27.03.1969
Neðri deild: 71. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

201. mál, lántökuheimildi fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er tvíþætt. Það er annars vegar um heimild til þess að taka allt að 300 millj. kr. lán fyrir Framkvæmdasjóð Íslands og hins vegar til þess að taka allt að 180 millj. kr. lán í þýzkum mörkum til byggingar hafrannsóknaskips. Ég vil fyrst víkja aðeins örfáum orðum að síðari heimildinni, sem felst í 2. gr. frv. um hafrannsóknaskipið.

Í fjárlögum yfirstandandi árs var veitt heimild til þess að ábyrgjast lántöku vegna hafrannsóknaskips, en þegar til kom, var það ljóst, að það var hagkvæmara að taka lánið með þeim hætti, að ríkissjóður yrði lántaki í stað þess að vera ábyrgðaraðili. Það fengist þá með hagstæðari lánskjörum. Lán hefur verið tryggt til byggingar skipsins til 12 ára með 51/2% vöxtum, sem er mjög hagstætt lán miðað við núverandi lánskjör á hinum alþjóðlega lánamarkaði, og niðurstaðan er sú, að ríkissjóður taki lánið. Það er því aðeins um það að ræða að fá heimildinni breytt á þann veg, að ríkið taki lánið í stað þess að veita ábyrgð, þannig að hér er ekki um nýja lántöku að ræða.

Um Framkvæmdasjóðinn er það að segja, að eins og mönnum var kunnugt, var, meðan Framkvæmdabanki Íslands var starfandi, almenn lántökuheimild í lögum um þann banka, sem var hækkuð öðru hverju hér á Alþingi og nam orðið mjög verulegum fjárhæðum. Það var venja, að þessar lántökuheimildir væru veittar án þess að sérstaklega væri ákveðið af Alþ. hverju sinni til hverra þarfa þetta fé væri notað, heldur var það látið vera á valdi bankastjórna og bankaráðs Framkvæmdabankans á þeim tíma. Nú hefur Framkvæmdasjóður Íslands tekið við hlutverki Framkvæmdabankans, en það er engin hliðstæð lántökuheimild vegna Framkvæmdasjóðsins. Þetta hefur valdið ýmsum erfiðleikum og það þykir því mikla nauðsyn bera til þess nú vegna mikillar fjárþarfar, sem Framkvæmdasjóður sýnilega stendur andspænis, að fá sérstaka lántökuheimild, sem væntanlega yrði miðuð við erlent lán. Stjórn Framkvæmdasjóðs er þingkjörin, og það þykir því ekki ástæða til þess að vera að taka sérstaklega fram í þessu frv. til hverra einstakra þarfa þetta lánsfé skuli ganga, heldur er aðeins vikið að einstökum viðfangsefnum, sem mjög brýnt er nú að leysa og sem gera óumflýjanlegt að afla allverulegs lánsfjár. Á s.l. ári fékk Framkvæmdasjóður 113 millj. kr. af ensku framkvæmdaláni, sem tekið var og gerði honum þá kleift að leysa brýnustu vandamál, sem að steðjuðu, og var þá raunar um verulega umframfjárþörf að ræða hjá Framkvæmdasjóði, sem ekki var hægt að leysa úr.

Nú er það ljóst, að sjóðurinn stendur andspænis enn þá stærri vandamálum og viðfangsefnum á þessu ári, og það er jafnframt ljóst, að það verður ekki nema að takmörkuðu leyti hægt að leysa þessa lánsfjárþörf með innlendu lánsfé. Gert er ráð fyrir að leita samstarfs við bankana eins og áður um hlutdeild í sparifjármyndun í landinu, en það er augljóst, að það hrekkur ekki nema skammt til að mæta þörfunum. Það er ekki enn þá búið að ganga frá lánsfjár- eða fjárveitingaáætlun Framkvæmdasjóðs í ár. Stjórn Framkvæmdasjóðs á eftir að gera það, og þess vegna er á þessu stigi málsins ekki nákvæmlega hægt að segja um það, til hverra þarfa þessar 300 millj. muni ganga, sem hér er gert ráð fyrir að taka. En ég get aðeins drepið á nokkur atriði í þessu sambandi til að útskýra vandamálin, sem fyrir hendi eru.

