20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

130. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda áfram rökræðum um þetta mál. Mér skilst á hv. frsm., að í sjútvn. hafi orðið einhvers konar samkomulag um afgr. málsins. Ég fæ ekki séð, að það geti talizt réttmætt, að útgerð opinna vélbáta verði sett hjá við setningu slíkra laga sem þessara, og ég held, að ef framfylgt er ákvæði því, sem mun vera í frv. um það, að bátar þurfi til þess að njóta þeirra hlunninda, sem hér er um að ræða, að hafa verið gerðir út a. m. k. 5 mánuði á ári, þá muni það ekki verða margir opnir vélbátar, sem geta notið þessara hlunninda, og því sé ekki um mjög mikið fjárhagsatriði að ræða, heldur öllu fremur jafnréttisákvæði.

Ef ætti að miða ákvæði laganna sérstaklega við opna vélbáta, ætti lágmarks-úthaldstíminn náttúrlega ekki að vera svona hár, því það er mjög mikið um það, a. m. k. á Norðurlandi, að þessir bátar séu ekki gerðir út svona lengi.

Ég vil sem sé aðeins vekja athygli á því, að eins og frv. er úr garði gert, þá er ekki líklegt, að hér sé um stórt fjárhagsatriði að ræða fyrir sjóðinn, heldur sé hér öllu fremur um jafnréttismál að ræða.