20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

1. mál, fjárlög 1969

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram brtt. við fjárl. Í fyrsta lagi eru það tvær brtt., sem hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmur Hjálmarsson, flytur með mér í sambandi við framlag til veðdeildar Búnaðarbankans, 10 millj. kr., og heimild til þess að taka lán allt að 10 millj. kr. til sömu stofnunar.

Eins og kom hér fram á hv. Alþ. í fyrirspurnatíma fyrir skömmu, þar sem rædd var fsp. frá hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafi Jóhannessyni, um veðdeildina og ástæður hennar, eru óafgreidd lán á annað hundrað í veðdeildinni. Á árinu 1967 mátti segja, að lán væru afgreidd næstum að segja jafnóðum og umsóknir bárust, og margir, sem sóttu um þessi lán, treystu alveg á það að fá lánin innan skamms tíma og gerðu ráðstafanir í sambandi við það. Það kom fram í þessum umr. um þetta mál, að það hefðu verið lánaðar út fyrri part s.l. árs rúmlega 5 milljónir kr., og það kom líka fram, að það mundi vanta allt að 20 millj. kr. til að fullnægja þeim lánsumsóknum, sem lágu þá fyrir veðdeildinni. Það eru nú fimm, sex vikur síðan þessi fsp. var rædd hér, og þykir okkur því rétt, að vakin sé athygli á þörfum veðdeildarinnar, og óskum eftir því, að hv. þm. sjái sér fært að samþykkja þessar till. okkar.

Ég er hér líka með brtt. í sambandi við hafnarmannvirki. Það er nýr liður, „Hrísey 4 millj.“ Ástandið í Hrísey er þannig, að þegar er vont veður þar, mega þeir flýja með bátana burtu, og þess vegna er það mjög brýnt, að þetta mannvirki, sem þar er fyrir, verði lagað, og ég held, að það hafi verið í fyrra, sem bryggjan skemmdist mikið í ofviðri, og ef hægt væri að fara í þessa framkvæmd, sem hér er fyrirhuguð, mundi það koma í veg fyrir slíkar skemmdir. Af þessum ástæðum hef ég leyft mér að bera fram þessa till., og er það eftir ósk heimamanna.

Í fjórða lagi er svo brtt. í sambandi við barnaskólann á Þelamörk, Þelamerkurskólann, að liðurinn breytist þannig, að í staðinn fyrir 250 þús. komi 4 millj. og 300 þús. kr. Ég verð að rifja svolítið upp þetta mál, til þess að hv. alþm. geri sér grein fyrir því, hvað hér er á ferðinni. Að beiðni skólanefndar Þelamerkurskólans og oddvita þeirra hreppa, sem að honum standa, ætlaði ég að flytja brtt. við 3. umr. fjárl. fyrir árið 1968 þess efnis að fá framkvæmdaleyfi, þó án hækkunar á fjárveitingu á árinu 1968 til skólans. Voru hrepparnir búnir að tryggja sér að geta gert bygginguna fokhelda á liðnu sumri, ef þetta leyfi hefði fengizt. Ég ræddi þetta við hv. 6. þm. Norðurl. e., Magnús Jónsson, og varð það að samkomulagi, að ég legði ekki till. mína fram, en hins vegar ætlaði hv. þm. að vinna að málinu með mér til þess að byggingarleyfi fengist. Þar sem ég var búinn að sjá, að allar till. stjórnarandstöðunnar voru stráfelldar, hvaða nafni sem þær nefndust, taldi ég það vænlegra til árangurs að fara þessa leið í málinu. Síðan þetta gerðist hefur nú liðið heilt ár, og málinu hefur sannarlega verið haldið vakandi. Fyrir utan allar mínar tilraunir til þess að fá byggingarleyfið hafa tveir af skólanefndarmönnum Þelamerkurskólans komið hingað til Reykjavíkur, gengið á milli Heródesar og Pílatusar, en árangurinn hefur lítill orðið þrátt fyrir mikið erfiði. Í vor var því borið við af hinum vísu mönnum, að sú teikning, sem búið var að ganga frá, væri ekki í réttum mælikvarða, þó að það væri teiknað á sama hátt og undanfarið hefði tíðkazt um slíkar byggingar. En nú er ekki hægt að bera því við, teikningunum, þær eru frágengnar og samþykktar, og fyrir liggur staðfest skeyti frá öllum oddvitum viðkomandi hreppa, að þeir séu reiðubúnir til þess að leggja fram sitt framlag til byggingarinnar. Eftir því sem hæstv. menntmrh. upplýsti hér á Alþ. í fyrradag, þegar skólakostnaðarlögin voru til umræðu, hefur hæstv. ráðh. mælt svo fyrir, að skólaskyldunni skyldi fullnægt í öllum skólahverfum landsins og að viðkomandi aðilar hefðu fengið bréf upp á það. Hæstv. menntmrh. sagði enn fremur, að það hefði ekki staðið á því opinbera með þær skuldbindingar, sem því bæri í sambandi við að framkvæma skyldunámið. Með þetta í huga vil ég upplýsa eftirfarandi staðreyndir: Skólaskyldunni hefur aldrei verið framfylgt í skólahverfi Þelamerkurskólans, vegna þess að það er ekkert húsnæði til, sem fullnægir þörfum slíks skóla. En ef hæstv. menntmrh. veit betur en ég um þetta, óska ég eftir ábendingu til úrlausnar þessum vanda. Um langt árabil höfðu unglingar af þessu svæði aðgang að Menntaskólanum á Akureyri, gamla Möðruvallaskólanum, þar til fyrstu bekkir hans voru lagðir niður samkvæmt ákvörðun löggjafans núna fyrir fáum árum. Það má því segja, að það opinbera hafi tekið skólann af Eyfirðingum án þess að láta nokkuð í staðinn enn sem komið er, þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. menntmrh., að ekki hafi staðið á ríkinu að sínu leyti til að framfylgja lögum um skyldunámið. Skólinn var af okkur tekinn til annarra þarfa fræðslunnar í landinu, án þess að um það væri séð, að tiltæk úrræði væru fyrir hendi til unglingafræðslu í hans stað í þessum héruðum. Um nokkurra ára skeið var hægt að koma nokkrum unglingum úr byggðum Eyjafjarðar í Gagnfræðaskólann á Akureyri, en það er liðin tíð, því að sá skóli er þegar ofsetinn af börnum frá Akureyri. Foreldrar í þessu skólahverfi koma því ekki auga á neinn skóla fyrir börn sín og telja því, að fyrir því sé vægast sagt fullur rökstuðningur að byggja nú þegar við Þelamerkurskólann og þó að fyrr hefði verið. Í þessu sambandi má geta þess, að heimavistin á Laugalandi er aðeins fyrir 24 börn, en á þessu skólasvæði eru 95 börn fædd á árunum 1955–62. Og í Arnarnesskólahverfi eru 60 börn af sömu árgöngum, en unglingafræðslan fyrir Arnarneshrepp er einnig fyrirhuguð í Þelamerkurskóla. Sést því á þessu, hvernig ástandið er í þessum hreppum.

