04.05.1970
Efri deild: 91. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

198. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Fyrir a. m k. þrem árum var því heitið af hæstv. ríkisstj., að húsnæðismálalöggjöfin skyldi tekin til gagngerðrar endurskoðunar. Á liðnum tíma hefur margoft verið innt eftir því, hvenær niðurstöðu mætti vænta. Það hefur verið allra manna mál óskipt, að það væri rík nauðsyn þess, að þessi löggjöf væri tekin til gagngerðrar endurskoðunar af fullri alvöru og með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengin er af þessum málum.

Um það munum við allir samdóma, að húsnæðismálin hjá okkur, eins og hjá velflestum öðrum þjóðum, a. m. k. í okkar nágrenni, séu eitt af höfuðverkefnum í félagslegum efnum og einn langstærsti þáttur efnahagsmála. Þau snerta velflesta einstaklinga þjóðfélagsins, og einstaklingunum er oftast eitt erfiðasta viðfangsefnið að koma sér upp húsnæði og sá bagginn, sem þeim er einna þyngstur. Það er þess vegna ekki undarlegt, að þessi mál séu jafnan í sviðsljósinu og að þeim beinist áhugi og athygli alls almennings og þá ekki hvað sízt hins unga fólks. Þegar alls er gætt, er lausn þessa stórfellda verkefnis með sem hagkvæmustum hætti ein af meginforsendum þess, að þjóðinni megi lánast að sækja fram á næstu árum og áratugum til bættra lífskjara. Á mörgum liðnum árum hefur, eins og við vitum öll, misjafnlega vel til tekizt þrátt fyrir oft og einatt hin góðu áform. Hvað sem öðru líður, höfum við öðlazt nú í dag þá reynslu, að af henni má draga ýmsa lærdóma, sem við verðum að færa okkur í nyt, og í þessu ljósi skyldu þessi mál öll vera endurskoðuð.

Mjög hefur sá rauði þráðurinn verið í sögu þessara mála hin síðari ár, hversu mjög báglega hefur til tekizt að ná því marki, sem upphaflega var sett, þ. e. að leysa húsnæðisþörf landsmanna með sem haganlegustum hætti og minnstum tilkostnaði. Þrátt fyrir velviðjaðan ásetning hefur oft öndvert gengið. Tilfinnanlegur skortur húsnæðis hefur á þessum tíma yfirleitt verið hin ríkjandi venja. Og í byggingarmáta hefur gætt um of allt of oft óhófs að vissu marki og jafnvel prjáls og lítillar fyrirhyggju, hvað sem annað má segja um haganleik húsnæðis hverju sinni. En framar öllu öðru er það að sjálfsögðu, eins og við vitum öll jafn vel, fjármagnsskorturinn, sem hefur þjakað allt okkar byggingarkerfi.

Þá skyldi maður hafa álitið, að þegar loksins væru komnar fram till. um breyt. á þessari löggjöf, að til þessa alls hefði verið litið. Það er að minni hyggju og okkar margra síður en svo. Á síðustu vikum þessa þings, sem nú er að ljúka, hefur ríkisstj. flutt frv. um breyt. á þeirri löggjöf, sem við höfum undanfarin ár búið við, og nú er svo að sjá sem höfuðprýði þessa stjfrv., þ. e. a. s. 3. tölul. 6. gr., sé niður fallin, en í þess stað hafa verið hafnir samningar við einstaka lífeyrissjóði og Landssamband lífeyrissjóða um að lána fé að vissu marki í þann sjóð, sem hér um ræðir. Þessu frv. ríkisstj. var í öndverðu mjög illa tekið af öllum þorra manna, og í flestum blöðum eða málgögnum flokka í þessu landi var talið, að slíkt ákvæði væri sízt til fyrirmyndar og ætti að fella það úr löggjöfinni. Og nú hefur það verið almannamál hér á hv. Alþ., að þetta ákvæði skyldi niður falla úr því frv., sem ríkisstj. í öndverðu flutti. Og í raun og veru má segja, að sú fjáröflun, sem fremst skyldi verða og ætluð var að greiða aðgang að betri lánum, væri niður fallin. En hitt er svo allt annað mál, að ýmsir lífeyrissjóðir hafa gengið að því í samningum við ríkisstj. að lána að nokkru marki fé til þess að standa undir þeirri fjármagnsþörf, sem húsnæðismálalöggjöfin þarf á að halda.

