25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

10. mál, flutningur síldar af fjarlægum miðum

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Mál þetta er, eins og fram kemur í grg. og fskj. með frv., staðfesting á brbl. um ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar og ísvarinnar síldar af fjarlægum miðum sumarið 1969.

Frv. þetta er samið af n., sem hæstv. sjútvmrh. skipaði hinn 2. apríl 1969. N. var þannig skipuð, að í henni áttu sæti fulltrúar sjómanna, útvegsmanna, síldarsaltenda, síldar- og fiskimjölsverksmiðja og síldarútvegsnefndar. Allir þessir aðilar voru sammála um efni það, sem í frv. felst.

Það hefur, svo sem kunnugt er, verið mikið áhyggjuefni allra þeirra, sem fást við framleiðslu og sölu saltsíldar nú hin síðari ár, hve miklir annmarkar hafa verið á því, að Íslendingar gætu staðið við og fullnægt sölusamningum við viðskiptaþjóðirnar. Orsök þess hefur fyrst og fremst verið minnkandi síldveiði, en einnig er orsökin sú, að síldin hefur veiðzt á mjög fjarlægum miðum. Til þess að hagnýta síld til söltunar af hinum fjarlægu miðum verður ekki hjá því komizt að stofna til slíkrar skipulagningar og tekjuöflunar sem frv. þetta felur í sér.

Svo sem ég hef áður greint frá, voru þeir aðilar allir, sem stóðu að samningu frv., sammála um efni þess. Eins og fram kemur í nál. sjútvn. um málið, leggur n. einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.