03.03.1969
Efri deild: 53. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

128. mál, fiskveiðar í landhelgi

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, eru lög um rétt til fiskveiða í landhelgi frá 1922 mjög ströng, að því er snertir aðgang til kaupa á afla af erlendum skipum, eða rétt erlendra skipa til að landa afla sínum hér á landi. Undanþágu er í raun og veru samkvæmt þeim 1, ekki að fá nema í hreinum neyðartilfellum, og miðast ekki við að erlend fiskiskip geti komizt hér að til sölu á afla, — í venjulegri markaðsleit fyrir aflann, ef svo mætti að orði komast.

Þegar þessi lög voru sett, var það eðlilega, eins og þá stóð á, efst í hugum manna, að vernda rétt hinna íslenzku aðila, bæði fiskimanna og fiskverkenda. Það, sem þá þurfti að koma í veg fyrir, var að íslenzkar hafnir væru eins konar verstöðvar fyrir útlendinga, sem sköpuðu sér hér aðstöðu í skemmri eða lengri tíma án nokkurra skyldna við landsfólkið, en aðeins til að hafa not aðstöðunnar um takmarkað árabil. Þetta var reynslan í gamla daga um hvalveiðar og síldveiðar, bæði til söltunar og bræðslu, og við munum eftir sögu þessara verkunarstöðva, sem síðan munu víst allar fallnar úr sögunni, fyrir það, að þær voru aldrei reistar með innlenda hagsmuni í huga, heldur erlenda hagsmuni eigendanna. Þegar þeir buðu þeim ekki lengur að vera um kyrrt, þá fluttu þeir sig eðlilega um set á aðra staði. Nú er svo fyrir að þakka, að á þeim áratugum, sem síðan eru liðnir, hefur margt breytzt til hins betra í þessu landi og sú hætta, sem þá þurfti sérstaklega að varast, er nú engan veginn sú sama, jafnvél orðin hverfandi. Og nú stendur þannig á, að oft og einatt er það einmitt okkur í hag, íslenzku vinnslustöðvunum í hag og íslenzka þjóðfélaginu í heild, að geta tekið við afla erlendra fiskiskipa til frekari verkunar og útflutnings. Menn hafa þegar komizt að þeirri niðurstöðu hér á Alþ. að svona gæti farið, því að á þinginu 1966 voru samþ. l., sem gáfu svipaða heimild þeirri sem nú er farið fram á, en aðeins um tiltekinn tíma. Vegna þess að sú heimild er nú fallin niður, þarf að endurnýja hana, en jafnframt bætist önnur röksemd við nú í dag, og hún er sú, að nú seinustu misserin hafa íslenzku síldveiðiskipin oft þurft að leita til erlendra hafna til að leggja upp afla sinn, og þá ekki aðeins til hinna venjulegu söluhafna í Þýzkalandi og Bretlandi, heldur hafa þau og leitað til hafna í Færeyjum og Noregi, og fengið þar góða fyrirgreiðslu, en ef satt skal segja, ekki alltaf eftirtölulaust, að minnsta kosti ekki frá vissum aðilum í Noregi, sem þarna eiga hagsmuna að gæta.

Til þess að auðvelda beiðnir um undanþágur frá ákvæðum, sem gilda á hverjum stað erlendis, um landanir úr íslenzkum fiskiskipum, væri íslenzku ríkisstj. tvímælalaust mikil stoð af því að geta boðið eða minnsta kosti geta gefið undir fótinn um gagnkvæma meðferð gagnvart þegnum þessa lands, sem verið er að leita til hverju sinni. Tel ég það vera mjög aukna ástæðu til þess að samþykkja beri þá heimild, sem farið er fram á með frv., sem við erum nú að ræða hér í hv. deild. Með þessi sjónarmið í huga hefur sjútvn. fallizt á að styðja framgang þessa frv., og vil ég því leggja til, að frumvarpsgreinarnar hljóti samþykki hér í deildinni í dag og að frv. verði vísað til 3. umr.