28.10.1969
Neðri deild: 7. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Frv. svo til shlj. því, sem hér er nú til umr., flutti ég á síðasta þingi ásamt tveim öðrum hv. þm., og var það þá rætt nokkuð hér í þessari hv. d. Af þeim sökum tel ég mig geta haft tiltölulega fá orð um þetta mál, einkum þegar þess er einnig gætt, að um málið hefur talsvert verið ritað í blöðum að undanförnu, svo að hv. þdm. munu vita, hvað hér er um að ræða.

Um gang málsins er það annars að segja, að Verzlunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda létu undirbúa frv. þetta, sendu það ríkisstj. skömmu fyrir þinglok í fyrra, en málið fékkst ekki afgreitt af hálfu ríkisstj. og varð því að ráði, að það væri hér sýnt alþm., svo að menn gætu hugleitt það til haustsins. En ástæðan fyrir því, að við erum nú tveir flm., er sú, að málið hefur síðan verið rætt í stjórnarflokkunum og við ákváðum að flytja það tveir, ég og hv. 5. þm. Vesturl. Ekki vegna þess að þetta sé sérstakt mál stjórnarflokkanna. Þvert á móti geri ég mér vonir um og treysti raunar, að hv. þm. stjórnarandstöðunnar, sumir hverjir a. m. k., muni styðja þetta mikilvæga mál, ekki sízt með hliðsjón af því, að þunglega hefur horft í atvinnumálum Íslendinga að undanförnu og brýna nauðsyn ber til þess að styrkja og efla íslenzk atvinnufyrirtæki.

Það eru einkum tveir þættir í þessu frv., þar sem rætt er um tilgang félagsins, Fjárfestingarfélags Íslands h.f., sem ég vil vekja hér athygli á, af því að þeir heyra til algers nýmælis. Annars vegar er það atriði, að þetta fyrirtæki gerir það að atvinnu sinni að vera það, sem kallað er frumkvöðull að félagastofnun og sameiningu hlutafélaga. Þann þátt hefur skort í íslenzkt atvinnulíf og hefur enginn aðili, hvorki einstaklingur né félag í þessu landi, gert það að verkefni sínu beinlínis að vinna að félagastofnun og endurskipulagningu félaga í þeim tilgangi að hverfa síðan að öðrum verkefnum og taka þóknun fyrir sína vinnu að þessum verkefnum. Og í annan stað hefur það ekki verið til hér á landi, sem hér er nefnt óbein þátttaka í hlutafélögum. Hún er í því fólgin, að félagið mundi taka að sér að tryggja sölu á hlutabréfum í hinum ýmsu fyrirtækjum. Sá, sem ynni að stofnun arðvænlegs fyrirtækis og hefði ekki nema hluta af hlutafjármagninu í eigin höndum, gæti leitað til félagsins og óskað eftir því, að það tæki að sér fyrir þóknun að sjá um sölu á hlutabréfunum, en mundi eiga þau sjálft, ef bréfin seldust ekki til almennings. Ég held, að vöntunin á þessu tvennu hafi valdið því, að í íslenzkum atvinnufyrirtækjum er yfirleitt allt of lítið einkafjármagn, og sem betur fer held ég, að langflestir landsmenn og þ. á m. að sjálfsögðu hv. þm. geri sér grein fyrir því, að styrkja þarf atvinnureksturinn einmitt með þeim hætti, að áhættuféð verði þar meira og fyrirtækin verði ekki jafnháð lánastofnunum og þau hafa verið fram að þessu.

Frv. þetta er í tveimur atriðum frábrugðið því frv., sem flutt var hér í fyrravor. Annars vegar er nú einungis einkabönkum heimilað að gerast hluthafar í Fjárfestingarfélagi Íslands h. f., en hitt frv. gerði ráð fyrir því, að öllum bönkum væri heimilað að kaupa hlutabréf. Það var aldrei tilgangurinn, að aðrar bankastofnanir en einkabankarnir yrðu aðilar að þessu fyrirtæki, og þess vegna var talið eðlilegt að undirstrika, að ekki væri öðrum bankastofnunum heimilað að verða hluthafar.

