24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Frsm. minni hl. hefur gert grein fyrir afstöðu okkar, sem stöndum að áliti minni hl. hv. fjhn. En ég vildi taka hér til máls til þess að leggja áherzlu á andstöðuna gegn þessu máli. Hér er verið að stofna til einhvers konar samblands af banka og atvinnurekstrarfyrirtæki, sem á að hafa þann tilgang að koma á fót hlutafélögum, fjölga hlutabréfum í eldri hlutafélögum og selja hlutabréf.

Vafalaust væri unnt að stofna slíkt fyrirtæki sem hér er á ferðinni án lagasetningar þar um, en tilgangur þessa frv. er að veita þessu væntanlega fjárfestingarfélagi forréttindi umfram önnur atvinnurekstrarfyrirtæki í landinu. Samkv. 6. gr. frv. á að veita þessu hlutafélagi undanþágu frá greiðslu allra opinberra gjalda á sama hátt og ríkisbönkunum. Og samkv. 4. gr. er veitt heimild fyrir einkabanka og opinbera sjóði til að gerast aðilar að þessu fjárfestingarhlutafélagi. Slíkar undanþágur og aðstoð til þessa félags ná að mínum dómi engri átt.

Það kemur fram í grg. frv., að fyrirmyndin sé sótt til Norðurlanda. Það kom fram í umr. um málið í Nd., að þessi fjárfestingarfélög væru orðin allalgeng í Bandaríkjunum og þar stæðu harðar deilur um þessi félög. Það mun vera eitt af aðalverkefnum eins af aðstoðardómsmálaráðherrum Bandaríkjanna að kynna sér starfsemi þessara fyrirtækja þar í landi og sérstaklega þó að fylgjast með því, hvort þessi fjárfestingarfélög brjóta með starfsemi sinni í bága við löggjöf um hringa, sem þar er í gildi og allir þekkja deili á. Þeir, sem andvígir eru starfsemi þessara fjárfestingarfélaga í Bandaríkjunum, telja, að þau séu m. a. beinlínis stofnuð til þess að fara í kringum hringalögin.

Það er vafalaust ekki ágreiningsatriði, að okkur Íslendinga skortir tilfinnanlega aukið fjármagn í atvinnurekstur landsmanna. En okkur skortir áreiðanlega ekki fleiri aðila til að úthluta því fjármagni, sem fyrir hendi er. Í landinu eru starfandi sjö aðalbankar og sá áttundi mun bætast við, ef stjórnarfrv. um Alþýðubankann, sem nú liggur fyrir hv. Alþ., verður að lögum. 17 bankaútibú eru starfandi í Reykjavík og 36 utan Reykjavíkur. Fastir starfsmenn þessara banka eru liðlega 1070. Fyrir utan þennan fjölda banka eru svo 53 sparisjóðir starfandi og svo þar að auki fjárfestingarsjóðirnir, stofnlánasjóðir hinna einstöku atvinnugreina, sem munu vera, að ég hygg, 10 eða 11 talsins.

Hv. 12. þm. Reykv. sagði réttilega, að höfuðatriðið væri að fá aukna fjármuni til ráðstöfunar. En ég get því miður ekki séð, að miklar líkur séu til, að með stofnun slíks hlutafélags sem hér er gert ráð fyrir muni koma mikið af nýju fjármagni til atvinnuvega landsmanna.

Í frv., eins og það var upphaflega, var gert ráð fyrir því, að Verzlunarráð Íslands og Félag ísl. iðnrekenda hefðu forgöngu um stofnun Fjárfestingarfélags Íslands h. f. Við meðferð málsins í Nd. var þessu breytt þannig, að Samband ísl. samvinnufélaga skal vera þriðji aðilinn, sem forgöngu á að hafa um stofnun þessa hlutafélags. Nú hef ég hvergi séð það liggja fyrir hv. Alþ., hvort Samband ísl. samvinnufélaga er reiðubúið að taka að sér þetta hlutverk, en mér finnst satt að segja vera óhjákvæmilegt, að slík yfirlýsing liggi fyrir, áður en Alþ. afgreiðir þetta frv. Fjhn. Nd. sendi frv. til umsagnar Verzlunarráði Íslands og Félagi ísl. iðnrekenda og frá þeim aðilum bárust jákvæð svör, að því er þátttöku þeirra varðar í þessu væntanlega hlutafélagi, að ég hygg.

