10.03.1970
Neðri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns Hann lagði á það áherzlu, að þetta væri mikið hagsmunamál litlu sveitarfélaganna, og benti hann sérstaklega á framfærslukostnað og annað þess háttar, sem sýndi það, að þeim væri nauðsynlegt að fá sameiningu við aðra hreppa.

En hvernig stendur á því, að þessir litlu hreppar sjá ekki sitt eigið hagsmunamál, hafa ekki enn þá komið auga á, að þetta sé neitt hagsmunamál fyrir þá, og hafa ekki óskað eftir því neins staðar, að slík sameining fari fram? Eru þeir orðnir svona sljóir í sveitunum, í þessum litlu hreppum, að þeir koma ekki auga á þessi hagsmunamál, sem hér er talað um? Ég skil það ekki, og ég held, að það sýni það, að þeir telji þessa sameiningu ekkert hagsmunamál fyrir sig. Ég vil minna á einn hrepp af þessum tíu, sem hafa svo fáa íbúa, að það á að vera unnt fyrir ríkisvaldið að sameina þau sveitarfélög með valdi, hvort sem þau vilja það eða ekki. Ég vil nefna Snæfjallahrepp í N.-Ísafjarðarsýslu. Bæirnir eru þar sex og íbúatalan þó nokkuð fyrir neðan 50. Ætli það sé ekki ákaflega bágborið ástand í þessum hreppi, fyrst fámennið er nú svona mikið? Á síðustu árum hefur það nú samt átt sér stað í þessum fámenna hreppi, að bændur hafa þar byggt upp hjá sér íbúðarhúsin á fjórum bæjum af sex á síðustu árum. Þeir hafa ræktað þar meira á hverri jörð en ég hef séð ræktað nokkurs staðar annars staðar í Ísafjarðardjúpi. Og það, sem kannske segir mest til um dugnað þeirra og möguleika, er það, að þeir hafa komið upp rafmagnsstöð hjá sér fyrir allan hreppinn. Þetta er þessi fámenni hreppur. Ég veit ekki til, að aðrir hreppar við Ísafjarðardjúp, sem nú er ætlunin að sameina, hafi gert þetta. Ég hef í fáum orðum sagt hvergi séð meiri framfarir í þessum landshluta en í Snæfjallahreppi, fámennasta hreppnum, sem eru svo fámennur, að nú er talið, að það verði að sameina hann öðrum hreppum með valdi, ef þeir ekki vilja gera það sjálfir. Svona er nú þörfin mikil fyrir þetta, svo að ég nefni eitt dæmi.

Þegar þessi níu manna sameiningarn., eða þó öllu heldur þriggja manna n., sem hefur nú haft framkvæmdina í þessum málum, lagði spurningar fyrir sýslumenn landsins, svaraði sýslumaður Barðastrandarsýslu eins og aðrir þessari spurningu: „Er rétt að sameina sveitarfélög?“ Og sýslumaðurinn var hv. þm., sem var að enda við að tala. Og í svörum sínum, eftir að hann hefur lýst nauðsyn á því að sameina sveitarfélög, segir hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Með víðtækum áróðri þarf að sannfæra sveitarstjórnarmenn um nauðsyn málsins og fá þá til að beita sér fyrir skynsamlegum og eðlilegum breytingum.“

Þetta sagði hann í svari sínu. Það þarf víðtækan áróður til þess að fá þá til þess að gera þetta. Ekki er nú viljinn mikill heima fyrir, fyrst þessu þarf að beita, enda er frv. um þetta. Ég held, að þáverandi sýslumaður Barðstrendinga hafi sagt það alveg rétt, að ef ætti að fá þau sveitarfélög þar vestra til þess að fallast á þetta, þyrfti áreiðanlega að beita víðtækum áróðri, og það er embættið nýja, sem á að annast þennan áróður. Viljinn er ekki fyrir hendi heima fyrir. En í þessu sýslufélagi, ætla ég, að séu þrjú sveitarfélög af þessum tíu, sem eru svo fámenn, að það er talið þurfa að sameina þau með valdi, ef ekki er vilji fyrir því heima fyrir.

Þá kem ég að því í svari þessa hv. sýslumanns, hversu kunnugur hann er skoðunum sveitarstjórnarmanna í sýslufélagi sínu um þetta mál. Hann segir í þessu svari sínu, með leyfi hæstv. forseta: „Þessar hugleiðingar eru mínar eigin. Ég hef ekki rætt þær í einstökum atriðum við viðkomandi sveitarstjórnarmenn.“ Hann hefur nefnilega ekkert kynnt sér þær, svo að ég held, að þessar skoðanir, sem hann er hér að lýsa, séu áreiðanlega hans eigin, en ekki Barðstrendinga.

Nú voru haldnir fundir þar s. l. sumar að tilhlutun erindrekans, og þar á nú að gera stóra hluti. Það á að sameina í einn hrepp eftir þeim till. eða hugmyndum, sem þar hafa komið fram, fjóra hreppa, Barðastrandarhrepp, Rauðasandshrepp, Patrekshrepp og Tálknafjarðarhrepp. Og þegar búið væri að sameina allt í eitt, þá er einn hreppurinn, sem nú er, Patrekshreppur, mun fjölmennari en allir hinir þrír til samans. Þar eru um 1000 íbúar, og það er engum blöðum um það að fletta, að völdin yrðu hjá hinum nýja hreppi, þau yrðu þarna. En ekki hefur þeim litizt betur á þetta en svo, þarna fyrir vestan, að eftir því, sem ég veit bezt, taka þær ekki í mál, sveitarstjórnir hreppanna, neina sameiningu. Þetta er álit þeirra heima fyrir, fólksins, sem á að búa við hina væntanlegu löggjöf. Þetta held ég, að þáv. sýslumaður og núv. hv. 4. þm. Vestf. hefði átt að kanna, og hefði verið æskilegast yfirleitt, að sýslumenn í landinu hefðu gert það, áður en þeir fóru að svara, því að það er ekki aðalatriði, hvert er persónulegt álit sýslumannanna í landinu, heldur fólksins í sveitarfélögunum, sem á að sameina, annaðhvort með samkomulagi eða þá með valdi.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál að þessu sinni, því að ég hef áður látið í ljós skoðanir mínar á þessu máli.