23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í D-deild Alþingistíðinda. (3947)

194. mál, tollstöðvarbygging við Reykjavíkurhöfn

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda, að það er að sjálfsögðu með þetta mál sem önnur, að einhverjar efasemdir kunna að vera um, að það skili þeim árangri, sem til hefur verið stofnað. Sjálfsagt er að ræða þau og upplýsa eftir því sem tök eru á, til þess að menn viti þá gjörla, að hverju er að ganga.

Fsp. þær, sem hv. þm. ber fram, eru 3.

Í fyrsta lagi: „Hvenær má ætla, að tollstöðvarbyggingin við Reykjavíkurhöfn verði tekin í notkun?“

Um þetta er það að segja, að vörugeymslurnar fyrir ótollafgreiddar vörur, sem eru á 1. hæð tollstöðvarbyggingarinnar og í mestum hluta kjallarans, sem er undir hálfri skrifstofuálmunni við Tryggvagötu að austan, - þessar vörugeymslur eru tilbúnar og hefur þetta húsnæði þegar verið leigt Eimskipafélagi Íslands. Skrifstofuhæðirnar munu geta verið tilbúnar um eða upp úr næstu áramótum, ef unnið er af fullum krafti við bygginguna, sem verður gert, ef fé verður fyrir hendi.

Til þess að ljúka byggingunni verður með einhverjum hætti að afla til þess töluvert mikils bráðabirgðaláns. Það væri mjög æskilegt að geta lokið byggingunni með þeim hraða, sem hér er talað um. Um það get ég ekki sagt á þessu stigi málsins, því að það hefur ekki verið afráðið enn. Það mætti skilja eftir einhvern hluta af henni, sem ætlaður hefur verið fyrir skrifstofubyggingar, sem eru umfram þarfir tollgæzlunnar og hefur þá jafnvel komið til álita, að önnur ríkisstofnun fengi þar aðstöðu, þ.e.a.s. skattstofan. Um það hefur ekki verið tekin ákvörðun enn, en sú stofnun er í leiguhúsnæði.

„Hvernig verður afnotum þessa húss hagað, og hvernig verður aðstaða til tollskoðunar?“

Um þennan lið er þetta að segja: Vörugeymslur á 1. hæð og í mestum hluta kjallarans, svo sem ég hef áður vikið að, hafa þegar verið teknar í notkun. Þetta húsnæði er 3.491.9 m2 og rúmmálið 20.236 m3. Hefur því helmingur hússins þegar verið tekinn í notkun í þessu skyni. Tollstjóraskrifstofan mun þurfa að nota alla efstu hæð skrifstofuálmunnar svo og hluta af millihæðum og 1. hæð, en tollgæzlan mun hafa aðsetur á báðum skrifstofuhæðum útbyggingarinnar meðfram Pósthússtræti. Neðri skrifstofuhæðin verður leigð út að mestu eða öllu leyti um sinn, eins og ég gat um og kemur þá til álita hvaða ríkisstofnun fari þangað inn. En það er sú eina hæð, sem talið er, að ekki þurfi að vera til afnota fyrir tollgæzluna. Aðstaða til tollskoðunar í tollstöðinni verður mjög góð, enda er geymsluhúsnæði fyrir vörur leigt út með því skilyrði, að tollgæzlan hafi þar alla aðstöðu eftir þörfum til tollskoðunar, m.a. verði þar möguleikar til að taka skipsfarma eða hlut af skipsförmum til sérstakrar skoðunar. Þetta er hin brýnasta nauðsyn í stað þess, að förmum þessum hefur jafnan verið keyrt burtu í geymsluhús hinna einstöku skipafélaga og eins og nú standa sakir er jafnvel mjög mikill vandi að koma fyrir í viðunandi geymslum öllum vörum og hefur það að sjálfsögðu torveldað mjög tollskoðun og skapað hættu á því, að hún geti ekki verið nægilega styrk. Þessu ætti að vera komið í gott lag með tilkomu nýju tollstöðvarinnar.

Í þriðja lagi er spurt að því, hvað áætlað sé, að þessi bygging tollstöðvarinnar muni kosta fullgerð. Upphaflega var áætlað, að bygging tollstöðvarinnar mundi kosta 132 millj. kr., en með hliðsjón af hækkuðum byggingarkostnaði, frá því að byrjað var á húsinu, þá er ætlunin nú, að kostnaður verði um 149 millj. Um síðustu mánaðamót var byggingarkostnaður orðinn rúmar 80 millj. Einangrun skrifstofuhæðanna er að mestu lokið svo og múrhúðun og hitalögn.

