28.04.1970
Sameinað þing: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

Almennar stjórnmálaumræður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í nóvembermánuði s. l. gat ríkisstj. okkar haldið upp á 10 ára afmæli sitt. Er það óvenjulangur aldur ríkisstj. í lýðræðislandi. Lengst af hefur stjórnarsamvinnan verið ákaflega snurðulítil og stjórnarliðið býsna samhent, eins og Bjarni Benediktsson forsrh. lagði áherzlu á í ræðu sinni hér í kvöld. Þessu skal ekki neitað. Undanfarna mánuði hefur þetta þó verið að breytast, og nú er svo komið, að stjórnarherrarnir dunda við það að fella eða stöðva stjórnarfrv. hver fyrir öðrum. Sambúðarvandamál stjórnarflokkanna gerast nú æ fleiri, ákvarðanirnar slappari, stefnan reikulli. Það dylst víst engum, að hér er komið að lokum stjórnartímabils, sem í upphafi var kennt við viðreisn. Hér er ekki tóm til að gera rækilega úttekt á þessum 10 ára stjórnarferli, hverju lofað var og hverjar efndirnar urðu. En hér þarf ekki heldur mörg orð um að hafa. Naumast þarf annað en að minna á helztu stefnuskráratriðin, sem fram voru sett fyrir 10 árum, til þess að allir geri sér ljóst, að framkvæmdin hefur hrapallega mistekizt.

Það átti að stöðva verðbólguna. Það átti að tryggja verðgildi krónunnar. Það átti að draga úr skuldasöfnun erlendis. Það átti að minnka óþarfa eyðslu. Það átti að fækka ráðum og nefndum. Það átti að hætta skattpíningu. Það átti að endurnýja og auka atvinnutæki og efla atvinnuvegina. Það átti að bæta lífskjör almennings.

Hér skal einungis vikið að síðast nefnda atriðinu, hvernig gengið hefur að bæta lífskjörin. Kunnugt er, að síðustu 10 árin hafa verið mesti framfaratími í flestum Evrópulöndum. Aldrei hafa orðið stórstígari verklegar framfarir né félagslegar umbætur á Norðurlöndum. Á menntunarkerfi landanna hafa orðið stórbreytingar, svo að byltingu er líkast. Þjóðirnar hafa aukið framleiðsluna ár frá ári og endurskipulagt atvinnuvegina. Í kjölfar þessa hafa lífskjörin farið mjög batnandi í öllum nálægum löndum. Víða, svo sem á Norðurlöndum, eru lífskjörin nú talin 30–50% betri en þau voru fyrir 10 árum. M. ö. o.: kaupmáttur launa hefur hækkað sem þessu svarar, miðað við verðlag.

Ísland er hér undantekning. Hér er kaupmáttur launa verkamanns til stórra muna lægri árið 1970 en hann var árið 1959, miðað við vísitölu kaupgjalds annars vegar en vísitölu verðlags hins vegar. Mun láta nærri, að kaupmáttur tímakaups Dagsbrúnarmanns hafi lækkað um rúm 20% síðan 1959. Þetta eru furðulegar tölur; en þær eru eigi að síður sannar og bera stjórnarstefnunni næsta ófagurt vitni.