Ég hygg, að stærsta vandamálið nú, sem sjóðurinn stendur andspænis í nýjum lánveitingum, sé vegna Fiskveiðasjóðs Íslands og þá ekki hvað sízt vegna skipabygginga innanlands, sem eru að sjálfsögðu stórfellt atvinnuvandamál og mikilvægt hagsmunamál þess vegna nú, bæði skipasmíðastöðvanna og þjóðarinnar í heild, að sé hægt að hrinda áleiðis. Fiskveiðasjóð vantar mikið fé á þessu ári, vafalaust um 150 millj. kr., sem verður að útvega með einhverjum hætti, og það er hlutverk Framkvæmdasjóðs að reyna að sjá Fiskveiðasjóði fyrir þessu fjármagni. Þá er enn fremur gert ráð fyrir, að ráðizt verði á næstunni í stækkun Áburðarverksmiðjunnar og það mun þurfa verulegt fjármagn í því sambandi. Þá er vitanlegt, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur ákveðið stóra stækkun skinnaverksmiðjunnar lðunnar á Akureyri og hefur leitað til Framkvæmdasjóðs eftir aðstoð í því sambandi og má gera ráð fyrir, að þar þurfi einnig að útvega allverulegt fjármagn. Þá eru framundan byrjunarframkvæmdir við nýju Laxárvirkjunina, og þannig mætti nefna margvísleg viðfangsefni, sem of langt er að nefna hér, og ég vil taka skýrt fram, að ekki er tæmandi þó að ég drepi hér á helztu viðfangsefnin.

En þessi vandamál eru öll þess eðlis, að það verður óumflýjanlegt að afla til þeirra mjög verulegs fjár og eðlilegt, að það verði á snærum Framkvæmdasjóðs Íslands að hafa milligöngu um þá fjáröflun. Það er ekki ætlunin, að þetta fjármagn fari til ríkisþarfa í þrengri merkingu. Það verður sérstakur þáttur í framkvæmdaáætlun ríkisins, sem hér kemur til meðferðar aftur síðar á þinginu, þegar þarf að afla lántökuheimilda í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkissjóðs, en gert er ráð fyrir á þessu stigi, að sú fjáröflun verði takmörkuð annars vegar við PL-lán, sem hefur verið veitt á undanförnum árum, og hins vegar innlenda spariskírteinasöfnun, þannig að hún þurfi ekki að grípa inn í almennt lánsútboð á erlendum markaði. Þá vil ég enn fremur taka það fram, að það ber brýna nauðsyn til þess, og það er haft í huga með þessari lánsfjáröflun, að breyta í miklu hagkvæmari lán ýmsum lausaskuldum erlendis, og er þar ekki hvað sízt um að ræða stórlán, sem er skuld frá tímum Framkvæmdabankans við banka í London, um 160 millj. kr., sem ætlunin er að breyta í hagkvæmara lán, ef tekst nú að fá það lán, sem hér er gert ráð fyrir að taka.

Þetta lánamál hér verður einnig að skoða með hliðsjón af því frv., sem var hér til meðferðar í hv. þd. rétt áðan, þ.e.a.s. fjáröflun vegna atvinnumálanefndar ríkisins. Þar er gert ráð fyrir að taka 300 millj. kr. að láni, og það má gera ráð fyrir, að verulegur hluti af því fé, væntanlega 2/3, þurfi að vera erlent lánsfé. Þannig að samkv. þessu má gera ráð fyrir, að stefnt verði að því að afla um 500 millj. kr. í erlendu lánsfé til þessara tveggja verkefna. Ég vil leggja á það ríka áherzlu, sem ég hef áður gert, að miðað við okkar ástand nú varðandi greiðslubyrði út á við, þá er vitanlega varhugavert að taka mikið af erlendum lánum. Hitt er jafnljóst, að við getum ekki stöðvað þessa lántöku vegna brýnna fjárþarfa okkar á mörgum sviðum, og einmitt með það í huga að komast út úr þessum vanda og skjóta nýjum stoðum undir atvinnulíf þjóðarinnar. Af þessum sökum tel ég, ef við gætum þess eins að einbeita þessum lánum annars vegar að því að auka framleiðslu þjóðarinnar og hins vegar að því að breyta óhagkvæmum, erlendum lánum í hagkvæmari lán, séum við að bæta okkar stöðu en ekki rýra hana, þó að við að einhverju leyti aukum lántökur okkar erlendis. Það er nú unnið að þessari lántöku á erlendum vettvangi og þykir mjög líklegt, að hún geti tekizt, og það þótti ekki rétt að leggja þetta frv. fram, fyrr en nokkuð ljóst væri, að það gæti orðið að veruleika. Ég tel hins vegar ekki mögulegt á þessu stigi málsins að skýra nákvæmlega frá því, hvar lánið verður tekið. Það er ekki hægt, fyrr en samningar hafa verið gerðir um það, en þeir samningar eru það skammt undan, ef allt fer að óskum, að það er mjög mikil nauðsyn, að þetta mál gæti orðið afgreitt hér frá hinu háa Alþ., helzt nú fyrir páskahléið, þannig að ég vil leyfa mér að fara þess á leit, ef það þykir ekki alveg ótilhlýðilegur afgreiðslumáti, að hv. þdm. fallist á að hraða verulega afgreiðslu málsins, þannig að það gæti orðið að lögum hér frá Alþingi og vildi jafnframt beina þeim tilmælum til hv. fjhn. nú fyrir páska.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn. og vildi jafnframt beina þeim tilmælum til hv. fjhn., að hún hefði samvinnu við fjhn. Ed. um athugun frv., þannig að það gæti þá orðið afgreitt með skjótari hætti í hv. Ed.