Nú sagði hæstv. menntmrh. margt fleira en ég hef þegar vitnað til í sínum ágætu ræðum í fyrradag og þ. á m. þetta, með leyfi forseta:

„Spurningin var eingöngu um það: Á að byggja marga skóla, mjög marga skóla? Á að byggja fáa skóla eða á að fara milliveg? Og reynslan sýndi, að það var hægt að ná, að ég held, samkomulagi. Mér kemur það alveg á óvart, ef ég stend í rangri trú um það. Það var hægt að ná samkomulagi í fjvn. hjá þeim mönnum, sem eitthvað fjalla um skólabyggingar, og hægt var að taka tillit til allra skynsamlegra og rökstuddra óska, ef þessi meðalvegur væri farinn, að fara inn á fjögurra ára regluna.“

Ég endurtek, að hægt var að taka tillit til allra skynsamlegra og rökstuddra óska, ef þessi meðalvegur væri farinn, að fara inn á fjögurra ára regluna. Þetta sagði hæstv. menntmrh. hér úr ræðustóli í fyrradag. Hér stendur það svart á hvítu. Og nú er búið að samþykkja skólakostnaðarlögin, eins og hæstv. menntmrh. sagði, að þyrfti að gera til að geta tekið tillit til allra rökstuddra óska um skólabyggingar.

Ég sé því á þessu, að hv. fjvn. hefur orðið á, þegar hún tók ekki Þelamerkurskólann með í tölu þeirra skóla, þar sem fjárveiting var miðuð við það, að framkvæmdaleyfi fengist á næsta ári, því að ég tel mig hafa fært full rök fyrir því, að full þörf sé fyrir þessa byggingu og ekkert skorti á undirbúning málsins, og fjárskuldbinding liggur fyrir frá oddvitum þessara hreppa, sem að skólanum standa. Líklegt er því, að þessi skóli hafi fallið út af vangá, því að hver ætlar það, að hæstv. menntmrh. hafi ekki vitað, hvað hann var að segja hér á hinu háa Alþingi hér í fyrradag, og hverjir vilja gera hann ómerkan orða sinna? Það sést reyndar, þegar atkv. verða greidd um þessa till. mína um Þelamerkurskólann.

Ég á líka vissan stuðning við þetta mál hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., Magnúsi Jónssyni, það er ársgamalt loforð. Hins vegar má vera, að hæstv. fjmrh. vilji hafa áhrif á afstöðu þingmannsins, en allt þetta kemur í ljós við atkvgr. á morgun.