17.02.1969
Neðri deild: 46. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Að því hefur verið fundið, að af hálfu ríkisstj. væri lítil þátttaka í þessum umr. og sumum öðrum svipuðum. Það er rétt að upplýsa, sem raunar mun hafa komið fram í umr. áður, að ég átti í dag tal við hv. form. stjórnarandstöðuflokkanna um afgreiðslu þessa máls og fór þess á leit, að greitt yrði fyrir því, að málið fengist afgr. í dag eða nú í nótt, og voru höfð góð orð um það.

Við þekkjum það, sem kunnugir erum þingstörfum, að til þess að svo geti orðið, eins og umræðuvenjur eru á Alþ., — ég hef stundum fundið að þeim í öðru sambandi, — þá næst slíkt ekki, nema ríkisstj. og hennar stuðningsmenn taki tiltölulega lítinn þátt í umr., einungis geri grein fyrir höfuðatriðum máls, en láti að öðru leyti umr. og einstök atriði að verulegu leyti afskiptalaus. Þetta er gömul reynsla, ekki einungis frá núv. stjórn, ég minnist þess, að Hermann Jónasson hafði orð á þessu á sínum tíma, bæði á hans fyrra stjórnartímabili og á vinstristjórnarárunum, að þetta væru nauðsynlegir starfshættir af hálfu ríkisstj., ef hún vildi koma málum fram af skyndingu. Og hv. stjórnarandstæðingar hafa nú, þrátt fyrir ólíka afstöðu og innbyrðis ólíka afstöðu til málsins, fallizt á, að eins og komið væri, þá væri það eðlileg ósk ríkisstj., að málið yrði skjótlega afgr. Ég tek hér undir með þeim hv. þm., sem sagði það hér áðan, að auðvitað er okkur engin vorkunn frekar en bæði hv. stjórnarandstæðingum og öðrum að sitja hér eina næturstund, ef það getur orðið einhverjum til fróunar og upplýst mál frekar. En þá er einnig á það að líta, að ég skil það svo, að samkomulag hafi orðið milli mín og hv. forustumanna stjórnarandstöðuflokkanna, um að nú einhvern næstu daga yrðu almennar umr. um vanda efnahagsmálanna, og þá einnig þennan þátt þeirra, almennar umr., sem tækju þá heilan dag að minnsta kosti. Og ég hafði skilið, að þá væri eðlilegra, að menn biðu með almennar umr. til þeirrar fyrirhuguðu umr. og reyndu að stytta mál sitt nú. Þetta vildi ég einungis segja almennt um málsmeðferð.

Það er rétt, sem ég tók fram við samkomu þingsins aftur eftir jólafríið, að í þessari deilu virðist hafa borið mun minna á milli heldur en fyrirfram hefði mátt ætla eftir ummælum hv. stjórnarandstæðinga, bæði fyrir áramótin og öðru hvoru nú. Menn geta haft og hafa mismunandi afstöðu til sjávarútvegslaganna, sem sett voru í desember, en það verður að viðurkenna, að samningarnir og samningaumleitanirnar, sem nú hafa átt sér stað, eru allar innan ramma þeirra laga, og meginatriði þeirra l. er grundvöllur þessara viðræðna. Það er ekki verið að reyna að brjóta þau l. á bak aftur með þessum samningum og heldur ekki með kröfugerð, sem ég hef heyrt um getið. Ég legg á það áherzlu, að þetta er mjög þýðingarmikið atriði, og sýnir — eins og ég sagði á dögunum — almennari skilning á okkar erfiðleikum en ýmsir öðru hvoru virðast halda að sé fyrir hendi. En með þessu er auðvitað ekki allur vandi leystur. Eftir sem áður stendur það eilífa vandamál, hvar eru mörkin milli þess, sem atvinnurekendur telja sér fært að greiða, og þess, sem verkalýður telur sér nauðsynlegt að fá. Hvorugt þarf að vera af nokkrum illvilja. Hvort tveggja getur verið sett fram í fullkomlega góðri trú, en þarna eru venjulega mismunandi skoðanir fyrir hendi, sem eins og nú getur tekið langan tíma að komast að niðurstöðu um. Það er rétt, að ef sjávarútvegslögin hefðu ekki verið sett í des., þá væri vandi okkar miklu meiri en hann er nú. Þá væri enginn fjárhagslegur grundvöllur fyrir útgerð hér á landi yfirleitt, og það, sem nú er um deilt, er auðvitað smáræði miðað við það, sem þá var leyst.