Í frv. er gert ráð fyrir, að Fjárfestingarfélaginu verði heimilt að vera frumkvöðull að stofnun, endurskipulagningu og sameiningu atvinnufyrirtækja, með því að kaupa, eiga og selja hlutabréf í atvinnufyrirtækjum og skuldabréf þeirra, að útvega, veita og ábyrgjast lán til atvinnufyrirtækja, sem félagið tekur þátt í eða beitir sér fyrir. Hér er, eins og menn sjá, eingöngu gert ráð fyrir afskiptum þessa væntanlega félags af hlutafélögum og eingöngu lánafyrirgreiðslu til þeirra fyrirtækja, sem eru í hlutafélagsformi, ef ég skil frv. rétt. Eins og menn sjá, verður hér ekki um að ræða neina fjárhagslega fyrirgreiðslu til annarra fyrirtækja en hlutafélaga. Í frv. eru önnur rekstrarform ekki viðurkennd. Þar er samvinnufélagsformið t. d. ekki viðurkennt, enda er frv. samið af þeim aðilum, sem telja annað rekstrarform fyrirtækja heppilegra.

Menn hafa í umr. um þetta mál bent á hættu á því, að væntanleg fjárfestingarfélög mismuni aðilum í sambandi við fyrirgreiðslu. Ég vil vekja alveg sérstaka athygli á því, að frv. gerir beinlínis ráð fyrir slíkri mismunun milli fyrirtækja, eftir því hvaða rekstrarform er á atvinnufyrirtækjunum. Slíkur fjármálafélagsskapur hlýtur t. d. að vinna beinlínis gegn framgangi samvinnustefnunnar í landinu. Og ég hygg, að það hljóti að vera andstaða innan samvinnuhreyfingarinnar gegn því, að fjármagn verði lagt fram af samvinnuhreyfingunni sjálfri, sem á svo beinlínis að stefna gegn samvinnufélagsforminu í atvinnurekstri, hvort sem er í verzlun eða á öðrum sviðum. Ég sé því ekki betur en það hafi verið fullkomlega rökrétt hjá flm. þessa frv. að blanda ekki samvinnuhreyfingunni í þetta mál.

Þetta mál allt sýnist mér annars þannig vaxið, að ekki sé ástæða til að samþykkja þetta frv. Þetta hlutafélag, sem hér er verið að stofna til með sérstakri löggjöf, á að vera sambland af banka og atvinnurekstrarfyrirtæki. Það sýnist eiga að verða samsuða af einkafyrirtæki og hálfopinberu fyrirtæki, sem þó er bannað að stuðla að stofnun og veita stuðning atvinnufyrirtækjum, sem t. d. sveitarfélög stofna til, nema þau séu í hlutafélagaformi. Og þetta fyrirtæki á að vera undanþegið greiðslu opinberra gjalda á sama hátt og ríkisbankarnir. Samvinnuhreyfingunni er loks ætlað að leggja til starf og fjármagn til að koma þessu fyrirtæki á fót, en ef samvinnuhreyfingin ætlar sér að fá fjárhagslegan stuðning í gegnum þetta félag, verður að breyta samvinnufyrirtækjum í hlutafélög. Kaupfélag fær ekki stuðning, eftir því sem ég skil þetta mál, fyrir atbeina þessa félagsskapar, nema því verði hreinlega breytt í hlutafélag. Og ekki verður heldur stofnað til nýs atvinnurekstrar með samvinnusniði fyrir forgöngu eða með aðstoð Fjárfestingarfélagsins. Það sýnist einsýnt, að Alþ. á ekki að blanda samvinnuhreyfingunni í þetta mál á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, a. m. k. ekki án yfirlýsingar frá þeim félagsskap um vilja hans í þessum efnum. Og allt þetta mál er þannig vaxið, að mér sýnist, að Alþingi ætti ekki að samþykkja þetta frv.