29.04.1970
Neðri deild: 89. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

48. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað þetta frv., eftir að það kom aftur til hv. d. frá Ed. Sjútvn. er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með svo hljóðandi breyt., sem ég les, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Við 4. gr. Í stað orðsins „Skipamálastofnun“ í gr. og hvarvetna síðar í frv. komi í viðeigandi beygingarföllum: Siglingamálastofnun.

2. Við 8. gr. Í stað orðsins „skipamálastjóri“ í gr. og hvarvetna síðar í frv. komi í viðeigandi beygingarföllum: siglingamálastjóri.

3. Við 38. gr. 4. töluliður falli brott.“

Eins og ég gerði grein fyrir í sambandi við annað frv. hér fyrr á fundinum, þá felst í þessu sú till., að það verði ekki siglingadómur, sem hafi það verk með höndum að birta niðurstöður af rannsóknum sjóslysa, heldur sú n., sem gert er ráð fyrir að skipuð verði samkv. 44. gr. frv. Henni er einmitt ætlað að hafa ranasókn sjóslysa með höndum, og við þá gr. flytur sjútvn. svo hljóðandi brtt.:

„Aftan við 3. málsgr. bætist: Skal n. og starfsmaður hennar hafa náið samstarf við Siglingamálastofnun ríkisins.“

Þetta er a-liður till., en b-liður er svo hljóðandi: „Aftan við 1. málsl. 4. málsgr. bætist: eða verulegt eignatjón. Skal fulltrúi n. fyrir dómi hafa allan sama rétt og eftirlitsmaður samkv. ákvæðum 39. gr. laganna.“

Í þessum till. sjútvn. þessarar hv. d. felst það, að sú rannsóknarnefnd, sem ætlað er samkv. frv. að hafa með höndum rannsókn sjóslysa, skuli hafa náið samstarf við Siglingamálastofnun ríkisins, — eins og við leggjum til að stofnunin heiti, — og siglingamálastjóra. Ég hef áður gert grein fyrir því, að eins og gengið var frá till. um þetta mál frá hv. Ed., voru engin ákvæði um það, hver tengsl skyldu vera þarna á milli. Sjútvn. þessarar hv. d. telur, að Siglingamálastofnun ríkisins hafi svo góða starfsaðstöðu og svo miklum starfskröftum á að skipa, sem sérfróðir eru um öll mál, er varða siglingar, að það sé langskynsamlegast, að nefnd sú, sem ætlað er að vinna úr rannsóknum sjóslysa og birta niðurstöður af þeim, hafi náið samstarf við Siglingamálastofnunina. N. telur, að ef ekki væri gert ráð fyrir neinum tengslum þarna á milli, þá væri þessi rannsóknarnefnd í raun og veru algerlega sjálfstæð og þyrfti þá að koma sér upp eigin starfsliði. Við teljum það hins vegar nægilegt, að hún geti ráðið í sína þjónustu einn mann, sem sé siglingafróður. Hann hafi það verkefni að fylgjast með rannsóknum sjóslysa og geti mætt fyrir sjódómi og hafi þar sama rétt og eftirlitsmenn með skipum hafa nú eða eiga að fá samkv. 39. gr. frv., ef að lögum verður. En þar er talið upp, að þeir hafi rétt til að bera fram spurningar, rétt til að leggja fram gögn og rétt til að krefjast framhaldsrannsóknar, ef þurfa þykir.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þessar brtt. sjútvn. fleiri orðum, en leyfi mér, herra forseti, að leggja þær fram skriflega og fara fram á, að leitað verði afbrigða fyrir þeim.