23.10.1969
Efri deild: 5. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

10. mál, flutningur síldar af fjarlægum miðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er eins og í aths. kemur fram, flutt til staðfestingar á brbl. Það er reyndar að langmestu leyti endurnýjun á brbl., sem sett voru árið áður, vegna hugsanlegra síldveiða á fjarlægum miðum, og er þetta því allvel kunnugt mál hér á hv. Alþ. og óþarfi að fara um það mörgum orðum. Hins vegar er það öllum hv. þdm. ljóst, að til meginhluta þeirra ákvæða, sem lög þessi fjalla um, hefur því miður ekki þurft að grípa á þessu tímabili og þá fyrst og fremst vegna þess, að síldin hefur ekki veiðzt, sem öllum er að sjálfsögðu hryggðarefni.

Við samningu frv. var reynt að hafa samband við hlutaðeigandi samtök, og um það náðist að lokum algert samkomulag, þannig að ég á ekki von á því, að um frv. þurfi að verða neinar deilur. Sjálfsagt er, ef eitthvað nýtt hefur komið fram í reynslu manna í þessum efnum, að athuga það, en í fyrra og árið þar áður var þetta nánast alger nýjung í veiðiskap okkar hér. Þess vegna var að nokkru leyti rennt blint í sjóinn með þau ákvæði, sem lög þessi fela í sér, en mér skilst, að reynsla manna þann skamma tíma, sem á lögin reyndi, hafi verið góð og menn telji, að lagasetning þessi sé nauðsynleg og þörf. Ég ætla þess vegna ekki, nema frekara tilefni gefist til, að ræða málið í einstökum atriðum.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn., um leið og ég óska þess, að n. athugi það við þau samtök, sem hlut áttu í upphaflegri samningu frv., hvort hjá þeim sé um að ræða einhverja frekari þekkingu manna í þessum efnum, sem hægt væri þá að fella inn í lögin.