Talsmenn ríkisstj. munu segja: Árin 1967 og 1968 voru erfið ár. Þá brugðust síldveiðar, þá lækkaði fiskverð. En 8 af 10 stjórnarárum þessarar ríkisstj. hafa ýmist verið góð ár eða ágæt, bæði að því er aflabrögð og afurðaverð snertir. Núverandi ríkisstj. hefur fengið upp í hendurnar einstakt tækifæri til að treysta og efla atvinnuvegi þjóðarinnar og gera þeim kleift að standa undir bættum lífskjörum almennings, mikilli sókn á sviði félags- og menningarmála og fjölþættum umbótum á ýmsum öðrum vettvangi. En í stað þess var skipulegri stefnu í efnahags- og atvinnumálum hafnað, blind gróðasjónarmið fengu að segja til um það, hvert fjármagnið rann og hvert vinnuaflið leitaði. Frelsi auðmagnsins fékk að vera einrátt með þeim afleiðingum, sem við blasa. Laun hins vinnandi manns eru hér þriðjungi til helmingi lægri en í nálægum löndum. Á sama 10–11 ára tímabilinu, sem þau hafa vaxið þar að raungildi um 30–50 hundraðshluta, hafa þau rýrnað hér um yfir 20%. Á undanförnum árum hefur alþýða þessa lands orðið að heyja látlausa varnarbaráttu gegn sameinuðu valdi atvinnurekenda og stjórnvalda, enda raunin orðið sú, að verkalýðnum hefur hvergi nærri tekizt að halda í horfinu. Hvenær, sem vanda bar að höndum í atvinnulífinu, þótti sjálfsagt að skerða kaupið. Kaupgjaldið var eini kostnaðarliðurinn, sem að dómi stjórnvalda og atvinnurekenda var hægt að lækka. Á 10 ára valdaferli núverandi ríkisstj. hefur dunið yfir hver kjaraskerðingin á fætur annarri í formi gengislækkana, verðhækkana og skertrar vísitölu. Og að þrýsta kaupgjaldinu niður með einhverjum ráðum hefur alla tíð verið æðsta boðorð núverandi valdhafa og helzta hagstjórnartæki þeirra. Nú er líka svo komið, að almennur launamaður á Íslandi býr, eins og ég áðan sagði, við þriðjungi til helmingi lægri rauntekjur en stéttarbræður hans annars staðar á Norðurlöndum.

Svo fast hefur sorfið að íslenzkum námsmönnum, einkum þeim, sem verða að sækja menntun sína til annarra landa, að sumir hafa þegar orðið að hætta við nám og aðrir sjá hið sama blasa við. Þetta þarf engan að undra, þegar þess er gætt, að tvær stórfelldar gengisfellingar með árs millibili hækkuðu erlendan námskostnað um meira en helming, á sama tíma sem atvinnumöguleikar námsmanna versnuðu og tekjur aðstandenda þeirra margra rýrnuðu stórlega. Sú ömurlega mynd blasir nú við að nýju, að háskólanám er að verða forréttindi efnafólks. Þetta eru ekki ýkjur, þetta eru blákaldar staðreyndir, sem engar vífilengjur, ekkert innantómt gaspur fær dulið. Hugleiðingar hæstv. menntmrh. í ræðu hans hér áðan um kenningar Herberts Marcuse og bollaleggingar hans um Alþb. í þessu sambandi breyta hér engu um. Annars verður það að segjast, að stöðugur órói og margvíslegar uppákomur undanfarinna missira á vettvangi fræðslu- og skólamála þyrftu að verða Alþ. og ríkisstj. alvarleg áminning. Þessi mál eru öll í deiglunni og miklum breytingum háð. Þau eru viðkvæm og vandmeðfarin, og sízt má kasta höndunum til þeirra. Þar duga ekki til frambúðar sífelldar hraðsaumaðar bráðabirgðalausnir á elleftu stundu. Gylfi Þ. Gíslason, hæstv. ráðh., sem fer með þessi ákaflega mikilvægu mál og hefur gert það lengi, er hæfileikamaður, en hann hefur mörgu að sinna. Í menntmrn. segist hann mjög sjaldan koma, og er að eigin sögn ákaflega hissa, þegar einhverjum dettur í hug, að hann sé þar að finna. Hann er viðskmrh., og í því ráðuneyti er hans skrifstofa. Hann er alþm., hann er form. stjórnmálaflokks, hann er form. þingfl. Ég held, að reynslan hafi nógsamlega sýnt, að nú á tímum er ekki hægt að gegna embætti menntmrh. í hjáverkum.

Það leikur naumast á tveim tungum, að aðstæður til að knýja fram kjarabætur eru verkafólki og öðrum launþegum hagstæðari nú en verið hefur um hríð. Fiskafli hefur aukizt, verðlag á útflutningsafurðum hækkað stórlega og afkoma þjóðarbúsins batnað mjög, þrátt fyrir óbreytta og ógæfulega stjórnarstefnu. Það er líka orðin knýjandi nauðsyn, að kaup hækki til mikilla muna og endir verði bundinn á það sjálfvirka kauplækkunarkerfi, sem núverandi kjarasamningar hafa orðið í reynd. Hækkun kaupgjalds og kaupgetu almennings er brýn nauðsyn þjóðarbúinu sjálfu og atvinnuvegunum ekki sízt, m. a. til þess að stöðva fólksflótta úr íslenzku atvinnulífi til annarra landa. Því aðeins tekst að halda hér uppi eðlilegu þjóðlífi, sem á sér þróunarmöguleika, að allur almenningur búi við lífskjör, sem séu í nokkru samræmi við kjörin í nálægum löndum.

