24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

215. mál, skemmtanaskattur

Kristján Thorlacíus:

Herra forseti. Ég vildi mæla hér fyrir brtt., en áður en ég kem að því, vildi ég fara örfáum orðum um meðferð þessa máls.

Þetta frv., sem hér liggur til umr., er eitt þeirra mála, sem lagt er fyrir Alþ. af ríkisstj. á síðustu dögum þessa þings. Við athugun á þessu máli kemur í ljós, að frv. er ekki nægilega vel undirbúið. Mál þetta varðar t. d. mjög félagsheimili landsins og afkomu þeirra. Það er gert ráð fyrir, að vangreidd framlög Félagsheimilasjóðs til félagsheimila verði greidd með skuldabréfum, sem Félagsheimilasjóður greiði síðan vexti af og afborganir. Það má vel vera, að hér sé að einhverju leyti fundin lausn á því vandamáli, að Félagsheimilasjóður hefur ekki getað greitt framlög jafnóðum og byggingar hafa risið. Sjálfsagt er þetta til bóta fyrir einhverja þá aðila, sem þegar hafa reist félagsheimili eða eru að reisa félagsheimili. En um þetta mál hefði að mínum dómi átt að hafa samráð við t. d. stjórn Félagsheimilasjóðs. Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið, hefur þetta mál ekki verið rætt í stjórn Félagsheimilasjóðs. Það mun hafa borið á góma í íþróttanefnd, en Félagsheimilasjóður er, eins og kunnugt er, skipaður íþróttanefnd og til viðbótar fræðslumálastjóra. Þetta mál mun, eins og ég sagði, hafa borið á góma í íþróttanefnd, en samkvæmt upplýsingum eins af íþróttanefndarmönnum mun þar engin ályktun hafa verið gerð um þetta mál. Ég bendi á þetta til að sýna, hve ófullnægjandi undirbúning málið hefur fengið.

Menntmn. hefur beðið um ýmsar upplýsingar í sambandi við þetta mál. T. d. hefur n. óskað eftir áætlun um, hvað sú breyting á skemmtanaskattinum, sem frv. gerir ráð fyrir, þýði tölulega. En slík áætlun hefur ekki legið fyrir. Það á samkvæmt frv. að lækka skemmtanaskatt á kvikmyndahúsum úr 27.5% niður í 15%. Í staðinn á að innheimta skemmtanaskatt hjá þeim, sem hingað til hafa verið skattfrjálsir. Um það, hvaða fjárhæð fæst inn frá þessum nýju aðilum, liggur engin áætlun fyrir.

Samkv. frv. á skemmtanaskatturinn að renna til Félagsheimilasjóðs og sinfóníuhljómsveitarinnar, þannig að 90% af honum renna til Félagsheimilasjóðs og 10% til sinfóníuhljómsveitar. Áður gekk skatturinn að hálfu til Þjóðleikhúss, og að hálfu til Félagsheimilasjóðs. En hvað kemur hlutur Félagsheimilasjóðs til með að vaxa mikið við þetta? Þeirri spurningu hefur ekki fengizt svarað, eða ekki fengizt nein áætlun um það frá hæstv. menntmrh.

Kvikmyndahúsin bera sig illa. Og mér skilst, að þetta frv. sé fyrst og fremst drifið áfram á síðustu dögum þingsins til þess að bjarga þeim. Það virðist hafa haft mikil áhrif á hæstv. menntmrh. að kvikmyndahúsin hóta lokun. Mér hefði fundizt eðlilegt, að einhver bráðabirgðalausn yrði fundin á vanda kvikmyndahúsanna fram til haustsins, en þá yrði þetta mál tekið fyrir á ný, og bæði hæstv. ráðh. og Alþ. gæfi sér þannig betri tíma til þess að afgr. þetta mál. Sumir þættir þess þurfa áreiðanlega mun betri athugunar við. Það er t. d. glöggt dæmi um það, hvað tími þingmanna og ráðh. er naumur vegna afgreiðslu margra mála nú á þessum síðustu dögum þingsins, að hæstv. menntmrh. hefur ekki haft aðstöðu til þess að vera við þessa umr. hér í dag. Tel ég það þó miður farið um slíkt mál sem hér er á ferðinni.

Ég vildi eindregið beina því til hæstv. menntmrh. og vona, að þeim tilmælum verði komið til hans, hvort hann vildi ekki athuga að fara þessa leið, sem ég gat um og hefur komið hér fram hjá fleiri ræðumönnum. Ég þykist vita, að þm. mundu verða til samkomulags um að reyna að finna einhverja lausn á þeim vanda, sem kvikmyndahúsin eiga í, ef samkomulag næðist um að málinu yrði frestað til haustsins til nánari athugunar. Ég vil vissulega taka undir það, sem fram hefur komið hjá öðrum þm., að þetta mál er það yfirgripsmikið, að það þarf mun betri athugun en n. og aðrir hv. þm. hafa haft aðstöðu til þess að gera.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um meðferð þessa máls, en vildi fara nokkrum orðum um brtt., sem við hv. 4. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson, flytjum hér skriflega. Þessi brtt. er við 3. gr. frv., að aftan við h-lið komi nýr liður, i-liður, svo hljóðandi: „Allar fjáröflunarskemmtanir íþróttafélaga.“ Í þessari gr. frv. er upptalning á þeim skemmtunum, sem undanþegnar skuli vera skemmtanaskatti samkv. frv., og brtt. okkar er um að undanþiggja allar fjáröflunarskemmtanir íþróttafélaga skemmtanaskatti. Það fer ekki á milli mála og þarf ekki að hafa um það mörg orð, að íþróttafélögin eru mjög illa stödd fjárhagslega og eru í miklum vandræðum með tekjuöflunarmöguleika. Þetta stendur íþróttahreyfingunni og íþróttastarfseminni í landinu mjög fyrir þrifum. Við flm. þessarar brtt. teljum sjálfsagt að undanþiggja fjáröflunarskemmtanir íþróttafélaganna skemmtanaskatti og reyna með þeim hætti að létta fjárhagsbyrðar íþróttafélaganna og gera þeim auðveldara um starfsemi sína fjárhagslega. Ég veit, að ég þarf ekki að fjölyrða um þessa brtt., og skal ekki tefja hv. þd. með því að orðlengja um þetta, en vil mega vænta þess, að aðrir hv. þdm. séu okkur flm. þessarar brtt. sammála um hana.

Brtt. er skrifleg og of seint fram komin, og ég vil afhenda hæstv. forseta hana og vænti þess, að hann leiti afbrigða um hana.