20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

1. mál, fjárlög 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér finnst nú heldur leiðinlegt að þurfa að karpa við samþm. mína. En hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, hefur hagað orðum sínum þannig, að ég kemst ekki hjá því að segja hér örfá orð.

Það er rétt, sem hann sagði, að á s.l. vetri ræddi hann um það við mig, hvort það mundi ekki vera hægt að fá að byrja á umræddum skóla, Þelamerkurskóla, án þess að skuldbinding lægi fyrir hendi um það, hvenær hann yrði tekinn inn á framkvæmdaáætlun, vegna þess að aðstandendur skólans hefðu fé til þess að gera skólahúsið fokhelt. Ég taldi sjálfsagt að vinna með honum að þessu. Það voru til viss fordæmi fyrir því, að þetta hafði verið gert í einu eða tveimur tilfellum. En það kom hins vegar á daginn eftir upplýsingum frá skólayfirvöldum, þegar komið var fram á sumar og var farið að ræða um skiptingu fjár og ákveða framkvæmdaáætlun ársins, að fullnægjandi pappírar lágu alls ekki fyrir frá aðilum þessa máls, eins og hv. þm. í rauninni upplýsti sjálfur. Hann sagði að vísu, að það hefði byggzt á því, að hefði verið hangið á formum í því, en teikningar höfðu ekki verið staðfestar, og það veit hv. þm. mætavel sjálfur. Það kom svo aftur líka til viðbótar þessu, að ákveðið var, að nýju skólakostnaðarlögin skyldu taka gildi í haust, og það var ljóst, að eftir það var útilokað að leyfa neinum skóla að byrja með þessum hætti af þeirri einföldu ástæðu, að ef teikning yrði staðfest, mundi það vera ákvörðun um það, að ríkið yrði að borga þetta samkvæmt nýju skólakostnaðarlögunum, þannig að þennan gamla hátt var ekki hægt á þessu að hafa. Þetta veit hv. þm. sjálfur. Hv. þm. veit einnig mætavel sjálfur, að fræðsluráð Eyjafjarðar hefur tekið þá ákvörðun að vísu að mæla með bæði Þelamerkurskóla og Hrafnagilsskóla, en hins vegar látið það ótvírætt í ljós, ef ekki væri hægt að taka báða skólana, að þá skyldi Hrafnagilsskóli sitja fyrir, og þetta hefur einnig verið gert. Þetta veit hv. þm. líka mætavel. Hvort hann telur vera einhverja sérstaka baráttu í mínum huga milli 6. þm. Norðurl. e. og fjmrh., það getur hann haft sínar skoðanir um sem hann vill, ég kæri mig ekkert um að vera að karpa við hann um það. Hitt held ég, að engum manni hafi dottið í hug og ekki heldur hæstv. menntmrh., að það væri hægt að taka þrátt fyrir 4 ára tímamarkið alla þá skóla, sem hugsanlegt væri eða sem í rauninni væri ástæða til að taka inn á framkvæmdaáætlun, ef 4 ára markið yrði valið. Og ég get upplýst hv. þm. einnig um það, að hefði 4 ára markið ekki verið valið, eru mjög litlar líkur til, að Hrafnagilsskóli hefði komizt inn á framkvæmdaáætlun, og það hygg ég, að skipti okkur þó æðimiklu máli, að það gerist, og það er sá skóli, sem er nr. 1 í þessu máli. Hv. þm. veit líka það, að það eru viss atriði, sem ég ætla ekki að fara að rekja hér, það eru innankjördæmismál, sem valda því, að það eru meiri erfiðleikar á að fá fleiri skóla þar viðurkennda vegna skuldbindinga, sem var búið að gera í sambandi við tvo aðra skóla og ég skal ekki hér fara að ræða. Nú, hann verður svo að hafa sinn máta um það, hvort hann segir okkar kjósendum heima fyrir, að ég hafi staðið slælega í stykkinu, svo að ég noti nú lélega íslenzku, fyrir mína kjósendur þarna eða ekki. Það læt ég hann alveg um. En ég læt hins vegar ákveðið í ljós þá skoðun, að þetta er skóli, sem verður að vinna að, að komist sem allra skjótast í framkvæmd, vegna þess að það er rétt, að það er ekki hægt að uppfylla fræðsluskylduna á þessum stað, fremur en var í Fram-Eyjafirði, þannig að þessi skóli þarf vissulega að komast mjög snemma upp, og vildi ég mega vænta þess, að það yrði auðið að taka hann inn á framkvæmdaáætlun með eðlilegum hætti og inn á fjárlög á næsta þingi. A.m.k. vil ég lýsa yfir bæði sem fjmrh. og 6. þm. Norðurl. e., að það rekast ekkert á skoðanir okkar í því efni.

Ég ætla annars ekki að fara að ræða hér innankjördæmismál, en úr því að hann kaus, hv. þm., að fara að blanda mér inn í þetta með þessum hætti, vildi ég aðeins segja þetta. Hins vegar hefur ekki verið neitt slæm samvinna á milli okkar um þetta mál, þannig að það hefur a.m.k. ekki viljandi af minni hendi verið reynt að setja fótinn fyrir það.