Mér þykir aðeins í framhaldi af þessu rétt, til þess að gefa heildarmynd af málinu umfram það, sem ég hef hér sagt frá, að segja í fáum orðum frá því, hvernig þetta mál er til komið og lýsa örlítið nánar ýmsum atriðum, sem ég hef ekki komið inn á. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er í lögum frá 1956 um tollheimtu og tolleftirlit ákveðið að greitt skyldi 1% gjald eða álag á vörumagnstoll og verðtoll um leið og þeir tollar eru innheimtir samkv. tollskrám og viðaukum svo og öðrum aðflutningsgjöldum og skyldi fé þetta lagt í sjóð og varið til byggingar tollstöðva í landinu eða kaupa á fasteignum í sama skyni. Með lögum frá 1962 var ákveðið, að fé þetta skyldi innheimta af innflytjanda, þ.e. leggjast við aðflutningsgjöldin við greiðslu. Síðan gerist það með tollskrárlögum frá 1963, að gerð er tvenns konar breyting á eldri ákvæðum. Annars vegar, að gjaldið var lækkað úr 1% í 1/2% og hins vegar, að gjaldið skyldi greiðast af innheimtum aðflutningsgjöldum, eins og upphaflega var ákveðið. Á árinu 1963 var síðan tekin ákvörðun um, að byggja skyldi tollstöð í Reykjavík fyrir fé sjóðsins. Var þá skipuð af fjmrh. sérstök n. til að undirbúa og sjá um byggingu hússins og eiga sæti í þeirri n. þeir Torfi Hjartarson tollstjóri, sem er formaður, Sigtryggur Klemenzson bankastjóri, Hörður Bjarnason húsameistari, Páll Sæmundsson stórkaupmaður og Ragnar Jónsson skrifstofustjóri. Þá var fengin lóð undir hús þetta á hafnarbakkanum, mjög góð lóð, að stærð tæpir 5.000 m2 og verður nyrzti hluti hennar undir umferðarbrú þeirri, sem liggja á yfir hafnarsvæðið samkvæmt nýgerðu skipulagi. Hafizt var handa um byggingu á lóðinni um mánaðamótin febr.—marz 1967. Fyrsta hæð hússins verður að mestu leyti vörugeymsla auk farþegaafgreiðslu, eins og áður segir. Á næstu hæð verður síðan opið bifreiðastæði sunnan umferðarbrúarinnar. 3. og 4. hæð verða skrifstofuhæðir meðfram Tryggvagötu og Pósthússtræti og undir suðvesturhorni hússins verður kjallari, sem að vissu leyti var ekki mikill áhugi á að byggja, en það var skilyrði frá skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar, að hann yrði byggður. Gólfflatarmál hússins er 8.842.5 m2 og rúmmál alls 40.740 m3. Fyrsta hæð hússins er að flatarmáli 3.780 m2, en skrifstofuhæðirnar hvor um sig 1.615 m2. Á bifreiðastæðinu yfir 1. hæð verður stæði fyrir ca. 105 bíla.

Tekjur sjóðsins hafa verið alls frá upphafi til síðustu mánaðamóta um 82.2 millj. kr. og gert er ráð fyrir, að á þessu ári muni tekjurnar af gjaldinu, sem falla til tollsjóðsins, nema 11 millj. 820 þús. kr. Það ætti því með hliðsjón af þessu að vera tiltölulega auðvelt að fá bráðabirgðalán sem þyrfti ekki að standa til langs tíma, til þess að koma húsinu öllu í notkun, en það er hin mesta nauðsyn og skiptir auk þess allverulegu máli atvinnulega séð að þurfa ekki að stöðva þessa vinnu, því þarna vinnur margt manna og mun verða lögð áherzla á, að reynt verði að ljúka húsinu, að koma því í notkun og sjá til þess, að það geti farið að skila þeim árangri, sem til var stofnað og skila leigutekjum, sem það að vísu er farið að skila nú þegar, en á að geta gert mun betur, ef hægt er að ljúka byggingunni. Þar sem húsið er allt byggt fyrir eigið fé, nema þau lán, sem nú kunna að verða tekin til bráðabirgða, ætti að sjálfsögðu að geta orðið á því hagkvæmur rekstur.