Þegar verkalýður landsins og aðrar launastéttir búa sig nú undir það að berjast fyrir hækkuðu kaupi og bættum kjörum, þurfa þær jafnframt að læra af biturri reynslu undanfarinna ára. Hin pólitíska barátta er ekki síður mikilvæg. Á þeim vettvangi er einnig barizt um kaup og kjör hins vinnandi manns. Þar er tekizt á um það, hvort halda eigi áfram þeirri háskalegu stefnu að láta launastéttirnar bera kostnaðinn af viðreisnaróstjórninni. Á því leikur ekki nokkur vafi, að í þeirri kjarabaráttu, sem nú er framundan, setur launafólk fyrst og fremst traust sitt á Alþb.-menn í verkalýðsfélögunum. Það treystir því, að þeir hafi forustu um að samstilla alla krafta til átaka. Alveg án tillits til stjórnmálaskoðana ætlast fólkið til þess, að hinir róttæku menn í verkalýðshreyfingunni, Alþb.-mennirnir, stjórni faglegu kjarabaráttunni og leiði hana til sigurs. Og það munu þeir líka gera. En kjarabaráttan er jafnframt og ekki síður háð á sviði stjórnmálanna. Einnig á þeim vettvangi eiga launastéttirnar nú sterkan leik: að fylkja sér um Alþb., efla það og breyta á þann hátt valdahlutföllunum í þjóðfélaginu sér í hag. Jafnhliða kjarabaráttunni í vor eða í kjölfar hennar fara fram bæjar- og sveitarstjórnarkosningar og alþingiskosningar ekki síðar en á næsta vori. Í þessum tvennum kosningum gefst launastéttunum tækifæri til að stórefla flokk sinn, Alþb., eina vinstri flokkinn, sem nokkurs er megnugur, eina flokkinn, sem íhalds- og afturhaldsöflin hræðast. Takist Alþb. að treysta vígstöðu sína í sveitarstjórnarkosningunum í vor, getur það unnið stórsigur í alþingiskosningunum að ári. Slíkur sigur einn tryggir það, að ávinningur kjarabaráttunnar í vor verði ekki fyrr en varir að engu gerður.

Fyrir kemur, að fáein orð, sem einhver lætur falla líkt og af tilviljun, séu eins og svipleiftur, er sýni kjarna stórmáls í réttu og skæru ljósi. Slík orð voru sögð, þegar fulltrúi norsku sendinefndarinnar á þingi Sameinuðu þjóðanna kom á fund Íslendinga og bað þá að standa með Norðmönnum og fleiri þjóðum að flutningi tiltekins máls. „Ég skal láta þess getið“, bætti hann við, „að Bandaríkin hafa þegar heitið málinu stuðningi.“ Hér var ekki af neinni illkvittni mælt í garð Íslendinga, en Norðmaðurinn var raunsær, og reynslan hafði kennt honum, að rökræður hrukku of skammt til að móta afstöðu íslenzkra ráðamanna til utanríkis- og alþjóðamála. Þar var hitt þungvægara: hvað vilja Bandaríki Norður-Ameríku? Þessi hlýðniafstaða íslenzkra ráðamanna gagnvart Bandaríkjunum kemur þráfaldlega fram á þingi Sameinuðu þjóðanna, á þingi Evrópuráðsins, í NATO og víða annars staðar. Í umr. á Alþ. um utanríkismál í síðasta mánuði nefndi ég ýmis dæmi þessa, dæmi, sem ekki hefur verið reynt að andmæla með rökum. Enda þótt kalda stríðið sé nú fyrir löngu úr sögunni, sem betur fer, og æ fleiri Evrópuþjóðir séu að brjótast úr þeirri hugmyndafræðilegu og herfræðilegu spennitreyju, sem þær voru hnepptar í, eru þess sorglega lítil merki, að íslenzkir ráðamenn geti nokkru gleymt eða nokkuð lært í þessum efnum.

