sér þekkingu og reynslu þessa mæta læknis, ef þess er kostur og ég tel, að annað væri tæpast verjandi, áður en tekin er mikilvæg ákvörðun um framtíð kennslu heyrnarskertra hér á Íslandi og ég fyrir mitt leyti hlýt að segja, að ég get ekki skellt skollaeyrum við þeirri staðhæfingu þessa læknis, sem fram kemur í grg. hans, að grundvöllur allrar endurhæfingar heyrnskertra verði að byggjast á læknisfræðilegum grundvelli, ef vel eigi að fara.