18.12.1968
Efri deild: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

4. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er allmikill lagabálkur, en að undirbúningi þess vann sérfræðinganefnd, eins og getið er í aths. við frv. Ég tel frv. mjög mikilvægt og legg mikla áherzlu á, að það geti náð fram að ganga á þessu þingi. Það var lagt fyrir s.l. Alþ., eins og kunnugt er, í Nd., en náði ekki afgreiðslu. Nú hefur frv. hlotið afgreiðslu í Nd. með lítils háttar breyt., sem efnislega skipta ekki neinu verulegu máli. Mér er það ljóst, að þessi hv. d. þarf að hafa sinn eðlilega tíma til að athuga málið, en eins og ég sagði, legg ég mikla áherzlu á, að það geti náð fram að ganga, en í frv. sjálfu er gert ráð fyrir, að gildistaka þess verði frá 1. jan. 1970, svo að það vinnst nægur tími til að vinna að málinu á framhaldi þessa þings. Ég skal ekki eins og nú standa sakir tefja tímann með neinni frekari grg. fyrir þessu máli, sjálfar aths. og þær upplýsingar, sem þeim fylgja frá þeirri n., sem undirbjó málið, eru mjög ítarlegar, og sem hv. þdm. hafa góðan og greiðan aðgang að til að gera sér fulla grein fyrir eðli málsins, og að svo miklu leyti, sem þn., sem fær málið til meðferðar, teldi sig þurfa að fá frekari upplýsingar, þá er auðvitað rn. reiðubúið til að láta þær í té með aðstoð allra þeirra sérfræðinga, sem að málinu störfuðu.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.