Við Alþb.-menn höfum kostað kapps um að knýja fram umr. og endurmat á íslenzkri utanríkisstefnu, þeirri stefnu, sem hefur að hornsteinum aðild að hernaðarbandalagi og bandaríska hersetu. Bæði á síðasta þingi og á öllu þessu þingi, síðan snemma í nóvember, hefur legið fyrir þáltill. okkar um úrsögn úr NATO og uppsögn herstöðvasamningsins. En þessi stórmál hafa ekki fengizt tekin fyrir til afgreiðslu. Hér á Alþ. ríkir meðal stjórnarliða undarleg tregða til að taka þátt í málefnalegum rökræðum um stefnuna í utanríkis- og sjálfstæðismálum. Að vísu hefur núverandi utanrrh. gert hér þá bragarbót að flytja þinginu skýrslu um þessi mál einu sinni á ári, og þingforseti heimilað umr. um hana. Þetta er að vísu framför frá því sem áður var, þar eð fyrirrennari núverandi hæstv. utanrrh. virtist líta á utanríkismálin sem alger einkamál sín og geymdi upplýsingar um þau, með leyfi að segja, í rassvasanum. En tregðan til rökræðna er vissulega fyrir hendi. Því er líkast, að fylgjendur hernámsins beri kvíðboga fyrir því, að almennar umr. fái æ fleiri til að hugsa þessi mál og endurmeta afstöðu sína. Það, sem þeir óttast, er ekki hvað sízt, að andstaða ungs fólks gegn hersetunni eigi eftir að eflast og magnast svo, að við ekkert verði ráðið. Þessarar andstöðu gætir í síauknum mæli. Hún lýsir sér í vaxandi þrótti og sóknarþunga Alþb. Hún kemur einnig fram innan hernámsflokkanna sjálfra, þar sem ný kynslóð er að taka upp baráttuna gegn herstöðvastefnunni.

Á síðasta ári voru 20 ár liðin frá því að NATO var stofnað. Héðan af er hverju aðildarríki innan NATO heimilt að segja sig úr bandalaginu með einhliða ákvörðun sinni. Um þetta vilja íslenzkir NATO-sinnar sem allra minnst ræða. Þeir telja hagkvæmast, að á það sé litið sem sjálfsagðan hlut, eins konar náttúrulögmál, að við verðum áfram í hernaðarbandalagi. Svipuð eru viðhorf ráðamanna til herstöðvamálsins. Þeir eru ófáanlegir til að endurskoða afstöðu sína til þess.

Í næsta mánuði eru 30 ár síðan erlendur her steig hér fyrst á land, og 19 ár síðan hernámsflokkarnir kölluðu bandaríska herliðið hingað á nýjan leik. Meira en annar hver núlifandi Íslendingur er fæddur í hernumdu landi. Og það er síður en svo, að af hálfu íslenzkra valdhafa sé á þessu fyrirhuguð nokkur breyting. Enda þótt Bandaríkin kunni á næstunni að fækka herstöðvum sínum í Evrópu, virðist ljóst, að núverandi ráðamenn á Íslandi ætli þeim að vera hér áfram og hreiðra um sig til frambúðar. Ekki alls fyrir löngu var frá því skýrt, að síðustu þrjú árin hefði bandaríska herstjórnin hér látið reisa 300 nýjar íbúðir á Keflavíkurflugvelli. Á flugvellinum er áformað eða verið að reisa gagnfræðaskóla, stórt sjúkrahús, verzlunarmiðstöð og birgðageymslur fyrir tugi eða hundruð millj. kr. Frá þessu hefur verið skýrt opinberlega. Það virðist því ekkert fararsnið á bandaríska herliðinu á Miðnesheiði. Um sjálfar hernaðarframkvæmdirnar og hernaðartækin þar suður frá fréttist minna, og er þó víst, að öll önnur umsvif og mannvirkjagerð er einungis til orðið þeirra vegna.

Við Alþb.-menn höfum oft spurt, bæði utan þings og innan, hvaða drápstæki og hernaðarvopn séu á Keflavíkurflugvelli. Við höfum aldrei fengið skýr svör, stundum lítið annað en vífilengjur.

