29.04.1970
Neðri deild: 89. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

127. mál, veiting ríkisborgararéttar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir mjög leiðinlegt að þurfa að skýra hinu háa Alþ. frá því, að n. sú, sem á sínum tíma var skipuð til þess að endurskoða gildandi lög um mannanöfn, hefur ekki enn lokið störfum. Ég hef á undangengnum vetri enn gengið eftir því að hún lyki störfum, en það hefur ekki tekizt enn. Ég hygg, að skýringin sé sú, að einn þeirra nm., sem einna sérfróðastur er um þau mál, sem hér er um að ræða, prófessor Ármann Snævarr, hefur verið erlendis í orlofi frá störfum í vetur, og hygg ég þetta vera meginskýringuna á því, að n. hefur í vetur ekki lokið störfum, eins og hún hafði þó gefið mér ákveðin fyrirheit um á s.l. sumri. Ég mun enn gera mitt til þess, að niðurstaða n. liggi sem fyrst fyrir.

Ég er eins og hv. frsm. í hópi þeirra þm., sem hef mikinn áhuga á því, að ný ákvæði verði sett um íslenzk mannanöfn. Ég veit að vísu ekki, hverjar verða till. n. Þær munu að sjálfsögðu verða kynntar Alþ. Hitt get ég hins vegar ekki fullyrt, að það sé endilega víst, að þær till. verði till. ríkisstj. á sínum tíma. En ég mun sjá svo um, að Alþ. eigi kost á því að kynnast niðurstöðum n., hvernig sem svo það frv. kann að verða, sem lagt verður fyrir á grundvelli till. hennar.