23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í D-deild Alþingistíðinda. (3939)

281. mál, landgræðsla sjálfboðaliða

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er stutt síðan þessi starfsemi kom til, að ungmennafélög, Laionsklúbbar og fleiri félagasamtök fóru að taka virkan þátt í uppgræðslu landsins. Og það er mikið ánægjuefni, að þetta hefur byrjað, því að það er augljóst, að án skilnings og beinnar eða óbeinnar þátttöku almennings næst ekki fullur árangur í landgræðslustarfinu.

Á undanförnum árum hefur skapazt mikill áhugi fyrir gróðurvernd og landgræðslu hér á landi og má segja, að nýju landgræðslulögin hafi komið á þáttaskiptum í þessu efni ásamt auknu fjárframlagi frá ríkissjóði til starfseminnar. Ýmis félagssamtök hafa óskað eftir að fá að taka virkan þátt í starfinu og nokkur hafa þegar hafizt handa. Má þar einkum nefna Ungmennafélag Íslands og Laionshreyfinguna. Ungmennáfélagið hóf þessa starfsemi sumarið 1967, en þá fór ungmennasambandið Skarphéðinn í sáningarferð á Biskupstungnaafrétt. S.l. sumar voru farnar 7 ferðir á hálendið á tímabilinu 22. júní til 29. júlí. Eftirtalin ungmennafélög stóðu fyrir þessum ferðum: Ungmennafélagið Víkverji í Reykjavík, Ungmennasamband Kjalarnesþings, Ungmennasambandið Skarphéðinn, Ungmennasamband Borgarfjarðar, ungmennafélögin á Egilsstöðum, Ungmennasamband A.-Húnvetninga, ungmennafélag í Kelduhverfi og Ungmennasamband Suður–Þingeyinga. Alls tóku um 250 manns þátt í þessum ferðum og var sáð um 70 tonnum af áburði og 5 tonnum af fræi í 250 hektara lands. Landgræðslan lagði til áburð og fræ og kostaði yfirleitt ferðir og fæði, þótt undantekningar væru á því.

Enn er full þörf fyrir mannshöndina til landgræðslu, bæði vegna þess, að fullkominni tækni verður ekki komið við alls staðar, og einnig vegna þess, að við höfum ekki efni á að afla nægilega margra slíkra tækja og reka þau enn sem komið er. Starfsemi ungmennafélaganna undanfarin tvö sumur verður að teljast tilraun og undirbúningur að því að virkja þennan ágætlega skipulagða félagsskap í þágu landgræðslu. Eru forustumenn þeirra sammála um, að þegar á sumri komanda verði auðvelt að margfalda þau dagsverk, sem unnin voru s.l. sumar og að því verður stefnt. Þá hafa ýmis önnur félagssamtök og jafnvel skólar boðið þátttöku sína.

Það hefur komið í hlut fulltrúa landgræðslustjóra, Ingva Þorsteinssonar, að vinna að þessu samstarfi fyrir hönd Landgræðslunnar. Hefur það orðið árangursríkt. Nytsemi þess verður ekki eingöngu metin eftir þeim tonnafjölda af áburði og fræi, sem sáð er, heldur öllu fremur þeim áhuga, sem starfið vekur.

Áætlun hefur verið gerð um kostnað og starf gróðurverndar Landgræðslu ríkisins á árinu 1969. Áætlað er, að verkefnið við gróðurvernd verði með líkum hætti á árinu 1969 og verið hefur og verða þau rakin hér í stórum dráttum.

Ákvörðun á beitarþoli. Unnið verður að gróðurkortagerð og ákvörðun á beitarþoli á eftirtöldum svæðum: Möðrudalsöræfum, Fljótsdalsheiði og afréttum Vopnfirðinga, afréttum V.–Húnvetninga og á Síðumannaafrétti. Er rannsóknum lokið á nokkrum þessara svæða, en unnið verður að því að setja saman kort af þeim og reikna út flatarmál gróðurlenda þeirra og beitarþol. Það er skilyrði, að hægt sé að kortleggja landið og reikna út beitarþolið. Það má segja, að það sé undirstaðan að gróðurverndinni.

