10.03.1970
Neðri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það eru nú búnar að vera hér langar umr. um þetta mál, og margt hefur komið fram, sem ég tel, að hafi verið nauðsynlegt að fram kæmi í sambandi við málið. Ég hef nú ekki getað hlustað á umr. alveg að öllu leyti, og það getur vel verið, að þessi fáu orð, sem ég segi, hafi einhver annar sagt áður hér í þessum umr. En ég vildi nú ekki láta málið svo algerlega fram hjá mér fara, að ég ekki aðeins kæmi hér í ræðustólinn til þess að lýsa skoðun minni á þessu.

Þar er þá fyrst til að taka, að ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég hef ekkert sérstakt út á það að setja, að sveitarfélög séu sameinuð, þar sem íbúarnir eru samtaka um það, vilja sameiningu og telja sig hafa gagn af henni. En mér finnst undarlegt, að það skuli þurfa að setja upp mikinn lagabálk, til þess að slíkt geti átt sér stað. Ég veit ekki betur en að það sé nú þegar í l. ákvæði um heimild til þess, að sveitarfélög geti þetta, ef hlutaðeigandi sýslunefnd getur á það fallizt, svo að mér þykir mjög einkennilegt, að það skuli vera talið nauðsynlegt að setja l. um þetta og stofna sérstakt embætti til þess. Ég verð nú að segja, að ég er algerlega á móti því, að þetta embætti verði stofnað. Mér finnst, að það sé svo mikið af vel starfhæfum mönnum í félmrn. og lögfræðingum þar, sem gætu hjálpað til við þetta, þar sem íbúarnir kynnu að vilja fallast á það að sameina sveitarfélög.

En það er spurning, sem vakir fyrir mér í sambandi við þetta mál í sambandi við 1. gr. Þar segir svo: „Félmrn. skal í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga stuðla að eflingu sveitarfélaganna með því að koma á sameiningu tveggja eða fleiri sveitarfélaga,“ þ e. stuðla að eflingu, með því að koma á sameiningu. Ég get ekki skilið, að það geti orðið til neinnar sérstakrar eflingar dreifbýlishreppum að sameinast. Ef efling á að eiga sér stað, verður hún að gerast með þeim hætti, að eitthvað komi til sögu nýtt í sveitarfélagi, sem geti eflt aðstöðuna þar. En t. d. eins og í sveitunum, þá er ekki um slíkt að ræða að minni hyggju. Atvinnuvegurinn er yfirleitt landbúnaður í sveitunum, og ég get ekki séð, að hann geti eflzt á nokkurn hátt við það, þó að einhverjum tveimur til þremur hreppum sé steypt saman. Við skulum hugsa okkur t. d. hreppana í Flóanum eða Árnessýslu, sem gert er ráð fyrir í till., sem um þetta hafa verið gerðar, að sameina. Ég sé ekki, að þar geti gerzt nokkur hlutur til þess að efla líf manna í þessu byggðarlagi, þó að búinn sé til úr þessu einn hreppur.

Það var einu sinni gert. Steindór Finnsson, sýslumaður í Árnessýslu, fékk konungsleyfi til þess að slengja saman hreppum í Árnessýslu á þeirri tíð, þegar hann var þar sýslumaður. Hann var orðinn feitur karlinn og fótfúinn og átti erfitt með að ferðast, og þá fékk hann leyfi til þess að steypa saman nokkrum hreppum. Það varð mikil óánægja út af þessu á þeim tíma. Bændunum þótti erfitt að sækja fundi langar leiðir. Þá hafði Steindór Finnsson eitt manntalsþing í Hróarsholti. Þar hafði aldrei þingstaður verið, hver hreppur átti sinn þingstað, og bændur kurruðu illa yfir því að þurfa að sækja manntalsþing langt í burtu frá heimilum sínum. Enn fremur setti hann, sem ég veit um, manntalsþing á Sandlæk í Gnúpverjahreppi fyrir Skeið og Gnúpverjahreppinn, sem hann sameinaði, og það var sama sagan. Þó að það sé nú nokkuð miðsvæðis, kurruðu menn yfir slíku. Undireins og karlinn var fallinn frá, voru fluttar bænarskrár um það að koma þessu í hið fyrra horf, sem svo var gert.