En engu að síður liggur það nú fyrir, að aðilar hafa haft mjög ólíkar skoðanir á því, hvað hægt væri að greiða. Ég tel sjálfur, að það hefði verið hægt að komast að samkomulagi í þessari deilu fyrr, og ég hef marglýst því yfir, að ég hafði trú á því, hafði þá bjartsýni, vegna þess að mér sýndist ekki meira bera á milli en raun ber vitni, að þarna ætti að vera hægt að finna lausn. Það má segja, að með meiri atorku hefði verið hægt að knýja fram lausn fyrr, ef til vill með skipun sáttanefndar, eins og sumir hafa nefnt hér nú. Við töldum, að eftir atvikum þá mundi það ekki hafa þýðingu. Og við getum sagt það, að okkur öllum öðrum ólöstuðum, að ég held, að enginn Íslendingur þekki betur til sáttastarfa, eða sé hæfari til þess að leiða aðila í deilum til sameiginlegrar niðurstöðu, en Torfi Hjartarson, sem að þessu vann nú af sínu vanalega þolgæði og hafði sér annan ágætan, nokkuð reyndan mann við hlið. Þessir menn lögðu sig alla fram um að fá lausn. Torfi Hjartarson sagði sjálfur, að þetta mál hefði verið í hálfgerðum baklás alla tíð, ef ég man rétt það, sem eftir honum var haft í einhverju blaði. Nú ætla ég ekki að áfellast neinn í þessu sambandi, en það má vel vera, að hv. stjórnarandstæðingar hafi rétt fyrir sér í því, að setning sjávarútvegslaganna, þó hún væri óhjákvæmileg og hafi verið viðurkennd af öllum sem forsenda fyrir áframhaldandi rekstri útvegsins, hafi skilið eftir nokkra þrjózku í hugsun sumra manna og hafi þess vegna átt óbeinan þátt í því, að erfiðara hefur verið að fá lausn á ýmsu, sem okkur sýnist ekki hafa ýkjamikla þýðingu. Það má vel vera, að svona sé, og það er athyglisvert, að nú eftir að hásetarnir eru búnir að semja, þá nást ekki samningar við yfirmennina, sem fá þó öll þau sömu hlunnindi og hásetarnir, og án þess að það sé glöggt. hvað það er, sem þarna ber í raun og veru á milli. Ég og aðrir hafa sagt, að það sýnist ekki vera ýkjamikið, en við verðum að játa, að það hefur ekki verið hægt að festa hendur á, hvað það er, sem í raun og veru ber á milli. Og það er athyglisvert, að í sjónvarpinu s.l. föstudag, þá kemur þar fram ágætur maður, sem mér er sagt, að hafi lagt sig mjög frum um að leysa deiluna, og lýsir því yfir að nú verði að taka málið allt til meðferðar frá upphafi,. byrja á deilunni aftur, eins og málið stóð í byrjun eða um miðjan janúar. Auðvitað verðum við að segja að nokkuð hefur það mál verið sótt með offorsi, þegar verkföllin voru boðuð af slíkri skyndingu eins og gert var um miðjan janúar, og sýnir að þarna hefur verið eitthvað á ferðum, sem er ekki alveg gott að átta sig á, ef til vill, eins og ég segi, einhver afleiðing af því, að mönnum líkuðu ekki sjávarútvegslögin, þó að þeir hafi fallizt á meginforsendur þeirra og tekið þau gild sem undirstöðu, og alls ekki ætlað sér í verki að reyna að brjóta þau niður. Það má segja, að það hefði verið betra, ef fram hjá þessu hefði mátt komast. Það er rétt. En án setningar sjávarútvegslaganna í des. hefði verið um algjöra og fyrirsjáanlegu stöðvun að ræða, og auðvituð var þar ekki verið að ganga á rétt sjómanna efnislega. vegna þess að hvorki þeir né neinir aðrir eiga rétt á því að fá aukin hlunnindi sökum slíkrar neyðarráðstöfunar, sem gengislækkun er. Og það er eðlilegt og sjálfsagt. að ríkisvaldið, sem ákveður gengislækkunina. ákveði þá einnig, hvernig þeim hlunnindum. sem hún skapar skuli skipt niður, til þess að hún komi að því gagni, sem til er ætlazt. Þetta er óhjákvæmilegt. Hitt er svo annað mál, að að formi til mátti segja, að þarna væri hart að farið, og samningar voru vissulega felldir úr gildi, það er rétt, en þá einnig, að menn fengu rétt til þess að leita réttar síns með verkföllum. með samningsuppsögn. ef þeir svo vildu.