Í annan stað er svo takmörkun á skattfríðindum, sem félaginu yrðu veitt. Í fyrra frv. var talað um ótakmörkuð skattfríðindi, en nú er gert ráð fyrir, að þau verði einungis til ársloka 1977. Starfræksla eins og sú, sem hér um ræðir, er óþekkt hér á landi og er því talið nauðsynlegt, að þessu fyrirtæki verði veitt tímabundin skattfríðindi, meðan það er að vaxa á legg, svo það geti skjótlega og með mjög árangursríkum hætti sinnt ætlunarverki sínu, og vonir standa raunar til þess, að þegar á þessum vetri gæti farið að gæta áhrifa frá þessu félagi, sem mundu valda því, að atvinna gæti aukizt og atvinnufyrirtæki styrkzt. Auk bankanna er öllum opinberum sjóðum heimilað að kaupa hlutabréf í þessu fyrirtæki, þó að ákvæði sjóðanna leggi bann við hlutabréfakaupum. Ekki er mér kunnugt um það, hvort nokkrir opinberir sjóðir, aðrir en Framkvæmdasjóður Íslands, mundu gerast hluthafar í þessu fyrirtæki, en mjög teldi ég æskilegt, að sjóðir eins og t. d. Atvinnuleysistryggingasjóður, þar sem launþegar og vinnuveitendur starfa saman, gerðust aðilar að stofnun sem þessari, fylgdust þar með framgangi mála og létu þar koma til sín áhrif. Þess hefur líka gætt nokkuð að undanförnu, að launþegar skilji betur en áður nauðsyn þess, að fé almennings sé varið til atvinnurekstrar. Það kom t. d. glögglega fram á nýafstöðnu þingi Landssambands verzlunarmanna, að ályktað var í þessa átt, og mér er a. m. k. kunnugt um það, að á einum stað hafa verkalýðsfélög lagt fram meginhluta sjóða sinna til hlutabréfakaupa í atvinnufyrirtækjum til þess að tryggja aukna atvinnu og bætta aðstöðu í sínu byggðarlagi, og vissulega væri það vel farið, ef framhald yrði á þeirri þróun. Hún mundi ekki einungis valda því, að atvinnufyrirtækin styrktust, heldur mundi hún líka efla skilning á milli launþega og vinnuveitenda, sem stundum hefur ekki verið nægilega ríkur í þessu landi, því miður.

Ég held, að ég þurfi ekki að þreyta menn með því að flytja öllu lengra mál hér. Menn vita áreiðanlega, hvað um er að ræða. En ég legg mjög ríka áherzlu á það, að afgreiðslu þessa máls verði hraðað hér á hinu háa Alþ., því það er, eins og ég gat um áðan, hugsanlegt að áhrifa þessa fyrirtækis gæti farið að gæta strax á þessum vetri, og nú er brýn þörf á því, að öll þjóðfélagsöfl sameinist um það að reyna að styrkja íslenzka atvinnuvegi sem allra mest. Raunar ætti það ekki að verða ofverk okkar, sem hér erum, þeirrar kynslóðar, sem nú er á bezta starfsaldri, að efla svo og bæta íslenzkan atvinnurekstur, að áttundi áratugurinn yrði mesta framfaratímabil í sögu þessarar þjóðar og að honum loknum væri engum blöðum um það að fletta, að lífskjör á Íslandi væru betri en nokkurs staðar annars staðar í veröldinni. Við getum gert þetta, ef við viljum og höfum framsýni og dug til þess að hrinda fram góðum málefnum, auka og efla þá atvinnuvegi, sem fyrir eru, og hleypa nýjum af stokkunum. Flutningur þessa frv. miðar einmitt að því og þær athuganir, sem samtök þau, sem að því standa, hafa látið fram fara.

Ég vil svo, herra forseti, óska þess, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. fjhn., sem ég vona að afgreiði málið mjög skjótlega til d. á ný.