02.12.1969
Neðri deild: 20. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

76. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Með þeirri breyt., sem gerð var á l. um vernd barna og ungmenna 1968, var menntmrh. heimilað að fela félagsmálaráði Reykjavíkur barnaverndina eða störf þau, sem barnaverndarnefnd hefur, að meira eða minna leyti, eftir því sem þar stendur. Nú kom á daginn, er þetta hafði verið samþ., að fleiri sveitarfélög óskuðu eftir að fá sams konar heimild. Þess vegna var það, að ráðstefna Sambands ísl. sveitarfélaga, sem haldin var 20.–22. nóv. s. l., samþ. eftirfarandi ályktun, sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðstefnan beinir því til stjórnar sambandsins, að hún vinni að því, að gerðar verði breytingar á lögum, þannig að sveitarstjórnirnar fái heimild til að fella undir eina stjórn meðferð félagsmála í sveitarfélaginu með stofnun sérstaks félagsmálaráðs, eins og nú er í Reykjavík.“

Sambandið óskaði eftir, að frv. yrði flutt á Alþ. og var það flutt í Ed. og afgreitt þar samhljóða. Menntmn. Nd. hefur einnig fjallað um þetta frv. og orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt, og telur eðlilegt, að sams konar heimild og Reykjavík hefur í þessum efnum verði einnig veitt fleiri sveitarfélögum, ef þau óska þess og menntmrh. telur annars eðlilegt að veita heimildina. Með þessum orðum legg ég til fyrir hönd menntmn., að frv. verði samþ.