Nú má segja það að vísu, að það þurfi ekki að fráfælast þetta, vegna þess að nú eru samgöngur greiðari og menn eru fljótari að komast leiðar sinnar á bifreiðum, og það sé lítilfjörleg átylla, en þó er það nú svo, að víðast hvar er nægilegt að starfa, og marga þekki ég enn þá úti í sveitunum, sem setja fyrir sig að þurfa að fara lengri leið en nauðsyn ber til. Þeir meta tímann til peninga þar enn þá eða verðmætis og vilja frekar eiga stutta sókn til mannfunda. Ég sé þess vegna ekki nokkra ástæðu, sem geti valdið því, að aðstæður batni hjá þessu fólki.

En ég sé ástæður, sem benda til þess, að hlutirnir verði erfiðari, og það er nú aðallega erindi mitt, það kann að vera, að einhver hafi talað um það hér áður í umr. Ég er sannfærður um það, að gjöldin á þessu fólki hækka, þau hljóta að hækka. Með þessari sameiningu verður ekki hjá því komizt að koma upp hreppsskrifstofum með sérstökum sveitarstjórum og starfsliði til þess að sinna þeim störfum, sem oddvitar hafa nú með höndum og ýmsar félagsstjórnir, eins og sjúkrasamlagsstjórnir hafa nú með höndum í sveitarfélögunum. Þarna verða mynduð ný embætti með sérstökum kostnaði fyrir sveitarfélögin. Núna sinna bændurnir þessu starfi. Oddvitarnir gera þetta fyrir lítinn pening að stunda þetta. Ég hef tekið eftir því, að opinber gjöld hjá íbúum dreifbýlisins eru miklu lægri en opinber gjöld í þéttbýli. Og það kemur vitanlega til af því, að þar er allt önnur aðstaða. Þar eru ekki sameiginlegar vatnsveitur, skolpveitur, götur, gangstéttar eða annað því um líkt, sem þetta fólk hefur til þess að fást við, og það er eftirtakanlegt, að því fjær sem menn búa bæjum og kaupstöðum, því lægri sjúkrasamlagsgjöld greiða þeir. Það kemur til af því, að þeir nota læknisþjónustuna minna. Þeir virðast ekkert vera heilsulakari, þó að þeir séu ekki alltaf kveinandi utan í læknum.

Ég held, að það eigi að leyfa þessu fólki að njóta þeirrar aðstöðu, sem það hefur. Það á að fá að njóta hennar áfram. En það getur það ekki, þegar búið er að steypa saman mörgum sveitarfélögum. Það er óhjákvæmilegt, að þá verða sett upp ný embætti eins og skattstjóraembættin. Ég minnist þess, þegar hér á Alþ. voru umr. um þá löggjöf, þegar lagðar voru niður skattanefndir og skattstjóraembættin voru sett í staðinn. Það var talið verða mikið sparnaðaratriði. Ég hafði aldrei trú á því, ég hafði sjálfur verið í skattanefnd um áratugi og vissi það, hversu lítið var greitt fyrir þetta starf. En raunin hefur orðið sú, og við þekkjum það, sem hér sitjum, að þetta hefur orðið til þess að auka kostnað við álagningu skatta og innheimtu þeirra alveg gífurlega. Að vísu hafa nokkrir menn fengið atvinnu við þetta, og það kemur að vísu á móti, skattstjórarnir, þeirra fulltrúar og þeirra starfslið. Og svo mundi það náttúrlega einnig verða í sambandi við sveitarstjóraembættin, sem mundu verða stofnuð, þegar sameiningin hefði farið fram, að það fengju nokkrir menn atvinnu, en ég vil fyrir mitt leyti ekki gera það að miklu atriði í þessu.

