23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í D-deild Alþingistíðinda. (3948)

194. mál, tollstöðvarbygging við Reykjavíkurhöfn

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör við þessum fsp. Ég tek undir það með honum, að æskilegt er, að þetta hús geti sem fyrst orðið fullgert og eftir þeim upplýsingum, sem hann gaf um fjárhagsástand byggingarinnar, standa vonir til, að ekki ætti að þurfa að stöðva byggingarframkvæmdir við húsið, þar sem þegar hefur verið séð fyrir fjármagni fyrir u.þ.b. 2/3 hlutum byggingarinnar og árlegar tekjur af tekjustofnunum, sem ég gat um í upphafi, eru 12 millj. og treysti ég því, að einhvern veginn takist að útvega fjármagn til þess að ljúka því. Um svörin að öðru leyti skal ég ekki hafa mörg orð. Ég er þessu máli ekki verulega kunnugur. Tvö atriði vekja þó umhugsun hjá mér, aðallega í sambandi við notkun hússins. Það er í fyrsta lagi það, hvernig eigi að koma við tollskoðun á farþegum, sem fara um Reykjavíkurhöfn. Aðstaða til þeirrar tollskoðunar hefur verið ákaflega léleg. Það er þarna timburhús framarlega á hafnarbakkanum, lítið og óhentugt og þar að auki fyrir allri umferð, sem notazt hefur verið við og ég tel víst, að tollgæzlan hafi gert sér vonir um, að þessi starfsemi gæti flutzt í nýja húsið. Ég sé ekki, að fyrir því sé gert ráð, samkvæmt þeim upplýsingum, sem fjmrh, gaf hér, að sú afgreiðsla verði í húsinu, þar sem búið er að leigja Eimskipafélagi Íslands alla neðri hæðina og allan kjallarann. Og það vekur satt að segja nokkra umhugsun hjá mér í öðru lagi, hvernig standi á því að allt það húsnæði, sem tollgæzlan á að fá til afnota til sinnar rannsóknastarfsemi og hvað sem það nú er, sem gert er í tollgæzlu, að það skuli eiga að fara fram í húsnæði, sem búið er að leigja einu skipafélagi. Þetta þykir mér nokkuð undarleg tilhögun. Ég ætla út af fyrir sig ekki að hafa frammi gagnrýni á þetta fyrirkomulag. Það má vera, að það séu rök sem mæla með því, en satt að segja hélt ég, að þetta hús væri fyrst og fremst byggt fyrir tollgæzluna, tollgæzlan ætti sjálf að ráða yfir þessu húsi og hún ætti að ráða því, hvaða vörur væru þarna inni, hvernig væri með þær farið og það þyrfti kannske að rannsaka farma frá fleiri skipafélögum en Eimskipafélagi Íslands, og hvar á þá að gera það eftir breytinguna? Mér finnst einhvern veginn, að þetta sé ekki í samræmi við þá notkun hússins, sem ég a.m.k. hafði gert ráð fyrir, að þarna ætti að fara fram. Vel má vera, að það séu til skýringar, en ég hef þær ekki á reiðum höndum.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðh.