11.12.1969
Neðri deild: 23. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

123. mál, tollskrá o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef áður vakið athygli á því, að ég tel alveg fráleitt að standa að undirbúningi tollalagabreytingar á þann hátt, sem gert er nú að þessu sinni og jafnan áður hefur verið gert hér eða æði oft. Undirbúningsstörfin eru alltaf höfð þannig, þegar stendur til að breyta tollalöggjöfinni, að ríkisstj. skipar einhverja menn til þess að endurskoða tollalagabálkinn. Hún vinnur í málinu og stjórnarflokkarnir að sjálfsögðu og síðan er komið með tollalagabreytingar í mjög flóknu formi fyrir Alþ. og farið fram á það, að málið verði afgr. á Alþ. á örstuttum tíma. Þessar vinnuaðferðir eru alveg forkastanlegar og verður að leggja þetta niður. Það hlýtur að enda með þeim ósköpum, að það verður torveldað að koma fram tollalagabreytingum á stuttum tíma, ef svona er staðið að málinu. Ef ríkisstj. vill fá tiltölulega fljóta afgreiðslu á svona máli, eins og þessu, í þinginu, þá verður hún að sætta sig við það að gefa a.m.k. fulltrúum frá þingflokkunum tækifæri til þess að fylgjast með undirbúningi málsins að einhverju leyti. Ég hef æ ofan í æ bent á þetta og farið fram á þetta. Það kemur svo gjarnan fram í skýrslum frá fjmrh. eins og nú, að það hefur verið allmikið unnið að þessum undirbúningi af ýmsum mönnum, það hefur verið haft mikið samráð við iðnrekendur, mikið samráð við kaupsýslumenn, en alþm. eru settir í þá stöðu, að þeir taka hér við þykkri og margslunginni bók, sem þeir hafa enga aðstöðu til þess að lesa alla, hvað þá að þeir hafi almennilegt tækifæri til þess að geta flutt þar sínar brtt. og er farið fram á það að málið verði afgr. á örskömmum tíma í þinginu. Ég skil það mætavel, að það eru ýmis rök, sem liggja til þess, að fjmrh. fer fram á það að svona mál liggi ekki mjög lengi hjá þinginu. Það eru nokkrar ástæður til þess. En ef þeir eiga að geta farið fram á það við þingið, að það afgr. málið fljótlega, þá verða þeir að fallast á þessi sjónarmið mín, að standa öðruvísi að undirbúningi málanna, en þeir hafa gert. Ég vek athygli á þessu enn einu sinni.

Hér er auðvitað um mjög stórt mál að ræða. Hér er verið að hefja þá miklu breytingu að leggja að verulegu leyti niður tolltekjur ríkissjóðs og breyta tekjuöfluninni í grundvallaratriðum. Við vitum, að hinar ýmsu neyzluvörur almennings hafa verið skattlagðar til ríkissjóðs á mjög mismunandi hátt. Sumar hafa verið í hópi þeirra vara, sem kallaðar hafa verið hátollavörur og innheimtur hefur verið hár tollur af. Það hefur gjarnan verið litið á það þannig, að þar væri um þær vörur að ræða, sem tæpast væru nauðsynlegar og jafnvel allt upp í það að vera lúxusvörur. Því hefur verið innheimt hærra gjald af þeim, en ýmsum öðrum. Og nú er sem sagt stefnt að því að breyta þessu, fella niður tollinn að miklu eða öllu leyti og færa síðan skattheimtuna yfir á hinn almenna söluskatt, sem á að leggjast með nokkurn veginn sama þunga á allar vörur, hinar daglegu lífsnauðsynjar jafnt og hinar. Það gefur auðvitað auga leið, að þm. verða ekki allir á eitt sáttir um þessa breytingu og það hljóta að koma hér fram mismunandi sjónarmið, varðandi þessa breyt. og ýmsar till. lútandi að málum, ef eitthvert svigrúm gefst þá til þess að koma þar till. að. Ég álít því, að það hefði verið mjög æskilegt, ef hæstv. fjmrh. hefði getað fallizt á það, að þetta mál hefði fengið að fara í athugun í þn. og það hefði ekki verið afgr. nú fyrir jól, fyrir þinghlé, heldur hefði verið hægt að geyma það, þar til þing kæmi saman aftur. Mér sýnist satt að segja, að eins og á er sett með verkefni þessa fáu daga, sem eftir eru til jóla, þá verði mjög erfitt að koma þessu máli í gegn, þannig að nokkur mynd eigi að teljast á.

Ég sem sagt beini þessu til hæstv. ráðh. enn einu sinni, að hann athugi það, hvort ekki er hægt að hafa þennan hátt á. Að öðru leyti þá ætla ég mér ekki að fara hér út í neinar almennar umr. um þetta stóra mál. Málið þarf að fara til n. með eðlilegum hætti og vera unnið þar og það sem ég segi hér um málið, verður því stutt að þessu sinni, en ég geri það í fullu trausti þess, að það gefist þá líka nægur tími í þeirri n., sem fær málið til athugunar, til þess að fjalla þar um það, fá upplýsingar um málið og á þann hátt verði hægt að koma fram þeim brtt., sem menn óska eftir að flytja. Að öðru leyti vil ég lýsa því yfir sem skoðun minni og okkar Alþb: manna, að við erum því andvígir að fella niður tollana á þann hátt, sem hér er lagt til, með því að taka upp söluskatt í því formi í staðinn, sem hæstv. ráðh. lýsti hér yfir að ætlunin væri að gera.

Við teljum að það komi fyllilega til athugunar að stefna að því að lækka innflutningstolla í ýmsum greinum og skipa þeim málum hjá okkur á líkan hátt og gert er í ýmsum nágrannalöndum okkar. En það þarf auðvitað að gerast stig af stigi, en jafnhliða og það er gert, þá verður að koma sér saman um það, hvernig á að haga skattheimtu ríkisins í staðinn. Og það er auðvitað mikið og flókið mál. En við getum ekki fyrir okkar leyti staðið að því að fella niður tolla að því marki, sem hér er um að ræða, einkum og sérstaklega af hátolluðum varningi, en taka í staðinn upp jafnan söluskatt, sem leggst á brýnustu lífsnauðsynjar. Við álítum það, að jafnvel þó að út úr slíku dæmi sé hægt að fá það, að kaupgjaldsvísitalan eða verðlagsvísitalan breytist ekki verulega, þá sé þarna eigi að síður um að ræða álögutilflutning láglaunafólki mjög í óhag. Það er enginn vafi á því, að flestar þær vörur, sem hafa verið í 65–90% tollflokki, hafa verið þess eðlis að þær eru yfirleitt sjaldan keyptar af almenningi í landinu eða láglaunafólki, a.m.k. alls ekki daglega og það er ekki hægt að líkja þeim á neinn hátt við ýmsar brýnustu lífsnauðsynjar, sem nú er ætlunin að hækka verðið á með hækkuðum söluskatti, eins og t.d. fiski, sem menn kaupa svo að segja daglega og er ein aðaluppistaðan í daglegri neyzlu fátækra manna í landinu og alls almennings. Við erum sem sagt andvígir þessari stefnu, sem þarna kemur fram, í sambandi við þetta tollalækkunarfrv. og það frv., sem því raunverulega fylgir, sem er söluskattsfrv.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni. Ég veit að tími þessa þingfundar er senn á enda, og ég er ekki á móti því að málið fari til n. og verði þar athugað, en í trausti þess, að það fái þar fulla og eðlilega athugun og þinginu gefist síðan eðlilegt tóm til að fjalla um það, þá lýk ég hér máli mínu að þessu sinni.