Það má með ýmsum hætti auðvelda störf núverandi sveitarstjórna, ef menn vilja létta einhverju fargi af þeim, sem starfa að sveitarstjórnarmálum. Það eru möguleikar til þess að gera það með ýmsum hætti. Ég hygg t. d., að erfiðasta starfið við sveitarstjórnarmál sé innheimta opinberra gjalda. Ég þykist þekkja það af eigin raun. Ég var oddviti í 16 ár og sá um þessa innheimtu, og ég tel, að það sé mikið verkefni að sjá um þetta. En þetta má auðveldlega laga með því að láta bankana taka við þessu. Í Svíþjóð t. d. hafa bankarnir um langt skeið haft þessi mál með höndum. Þeir innheimta öll opinber gjöld af sveitarfélögunum og greiða svo með vissu millibili í hendur sveitarstjórnanna þessi gjöld. Þetta mætti einnig gera hér. Við erum komnir með bankaútibú hingað og þangað úti um land. Það eru líklega ekki margar sýslur á landinu, sem hafa ekki bankaútibú innan sinna vébanda eða þá einhvern sparisjóð, sem getur tekið þetta að sér. Þarna gætum við með góðu móti létt störfum af oddvitunum.

Það var nú þetta, sem ég vildi koma hér að í sambandi við þetta. Ég óttast einnig eitt atriði í þessu sambandi og vil ekki láta ógert að minnast á það. Frá fyrstu tíð hafa sveitarstjórnarkosningar yfirleitt verið bundnar við persónur manna, en ekki verið beint pólitískar, nema nú á allra síðustu árum í einu og einu sveitarfélagi. Ég tel þetta í raun og veru ágætt, og ég kvíði því að horfa upp á það, að allt þetta fólk fari í pólitískan slag fjórða hvert ár, þetta fólk, sem þarf að vinna og starfa saman í fámenninu. Ég vil, að við reynum að varðveita það sem allra lengst, að fólk geti kosið sér fulltrúa í hreppsnefnd eftir öðrum leiðum en í gegnum flokkapólitík. Ég held, að það sé hollara og heppilegra. Það er ekki af því, að ég sé ekki pólitískur, eins og allir vita, en ég álít, að við eigum ekki að vera með pólitíkina hreint í öllu. Við eigum að reyna að forðast hana í dreifbýlinu í sambandi við sveitarstjórnarkosningar.

Annað er það líka, sem ég óttast í sambandi við það, þegar búið er að steypa saman mörgum sveitarfélögum, að þá kunni svo að fara, að áhugi manna á sveitarstjórnarmálum fari kannske að dofna. Ég er ekki alveg frá því, að svo geti farið. Það verður lengi, sem loðir í löggunum, að menn hugsa fyrst og fremst um næsta nágrenni sitt og það svæði, þar sem verið hafði þeirra gamli hreppur, og kæra sig lítið um það, sem á að gerast annars staðar á svæðinu. Ég er ákaflega hræddur um, að þetta geti orðið til baga, ef eitthvað væri nú hægt að gera, sem væri til umbóta á einhverjum stað á þessu viðkomandi svæði. Það hefur t. d. komið í ljós núna í þessum nýafstöðnu sveitarstjórnarkosningum í Danmörku, eftir þá breytingu, sem þar hefur verið gerð, að það virðist hafa verið svo, að áhugi minnkaði mjög mikið í kosningunum. Það var miklu minni kosningaþátttaka en þar hefur áður verið í svipuðum kosningum, eftir þeim fréttum að dæma, sem maður hefur fengið af því. Mig grunar, að það kunni að fara svo einnig hér, að þetta breyttist í svipaða átt.

Það er nú þannig með okkur sveitafólkið, þó að það kunni kannske að hljóma undarlega í eyrum þeirra, sem eru fæddir og uppaldir í bæjunum, að okkur þykir dálítið vænt um sveitina okkar, og þetta er það, sem kallað er átthagatryggð. Við erum dálítið átthagabundnir enn þá, sem í sveitunum búum, og höfum töluvert öðruvísi hugsunarhátt en þeir, sem búa í bæjum og eru þar uppaldir. Þetta er mjög eðlilegt í sjálfu sér, og það verður erfitt að breyta þessu og við eigum ekki heldur að gera það. Við eigum að mínu viti að lofa þeim, sem það vilja, að halda þessu, eins og það hefur verið, og hið opinbera á ekki að vera að skipta sér af því. Ef hins vegar einhverjir koma, sem endilega vilja slá sér saman, finnst mér vera góðar ástæður til þess hjá rn. að hjálpa til við það mál, án þess að stofnað sé sérstakt embætti til þess.

Þetta var nú í raun og veru það, sem ég vildi koma að. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. og skal nú láta máli mínu lokið.