Með því að hér er um einn síðasta fund í hv. d. að ræða, þá mun ég ekki lengja mál mitt meira en svo, að ég vil, herra forseti, aðeins mæla nokkur orð fyrir þeim brtt., sem fyrir liggja á þskj. 844. Um þær till., sem hv. formaður heilbr.- og félmn. hefur mælt fyrir, eða að því er varðar hans ræðu af hálfu n., get ég verið fáorður og þarf í raun og veru ekkert um að segja. En um okkar till., hv. 1. þm. Vesturl. og mín, vil ég segja þetta:

1. brtt. er við 3. gr. frv. og er á þá lund, að við 3. gr. frv. bætist ný málsgr., sem orðist þannig: „Húsnæðismálastjórn er heimilt að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum með því að láta gera skipulagsuppdrætti af þeim í samráði við skipulagsnefnd ríkisins.“

Þessi gr. er í gildandi lögum, og við, sem flytjum þessar brtt., teljum ekki ástæðu til þess, að hún verði niður felld.

2. brtt. er við 4. gr., stafl. b, sem fjallar um árlegt framlag úr ríkissjóði til byggingarsjóðs. Í frv. er framtagið ákveðið 75 millj. kr. Í núgildandi lögum er framlagið ákveðið 40 millj. kr., og hefur það staðið óbreytt s. l. ár og fram að þessu. Við flm. brtt. teljum, að það sé ekki með sanngirni hægt að mæla gegn þessari hækkun framlagsins, sem hefur verið um langa hríð allt of lágt, og við gerum till. um, að framlagið úr ríkissjóði verði 125 millj. kr., nema hærri fjárhæð sé ákveðin á fjárlögum á hverju ári.

3. brtt. er við 5. gr., og hún er umorðun á þeirri grein. 5. gr. núgildandi laga um Húsnæðismálastofnunina hefur, að því er við bezt vitum, ekki verið framkvæmd að neinu marki, og má jafnvel segja, að hún hafi verið frá upphafi nánast dauður bókstafur. Það er því mjög lítil ástæða til þess að vera að burðast með slíkt ákvæði, og við leggjum til, að þessi gr. frv. falli niður, en í hennar stað komi ný gr. Eins og vitað er, hafa veðlán eða skuldabréf í okkar þjóðfélagi verið lítt eða ekki til sölu með eðlilegum hætti á opinberum markaði. Það má segja, að með stórfelldum álögum eða afföllum hafi skuldabréf selzt, þeim, sem hafa átt þau, til mikils tjóns á hverjum tíma. Till. okkar fjallar um það, að byggingarsjóður gefi út skuldabréf til allt að 35 ára og að kaupendur slíkra bréfa hafi rétt til að draga andvirði þeirra frá skattskyldum tekjum það ár, sem þeir leggja út fé til að kaupa bréfin af byggingarsjóði. En til þess að stemma stigu við því, að of mikið sé keypt af þeim, ef til þess kæmi og tekjurýrnun yrði svo mikil af hálfu ríkisins, eru ákvæði um, að einstaklingar geti fengið allt að 100 þús. kr. í frádrátt fyrir þessi bréf á hverju ári og fyrirtæki allt að 300 þús. kr. í frádrátt. Þessi bankavaxtabréf verði svo líka ríkistryggð, 1/35 hluti hvers lánaflokks af árlegri sölu sé dreginn út hvert ár og full vísitöluuppbót sé greidd á þessi bréf við útdrátt hverju sinni. Þessi bankavaxtabréf eða skuldabréf séu hljóðandi á nafn og hver lánaflokkur megi ekki nema hærri fjárhæð en 300 millj. kr. Að öðru leyti sé það veðdeildarinnar og húsnæðismálastjórnar að ákveða um gerð þessara bréfa og fjárhæð hvers lánaflokks hverju sinni, en vextir af bréfunum séu 6%. Það er ekki endilega víst í upphafi, að þessi fjármögnun húsbyggingarsjóðs verði honum til mikilla nytja eða framdráttar, en þó er að okkar áliti freistandi að gera þessa till. og sjá til, hverju gegnir og hvernig fer. Víða í nágrannalöndum, sérstaklega í Vestur-Þýzkalandi, hefur þessi aðferð verið mjög notuð, sérstaklega á fyrstu árunum eftir heimsstyrjöldina, og þótti leiða til mikils góðs og mikillar og eðlilegrar fjármögnunar fyrir húsbyggingarsjóð þar í landi.

4. brtt. á þskj. 844 er við 8. gr. Í frv. segir, að húsnæðismálastjórn geti enn fremur veitt lán til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum og kauptúnum og öðrum skipulagsbundnum stöðum. Þannig er lagt til í frv., að slík lán megi veita hverjum sem er, eins og það nú hljóðar. Þetta ákvæði teljum við, flm. brtt. á þskj. 844, allt of rúmt og þannig, að það geti veitt tækifæri til hvers kyns brasks með leiguhúsnæði, en við teljum, að fráleitt sé að opna hina minnstu smugu í því efni með löggjöf. Þess vegna viljum við binda þessa heimild til lánveitinga við sveitarfélög og Öryrkjabandalag Íslands.

