17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

209. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af ummælum hv. 4. þm. Vesturl. vil ég taka undir það með honum, að það er alveg rétt, að nauðsyn ber til að endurskoða tekjustofnalögin miklu frekar en hér er gert. Það varð hins vegar að ráði stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, að það yrði ekki gert að þessu sinni, m. a. vegna þess hvað þetta frv. er seint fram komið, og ekki var heldur samstaða um öll þau atriði, sem rædd voru. En upphaflega höfðu þeir ætlað sér að ganga lengra í þessum málum heldur en hér er gert. Það er hins vegar allra manna mál, að hér á þurfi að gera heildarendurskoðun, og það hefur dregizt lengur en ástæða væri til og ella hefði orðið, m. a. vegna þeirrar athugunar sem fór fram á því, hvort innheimta eigi skatta jafnharðan og tekna er aflað. Þau atriði, sem hv. 4. þm. Vesturl. drap á, mundu áreiðanlega verða athuguð við heildarathugun þessara mála og ber brýna nauðsyn til þess.

Í sambandi við hlunnindajarðirnar vil ég geta þess, að það munu vera nokkur ár síðan hér var á hv. Alþ. afgr. þáltill. þar um, og það er mikil nauðsyn að það mál verði einmitt tekið til sérstakrar athugunar, þegar tekjustofnar sveitarfélaga verða endurskoðaðir í heild, sem ég vona að verði sem fyrst.