24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

43. mál, Fjárfestingarfélag Íslands

Frsm. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það var nú ekki margt, sem ég ætlaði að gera að umtalsefni, og ekki vil ég lengja umr., enda hefur ekkert það komið fram, sem breytt hefur skoðun minni á þessu máli, sem ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni fyrr í umr.

Hv. nm. í meiri hl. fjhn. hafa talað um það, að það mundi nú ekki verða mikil bót að því að setja megnið af fjárfestingarsjóðum landsins saman í einn banka, það leiddi af sér allt of mikið miðstjórnarvald. Það væri því miklu hentugra að dreifa valdinu á svona margar hendur. En ég álít, að málið standi þannig, að valdið í öllum þessum fjárfestingarsjóðum sé í raun og veru í höndum sömu aðilanna alls staðar, þ. e. a. s. fulltrúa pólitísku flokkanna. Það er mín skoðun, að það mætti gjarnan breytast og reynt yrði að finna á því önnur form. En það, sem er kannske aðalatriðið í þessum efnum, er það, að með því að hafa þennan fjölda af vanmáttugum stofnlánasjóðum er ekki hægt að fullnægja þörf atvinnuveganna fyrir stofnlán, jafnvel þó að samanlagt fé væri nægilegt.

Þá er bent á, að það þurfi nú ekki mikið að derra sig út af því, að það séu afnumin öll lög allra bankanna um það, að þeir megi ekki eiga hlut í hlutafélögum, því að þarna sé alls ekki verið að lögfesta það, að bankarnir séu skyldugir til þess. Ég segi nú bara, að fyrr hefði nú mátt rota en dauðrota, ef bankarnir hefðu verið skyldaðir til þess að leggja fram eitthvert ákveðið hlutafé í einkafyrirtæki þessara aðila, sem hér er um að ræða. En það getur auðvitað ekki dulizt neinum, að þetta er sett inn til þess að þrýsta á bankana og sjóðina til þess að láta fé af hendi til þessa nýja fyrirtækis, og þá með hliðsjón af því, að það verði sérstakir aðilar, sérstök fyrirtæki, verðug fyrirtæki sem njóti þar góðs af, eins og kemur greinilega fram í frv., þar sem sagt er, að enga fyrirgreiðslu megi veita öðrum en þeim, sem Fjárfestingarfélagið, — þ. e. a. s. Verzlunarráðið, Félag ísl. iðnrekenda og Samband ísl. samvinnufélaga, — hefur velþóknun á. Allir aðilar í landinu aðrir, sem eiga við stofnfjárskort að stríða, eiga þarna enga hjálp að fá.

En það, sem kom mér nú sérstaklega til þess að standa hér upp aftur, var það, að mér sýnist, að hér hafi komið fram hjá hv. 11. þm. Reykv. alveg nýjar upplýsingar í þessu máli, sem kunni að breyta afstöðu manna til þess. Það hafði satt að segja farið fram hjá mér, að í þeim aragrúa af umsögnum, sem fylgja nál. meiri hl. fjhn. Nd. á þskj. 414, kemur engin umsögn frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem þó á að verða þriðjungsaðili að stofnun þessa nýja félags. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil frétta það öðruvísi en á skotspónum, áður en þetta frv. er afgr., að Samband ísl. samvinnufélaga hafi samþykkt það og að það liggi fyrir, að Sambandið vilji og ætli að verða aðili að þessu fyrirtæki. Ég er ekki að gera því skóna, að hv. þm. Sveinn Guðmundsson sé að skrökva því, að hann álíti, að þetta muni vera gert með góðum vilja Sambandsins, en það liggur ekkert óyggjandi fyrir hv. þd. um þetta atriði. Mér finnst þess vegna alveg full ástæða til þess, að a. m. k. á milli umr. geri fjhn. tilraun til þess að fá umsögn frá þessum aðila um málið og um væntanlega þátttöku hans, því að það finnst mér ekki vera neitt lítilsvert atriði.