Þá er talað um ítölu. Eins og verið hefur, verður unnið að því að koma niðurstöðum beitarþolsmælinga til bænda og stuðla að því, að eftir þeim verði farið með samkomulagi við bændur. (Gripið fram í.) Sú viðleitni hefur borið nokkuð misjafnan árangur, enn sem komið er, en væntanlega verður unnt að tryggja hóflega nýtingu landsins á þennan hátt. Þegar það tekst ekki, er það hins vegar hlutverk landgræðslustjóra að koma á ítölu samkv. landgræðslulögunum.

Þá er einn þáttur úttekt á gróðureyðingu og landskemmdum. Landgræðslulögin kveða svo á, að áður en 5 ár eru liðin frá gildistöku þeirra, skuli landgræðslustjóri hafa látið gera yfirlit um landskemmdir og samið áætlun um, hvernig helzt megi bæta þær, svo og í hverri röð skuli unnið að landbótum. Samkv. þessu skal áætlun því liggja fyrir ekki síðar, en vorið 1970. Slík úttekt er vissulega orðin tímabær, en hún krefst mikillar vinnu, eigi hún að vera svo vel úr garði gerð, að hún komi að fullum notum.

Í starfsáætlun þessari er gert ráð fyrir, að mikill tími fari í undirbúning, útreikninga og samningu úttektarinnar. Að því er varðar hálendið verður úttektin fyrst og fremst byggð á gróðurkortunum og annarri vitneskju, sem gróðurrannsóknirnar hafa gefið. Gróðurverndarnefndirnar, sem stofnaðar hafa verið samkv. landgræðslulögunum, hafa þegar flestar gert ágætar skýrslur um ástand gróðurs á láglendi í sínum sýslum og verður unnt að byggja að verulegu leyti á þeim ásamt annarri vitneskju, sem fyrir liggur. Þó þarf að áætla mörg ferðalög með n. í þessum tilgangi á sumri komanda.

Þá er samvinnan við félagssamtök um landgræðslu. Áhugi fyrir landgræðslustarfinu hefur aukizt mjög og í vetur hafa fleiri aðilar en nokkru sinni fyrr boðið þátttöku sína. Jafnframt hefur Ungmennafélag Íslands áform um að margfalda þátttöku sína, verði þess óskað. Ekki er álitamál, að slíkri aðstoð ber að taka með þökkum og er lagt til, að hafizt verði þegar handa um undirbúning þessara starfa.

Enn er ekki unnt að segja, hvaða svæði yrðu tekin fyrir, en af nógu er að taka og æskilegt er, að slíkt samstarf sé haft við aðila sem víðast á landinu.

Þetta, sem ég síðast las, er eftir Ingva Þorsteinsson og fylgdi till. um fjárveitingar á þessu ári í sambandi við þessa starfsemi félagasamtakanna. Hans till. um fjárveitingu til gróðurverndar á þessu ári eru sem hér segir:

Til áburðarkaupa verði veittar 400 þús. kr. Hann áætlar bílakostnað 70 þús. kr. eða alls í þessu skyni 470 þús. kr. Þá leggur hann til, að keypt verði fræ fyrir 300 þús. kr. Svo kemur launakostnaður og bílakostnaður og ýmislegt því tilheyrandi, þannig að þessi liður verður 880 þús. kr. eða samtals 1.350 þús. kr., sem hann leggur til, að varið verði til þessarar starfsemi. Þykir sjálfsagt að samþykkja þessar till. Ingva Þorsteinssonar, sem þekkir þetta bezt og hann hefur samið till. í samræmi við þær undirtektir, sem þetta mál hefur fengið og í samræmi við þær hugmyndir, sem hann hefur gert hér um þátttöku félagssamtakanna á sumri komanda í þessu mikilvæga starfi.