Þá er brtt. okkar við B-lið sömu gr. Í frv. segir, að húsnæðismálastjórn geti, að fengnu leyfi ráðh., breytt lánsfjárhæðinni, sem getur numið allt að 600 þús. kr., eins og í frv. segir, á tveggja ára fresti til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Á tímum sífellt hækkandi byggingarkostnaðar og eftirfylgjandi hækkaðrar byggingarvísitölu þykir okkur flm. brtt., að það að halda lánsfjárhæðinni svo lengi niðri eins og frv. greinir sé alveg fráleitt, og við leggjum þess vegna til, að endurskoðun samkv. byggingarvísitölu eigi sér ekki stað á tveggja ára fresti, heldur árlega.

Við C-lið sömu gr. er ein brtt. okkar. Við gerum hér ráð fyrir meginbreytingum, liðurinn orðist að nýju, og breytingarnar eru þessar: Í fyrsta lagi verði vextir af lánum 6%, sem er örlítil hækkun, en lánin verði aftur á móti afborgunarlaus í þrjú ár í stað eins árs, og þau endurgreiðist á 32 árum í stað 25 ára, eins og í frv. segir. Þá gerum við enn fremur ráð fyrir því, að niður falli með öllu vísitölubinding á afborgunum og vöxtum þessara lána. Við teljum það engan veginn réttlætanlegt, eins og efnahags- og kjaramálum almennings er háttað í okkar landi, að einungis þessi lán, sem oft á tíðum og kannske ævinlega eru lán, sem fátækari hluti þjóðarinnar tekur og þarf við að búa, séu háð vísitöluhækkun, meðan flest eða öll önnur lán eru undanþegin slíkum ákvæðum. Og við flm. erum þess fullvissir, að við erum í þessu efni í samræmi við hina almennu réttarmeðvitund og að þessu leyti er mjög létt undir þeim, sem lánin taka, sem er, eins og ég sagði, sá hluti okkar þjóðar, sem á ógreiðustu leið að því að fá lán.

5. brtt. er við 9. gr. 3. málsl. Þar leggjum við til, að afgreiðsla öll og innheimta í sambandi við þessi lán, húsnæðismálalánin, geti farið fram með þeim hætti, að lántakendur yfirleitt þurfi ekki mjög á sig að leggja ferðalög langar leiðir til þess að geta innt af höndum full lögskil að því leyti.

6. brtt. er við 11. gr. 3. málsgr. Hér leggjum við flm. til, að hækkaðir verði vextir af sparifénu úr 4% upp í 6% og enn fremur að sparifjáreigendur, samkv. þessari grein frv., ekki aðeins megi, heldur skuli fá allt að 25% hærri lán en almennt gerist.

Um 7. brtt. Í 18. gr. frv. er ekki séð við því, að sveitarstjórn sinni ekki því að ákveða um till., sem fram er komin um að hefja byggingu verkamannabústaða. Þess vegna teljum við, til þess að koma í veg fyrir óeðlilegar tafir af hálfu meiri hl. sveitarstjórnar, sjálfsagt að setja ákvæði inn í frv. um, að henni skuli skylt að gangast fyrir því, að framkvæmdir verði hafnar, eins og segir nánar í þessari gr. frv., þannig að sveitarstjórn, sem hefur ekki ákveðið að hefja byggingar samkv. þessum kafla laga um verkamannabústaði, sé skylt, þá er byggingarfélag verkamanna á staðnum hefur ákveðið að til framkvæmda skuli ganga, að ganga undir allar þær skuldbindingar, sem samkv. lögum fylgja því.

8. brtt. er við 20. gr. Við teljum, að það sé eðlilegt og í rauninni höfuðnauðsyn, að Byggingarsjóður verkamanna, þegar sérstaklega stendur á og hann er í fjárþröng, hafi heimild til þess að taka lán til útlánastarfsemi hverju sinni. Þess vegna leggjum við til, að inn í frv. verði skotið ákvæði þess efnis, að sveitarstjórn geti tekið lán og ríkissjóður ábyrgist slík lán, sem hlutaðeigandi sveitarsjóður kann að taka hverju sinni.

Þá er nýr kafli, sem við gerum till. um, að settur verði inn í þetta frv., þ. e. a. s. á eftir IV. kafla, um verkamannabústaði, komi nýr kafli, sem verði V. kafli, um leiguhúsnæði. Hann hljóði á þessa lund:

„Nú kýs sveitarfélag að koma sjálft upp íbúð eða íbúðum og leigja lágtekjufólki, sem af eigin rammleik getur ekki eignazt húsnæði, og er þá húsnæðismálastjórn heimilt að leyfa slíkar byggingar og lána til þeirra á sama hátt og til verkamannabústaða. Húsnæðismálastjórn setur reglur um leigukjör slíkra íbúða.“

Ég hygg, að það þurfi ekki að hafa mörg orð um það, að víða í þorpum og kaupstöðum úti um land er svo mikil þörf á því að hafa leiguhúsnæði laust til afnota fyrir ýmsa menn og margvíslegt fólk, sem þorpið eða kaupstaðurinn hefur á hverjum tíma þörf fyrir að vinni á staðnum, en ævinlega eða oftast er það svo, að sá mikli þröskuldur, sem er í þessu efni, er skortur á húsnæði fyrir þetta fólk. Þessi kafli frv., sem við gerum ráð fyrir að verði skotið þarna inn, á að geta gilt fyrir þetta í framtíðinni.

