04.03.1969
Neðri deild: 60. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

77. mál, Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir, og eins og fram kemur á þskj. 300, þá mælir hún einróma með, að það verði samþ. óbreytt.

Ég vil geta þess, að forstöðukona Hjúkrunarkvennafélagsins átti tal við mig um þetta frv., og var það í sambandi við það, að sá aðili. sem þarna er um að ræða, að verði einnig hlutgengur í Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna, er nýr, en hann byrjaði starf sitt hjá félaginu að félagsmálum hjúkrunarkvenna árið 1965, og munu standa yfir viðræður um, að hann fái að kaupa sér eftirlaunaréttindi eða lífeyrisréttindi frá þeim tíma sem hann byrjaði að starfa. Ég taldi ekki eðlilegt, að þetta yrði tekið inn í frv., en heilbr.- og félmn. fyrir sitt leyti mundi að sjálfsögðu vera því samþykk, að samningar gætu orðið um þetta atriði, eins og stjórnendur Hjúkrunarkvennafélagsins munu hafa farið fram á. og eins og fram kemur þá leggur n. einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.