En eins og oft vill verða, ef aðilar hefðu þarna sýnt meiri skilning á báða bóga, ef útvegsmenn hefðu fyrr fallizt á lífeyrissjóðinn en þeir gerðu með þeim hætti. sem að lokum var samþykkt, og ef það hefði verið ljósara, hvað fyrir nokkrum hluta samningshópanna hinna vakti í raun og veru, þá hygg ég, að þessari deilu hefði verið hægt að fá lokið fyrr.

Varðandi hlut ríkisstj., þá er það sannast bezt að segja, að hún og hennar umboðsmenn tóku að sér að leysa vandasamasta þáttinn, spurninguna um matarpeningana. og það er síður en svo, að þar hafi verið reynt að leika á aðila, eins og einn hv. þm. virtist halda hér fram áðan. Það var einmitt með góðu samþykki aðila. og þegar þeir skoðuðu málið, þá sannfærðust þeir um, að þarna var um sanngjarna og eðlilega leið að ræða. Þegar það kom á daginn, að ekki stóð á öðru en því, að sjómenn eða hásetar töldu of þröngan stakk skorinn varðandi ákvörðun matarfjárins, þá beitti ríkisstj. sér fyrir því, að sú upphæð skyldi hækkuð. þó nokkur fjárhagsleg áhætta fylgi því. Þannig að tala um það, að ríkisstj. hafi látið eitthvað ógert til að leysa þetta mál, það hvílir á algjörum misskilningi, svo að ég noti ekki önnur sterkari orð. Ríkisstj. fylgdist þvert á móti með deilunni, lagði stöðugt áherzlu á, að henni yrði lokið sem fyrst, hafði stöðugt samband við hinn þrautreynda sáttasemjara Torfa Hjartarson um að ýta málinu áfram, hafði það samband við aðila, sem talið var að gæti greitt fyrir lausn, og átti hiklaust mestan þátt í því að lokum, að hægt var að hafa sáttatillöguna þannig, að sjómenn eða hásetar töldu sér fært að ganga að henni. Þetta er sannleikur málsins, og það er einnig þýðingarmikið, að menn átti sig á því, að alveg eins og yfirgnæfandi meiri hl. þeirra háseta, sem taka þátt í atkvgr., er samþykkur því, sem samningur hefur verið gerður um, þó að hitt hefði verið æskilegra. að það hefði verið meiri þátttaka í þeirri atkvgr., það er annað mál, þá liggur það fyrir, að það er ekki meira en 1/4 hluti allra yfirmanna á flotanum, sem hér eiga hlut að máli, sem nú hefur fellt tillöguna og ræður því, að flotinn er stöðvaður, ef ekki er að gert, og án þess, að því er mér skilst, og ég styðst þar ekki sízt við þá yfirlýsingu, sem í sjónvarpinu var gefin, að það fáist í raun og veru ljóst fram, hvað það er í alvöru, sem þessir menn halda fast við og ætluðu sér að knýja fram.

Það er einnig alveg ljóst, að það er einungis nokkur hluti yfirmannanna, sem þarna hefur sérstöðu frá öðrum og eru mun harðari í sinni afstöðu en hinir, og ég endurtek, án þess að ljóst sé til hlítar, hvað fyrir þeim vakir. Ég hef þann fyrirvara á því varðandi það, sem ég sagði áðan um, að manni sýndist, að hér bæri tiltölulega lítið á milli.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Ég vil einungis taka það fram, út af því, sem hv. 2. landsk. þm. spurði um, og hæstv. sjútvmrh. svaraði, að eftir því, sem ég skil þetta lagafrv., þá takmarkar það ekki á nokkurn hátt rétt aðila til baráttu fyrir vísitöluuppbót. umfram það, sem þeir hefðu takmarkað rétt sinn sjálfir ef þeir hefðu gengið að samningum, eins og hásetarnir hafa gert. Og sannast að segja, sé ég nú ekki. að það sé eðlilegt, að hv. 2. þm. landsk. ætli yfirmönnunum í þessu rýmri rétt en hásetarnir hafa skammtað sjálfum sér.