Mér hefur ekki úr minni liðið atburður, sem gerðist fyrir rúmu ári og vakti þá heimsathygli. Ein þeirra 2–3 þús. herstöðva, sem Bandaríkjamenn hafa komið sér upp víðs vegar um heim, er á japönsku eyjunni Okinawa á Kyrrahafi. Þar gerðust þau tíðindi, að hópur hermanna veiktist af eiturgasi, sem lekið hafði úr einum af geymum hernámsliðsins. Við rannsókn kom í ljós, að án vitundar japanskra yfirvalda geymdu Bandaríkjamenn í þessari herstöð einni slíkar birgðir af taugagasi, að drepa mátti með tugi eða hundruð milljóna manna. Og þess konar eiturefni reyndust ekki aðeins vera á Okinawa, heldur í fjölmörgum herstöðvum Bandaríkjamanna í Asíu. Alkunnugt er, að í hinni hryllilegu styrjöld í Víetnam hafa Bandaríkjamenn notað hvers konar eiturefni til að eyða jafnt mannlífi sem dýralífi og gróðri, til að eitra og menga láð, loft og lög. Með tilliti til þessarar vitneskju, að ógleymdri þeirri staðreynd, hverju Bandaríkjamenn hafa haldið leyndu um fyrrgreind efni fyrir samherjum sínum í öðrum löndum, hlýtur maður að spyrja: Eru slík eiturefni geymd víðar í bandarískum herstöðvum en frá hefur verið skýrt? Hvaða hernaðar- og drápstæki eru varðveitt í herstöðinni á Miðnesheiði? Ég veit það ekki. Íslenzkir ráðherrar vita það ekki heldur. En eitt er víst. Langvarandi nábýli við herstöð fylgir margvíslegur háski, ekki sízt andleg ólyfjan.

Við lifum á tímum, þegar mannkynið býr yfir þeirri eyðingartækni, sem nægir til að tortíma öllu lífi á jörðunni. Sú staðreynd ætti að vera hverjum manni ljós, að friðsamleg sambúð þjóða, sem búa við ólík hagkerfi, er ekki aðeins möguleg, heldur er hún óhjákvæmileg, eigi heimurinn ekki að brenna í Surtarloga kjarnorkustyrjaldar. Því verður að stefna að því, að herstöðvar verði lagðar niður stig af stigi, kjarnorkuvopnum útrýmt og þjóðir heims feti þannig hina torsóttu leið til allsherjarafvopnunar. Þetta er sú hugsjón, sem Íslendingum ber að styðja með utanríkisstefnu sinni og afstöðu til erlendra herstöðva í austri og vestri. Ég tel, að nú megi sjá þess ýmis merki, að hin unga kynslóð á Íslandi, sem er að láta æ meira til sín taka, hafi bæði þrek og manndóm til að lyfta íslenzkri þjóðmálabaráttu á annað þrep en verið hefur um hríð.

Alþb. er ungur flokkur og enn í mótun. Alþb. er það pólitíska tæki, sem alþýða landsins getur hagnýtt sér og mun hagnýta sér í baráttunni fyrir bættum lífskjörum, fyrir auknum áhrifum hins vinnandi manns á gang þjóðmála. Alþb. er sá stjórnmálavettvangur, þar sem ungt og róttækt fólk getur og mun sameinast til að hefja hátt á loft kröfuna um brottför hers og afnám herstöðva. Alþb. er baráttuflokkur íslenzkra vinstri manna og sósíalista. Við bæjar- og sveitarstjórnarkosningarnar í lok maímánaðar býður Alþb. fram eða stendur að framboði í öllum kaupstöðum landsins og fjölmörgum sveitarfélögum. Með framboðunum hefur Alþb. þegar sýnt, að það er hinn eini róttæki fjöldaflokkur á Íslandi í dag.

Ég er þess fullviss, að alþýða landsins og unga kynslóðin muni í sameiningu tryggja það, að Alþb. verði að kosningum loknum fært um að heyja sigursæla baráttu fyrir málefnum fólksins, fyrir hækkuðu kaupi, fyrir fullri atvinnu, fyrir lausn undan oki herbandalags og hersetu. — Góða nótt.