25.04.1970
Efri deild: 79. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

215. mál, skemmtanaskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér, að þetta mál er að ýmsu leyti illa undirbúið, og tel ég eiginlega furðu gegna, að slíkt mál skuli vera afgreitt að jafnlítilli athugun fenginni nú þessa síðustu annríkisdaga þingsins. Að mínu viti er málið ekki á nokkurn hátt svo aðkallandi, að það mætti ekki bíða næsta þings og þess, að ýmsir þættir yrðu skoðaðir betur og þá ekki sízt afstaða ýmissa aðila, sem þarna koma mjög við sögu. Það hefur komið fram, að það hefur ekki verið haft samband við kvikmyndahúsin hér í Reykjavík, sem mér skilst að sé höfuðtilgangur frv. að bjarga. En bjargar þetta þeim?

Kvikmyndahúsin hér hafa þegar fengið fullkomið frelsi til að selja aðgang á því verði, sem þau sjálf ákveða, og hafa þó á undanförnum árum kvartað talsvert undan því, að verðlagsákvæði um aðgöngumiðaverð væri þröngt. En mér sýnist líka, að ýmis ákvæði frv. muni beinlínis verka í þá átt að drepa algjörlega niður starfsemi sumra kvikmyndahúsa bæði hér í Reykjavík og eins úti á landi, þ. e. a. s. þeirra, sem hafa ekki þurft að greiða skemmtanaskatt.

Allt þetta held ég að þyrfti að athuga miklu betur og eins þá það, hvort sérstök ástæða er til þess að gerbreyta þessum lögum aðeins með tilliti til þess, að kvikmyndahúsin bera sig verr eftir að sjónvarpið kom til sögunnar. Ég er ekkert viss um, að það sé nauðsynlegt að starfrækja 10–15 kvikmyndahús hér á höfuðborgarsvæðinu, og það gilti einu og væri kannske hentugra fyrir þau sjálf og alla aðra aðila, að kvikmyndahúsunum fækkaði eitthvað. Það finnst mér eðlileg þróun, eftir að sjónvarpið er komið til sögunnar.

En ég veit nú ekki, hvort það breytir miklu um þetta mál, hvort því er frestað til mánudags. Annríki er mikið og það er varla von til þess, að öll sú athugun, sem ég tel að raunverulega þyrfti að fara fram í sambandi við þetta, væri framkvæmd á þeim tíma. Ég tel miklu æskilegra, að frv. væri með öllu frestað og það færi ekki til frekari umr. hér í þinginu.

Það sýnir svo allan undirbúning málsins sá aragrúi af brtt., sem hér hafa komið fram. Ég vil leyfa mér að bæta hér einni við. Hún kann að sýnast lítilfjörleg, en hún er við 2. gr., 3. flokk, og er um það, að síðari málsliður a-liðar í 3. flokki falli niður. En þar stendur: „Haldi félag dansleik og sé aðgangur ókeypis, er lögreglustjóra heimilt að ákveða skattinn.“ Með þessum orðum er opnuð leið til þess að heimta skemmtanaskatt af dansleikjum, jafnvel þótt þeir séu með öllu ókeypis, og tel ég það hæpið, sérstaklega þegar til þess er litið, að í sambandi við allt það skemmtanahald, sem talið er upp í 1. og 2. flokki, virðist ekki vera um að ræða neina skattgreiðslu ef aðgangur er ókeypis. Ég tel þess vegna ekki heldur ástæðu til að heimta skemmtanaskatt af dansleikjum, þar sem ókeypis aðgangur er. Nú er það svo í okkar fámenna landi og afskekktu byggðarlögum, að það tíðkast enn sums staðar og hefur gert frá upphafi, að það eru yfirleitt ekki haldnar neinar slíkar skemmtanir öðruvísi en að það sé ókeypis aðgangur fyrir alla staðarbúa. Ég þekki nokkra slíka staði, og ég held, að það þætti nokkuð kynlegt, ef allt í einu yrði tekið upp á því að skattleggja skemmtanir, sem fólkið á þessum stöðum kemur upp, vinnur ókeypis að og selur engum manni aðgang að. Reyndar sýnist mér allt hlutarins eðli vera þannig, að þar sem um engar tekjur er að ræða, þar eigi ekki heldur að koma skattgreiðsla til.

Ég leyfi mér þess vegna að leggja fram þessa skriflegu brtt. og mun biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.