Síðan komum við að 10. brtt. Um hana má segja það fyrst og fremst, að við leggjum til, að í b-lið ákvæða til bráðabirgða komi í stað 35 millj. kr. 85 millj. kr. Við teljum, að það sé algert lágmark í þessu efni.

Að síðustu er það c-liður 10. brtt. Þar leggjum við til, að á eftir tölul. 4 í ákvæðum til bráðabirgða komi nýr tölul., þar sem segir, að það fé, sem Byggingarsjóður ríkisins leggur af mörkum til framkvæmdaáætlunar um byggingar í Breiðholti í Reykjavík, beri framkvæmdanefnd áætlunarinnar að endurgreiða byggingarsjóði eftir þeim reglum, sem ráðh. setur, en ríkisstj. afli þess fjár, sem framkvæmdanefndinni þannig er skylt að endurgreiða. Þegar þetta fé er komið í byggingarsjóðinn, þá sé því af hálfu húsnæðismálastjórnar úthlutað eftir reglum hins almenna veðlánakerfis.

Á árinu 1965 var í sambandi við kjarasamninga, sem gerðir voru milli ríkisstj. og verkalýðsfélaganna, ákveðið, að hefja skyldi byggingu íbúða í Reykjavík samkv. áætlun þar um. Þeir félagsmenn í verkalýðsfélögum, sem keyptu þessar íbúðir, skyldu eiga kost á allt að 80% lánum út á verðmæti íbúðanna. Það var ráð fyrir því gert, að veitt yrðu lán úr Byggingarsjóði ríkisins vegna þessara íbúða, sem samsvöruðu lánum, sem aðrir húsbyggjendur fengju úr þessum sama sjóði, þ. e. a. s. Byggingarsjóði ríkisins. Að öðru leyti skyldi ríkisstj. útvega fjármagn til framkvæmdanna. Þannig höfum við, flm. þessarar till. um breyt. á ákvæðum til bráðabirgða, skilið þetta efni. Þá var líka tekið fram, að samið yrði við Atvinnuleysistryggingasjóð um lánveitingar út á þessar íbúðir og kæmu þau lán til viðbótar lánum frá húsnæðismálastjórn.

Svo hófust byggingaframkvæmdir í apríl 1967, og húsum í þessu hverfi valinn staður. Fyrsta áfanga er nú lokið, og þar hafa risið upp, eftir því sem ég bezt veit og síðast hef fengið vitneskju um, um 350 íbúðir, og heildarkostnaðurinn, þá er ég síðast vissi, var talinn vera um 400 millj. kr. Vegna þessara framkvæmda hefur byggingarsjóðurinn lagt út tæpar 290 millj. Miðað við venjuleg lán hefði sjóðurinn átt að lána 154 millj. Fyrir þessa sök hefur Byggingarsjóður ríkisins allt að 127 millj. kr. minna til úthlutunar í hinu almenna veðlánakerfi en annars hefði orðið. Þessi geysilega skerðing á fjármunum byggingarsjóðs hefur að sjálfsögðu valdið því, að ekki hefur verið unnt að fullnægja nema takmörkuðum hluta þeirra lána, sem almenningur sótti um. Þetta hefur þess vegna valdið stórtjóni margra þeirra, sem hafa verið að byggja hús nú á allra síðustu árum.

Þessa fjármuni teljum við að ríkisstj. eigi að endurgreiða byggingarsjóði, þessar 127 millj. kr., og vegna þeirra loforða, sem gefin voru, og samninga sé hún í raun og veru skuldbundin til þess að útvega og leggja af mörkum við byggingarsjóð þessa fjárhæð. Till. okkar fjallar einmitt um þetta, og við teljum þetta í raun og veru algert lágmark þess, sem krafizt verður af ríkisstj., að hún láti af hendi gagnvart því fólki, sem sækir svo mjög ákaft eftir lánum og hefur fulla þörf fyrir þau.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ég er samþykkur frv., eins og það liggur fyrir, en vænti þess, að hv. d. sjái sér fært að greiða atkv. þeim brtt., sem við hv. 1. þm. Vestf. höfum lagt fram hér í hv. deild.