29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

Almennar stjórnmálaumræður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þessu pólitíska stórviðri á Alþingi Íslendinga fer nú að slota. Eitt fróðlegasta einkenni þessara umræðna hefur verið daufur og þreklaus málflutningur stjórnarflokkanna. Fulltrúar þeirra hafa með ræðum sínum staðfest þá staðreynd, sem blasað hefur við okkur þingmönnum í allan vetur, að núverandi ráðh. eru, auk alls annars, áhugalausir, trúlausir, leiðir á verkefnum sínum og hver á öðrum, langþreyttir menn og sjálfum sér sundurþykkir. Þegar þeir skyggnast til framtíðarinnar, sjá þeir aðeins eina vonarglætu: Klofningsframboð Hannibals Valdimarssonar og Björns Jónssonar og þess örlitla hóps, sem ranglega kennir sig við Sósíalistafélag Reykjavíkur. Fögnuður stjórnarflokkanna yfir þessum framboðum er mjög órækur vitnisburður um þá atburði, sem hér eru að gerast. Hafi einhver verið í vafa, veit hann nú, hverjum verið er að þjóna.

Raunar hafa þeir Hannibal og Björn ekki farið neitt dult með það í þessum umræðum, að þeir vita fullvel, til hvers ætlazt er af þeim. Ræður þeirra hafa nær einvörðungu verið ofstækisfullar árásir á Alþb., ásamt persónulegu níði. M. a. hafa þeir gripið óspart til þeirrar kommúnistagrýlu, sem löngum var beitt af alefli gegn þeim sjálfum. Það heitir að „kyssa á vöndinn“.

Að öðru leyti hefur Björn Jónsson haft stór orð um það, að þeir tvímenningarnir ætluðu að kollvarpa ríkjandi valdakerfi á Íslandi og blása fersku lofti í stjórnmálabaráttuna. Þeir Hannibal og Björn eru sannarlega engir ferskir nýliðar í íslenzkum stjórnmálum, heldur útsmognir atvinnupólitíkusar, sem hafa lagt á það sérstaka áherzlu, að komast inn í valdakerfið, safna nefndum og ráðum, einkanlega þeim sem úthluta fjármunum. Það fer heldur ekki neitt dult, að hinn svokallaði flokkur þeirra á einvörðungu að vera tæki í persónulegri framastreitu. Björn Jónsson sagði, að þeir vildu vera úrslitaafl við myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir næstu kosningar, og sú lýsing hitti beint í mark. Áform þeirra eru einmitt við það bundin, að þeim takist persónulega að halda sér inni á þingi, en að stjórnarflokkarnir missi meiri hluta sinn, og að þá verði þeir hjálpargagn Sjálfstfl. og Alþfl. til að halda stjórninni áfram og komast yfir ráðherrastól. Að þessu hafa þeir unnið leynt og ljóst um langt skeið.

Þeir lýstu mikilli samúð með gengislækkun ríkisstj. 1968. Hannibal Valdimarsson kallaði hana „blóðgjöf“ og sagði, að ekki mætti spilla árangri hennar með kauphækkunum. Þeir hafa staðið að því sjálfvirka kauplækkunarkerfi, sem nú hefur tvívegis verið samið um, enda urðu þeir forseti og varaforseti Alþýðusambandsins með beinum samningum við æðstu ráðamenn Sjálfstfl. og Alþfl. Þegar verðtrygging launa var afnumin með lögum, sagði Hannibal Valdimarsson ekki aukatekið orð hér á þingi, og hvarf úr þingsalnum, áður en greidd voru atkv. Þegar þeir stofnuðu tvímenningshlutafélag sitt, lýstu þeir yfir því, að þeir væru hlutlausir í afstöðunni til Atlantshafsbandalagsins, svo að það mál þyrfti ekki að torvelda nánari sambúð síðar. Í vetur voru þeir enn hrifnari af EFTA og innrás erlends fjármagns en stjórnarflokkarnir. Björn Jónsson talaði um það fyrirheitna land eins og forkláraður Ástralíuagent, og fengu menn smjörþef af þeirri lýsingu í ræðu hans hér áðan. Og þeir vildu gjarnan kaupa inngönguna því verði að hækka söluskattinn um allt að 1000 millj. kr. á ári. Þegar gengið var í EFTA, var vitað, að hækkun á söluskatti var hluti af aðgangseyrinum, og þeir Hannibal og Björn geta ekki umflúið þá ábyrgð, enda viðurkenndi Hannibal Valdimarsson áðan, að hann hefði sjálfur lagt til, að söluskattur hækkaði úr 7½% upp í 9½%, en sú hækkun nemur um 500–600 millj. kr. á ári. Þess má geta, að söluskattshækkun sú, sem nú er komin til framkvæmda, er aðeins byrjunin. Þegar þessari þróun er lokið, verður söluskatturinn kominn upp í 20%. Allt er þetta í augljósu samhengi. Hér er sannarlega ekki um að ræða hreina og skýra hugsjónabaráttu og ekki einu sinni ágreining milli vinstri manna, heldur þá einkahagsmunastreitu, sem allt of mikið einkennir íslenzk stjórnmál, þegar þau eru hvað lágkúrulegust.

Ég notaði áðan orðið Ástralíuagent. Eitt það ömurlegasta, sem gerzt hefur hér á landi síðustu árin, hefur verið landflóttinn. Brottflutningur hundraða manna til frambúðardvalar hinum megin á hnettinum fyrir tilstilli Ástralíuagenta, sem greiddu mönnum farareyri. Þessi landflótti var ekki aðeins afleiðing af atvinnuleysi þúsunda manna og stórskertum lífskjörum, þeim ömurlegu aðstæðum, sem viðreisnarstefnan leiddi yfir launafólk. Hún var einnig til marks um andlega uppgjöf. Þetta fólk var fórnardýr þess áróðurs stjórnarflokkanna, að Íslendingar væru þess ómegnugir að tryggja sjálfir blómlegt þjóðlíf í landi sínu. Við verðum að treysta á forsjá útlendinga á æ fleiri sviðum.

Bjarni Benediktsson sagði hér í gær, að ég hefði hvatt þetta fólk til brottfarar. Sannleikurinn er sá, að ég hef skrifað margar forystugreinar í Þjóðviljann, þar sem ég hef skorað á fólk að hverfa ekki af landi brott, heldur takast á við erfiðleikana hér heima og hnekkja þeirri stjórnarstefnu, sem leiddi atvinnuleysi og skort yfir launafólk. En því miður höfðu orð mín og annarra ekki nægileg áhrif. Vonleysisandinn frá viðreisnarstefnunni varð yfirsterkari hjá hundruðum manna. Hitt verð ég að játa, að nú eftir á, þegar hluti af þessu fólki sér, að það hefur tekið ranga ákvörðun, þegar það á í þrengingum og sáru hugarstríði í fjarlægu landi, m. a. barnafjölskyldur, þá hélt ég í einfeldni minni, að við alþm. gætum komið okkur saman um að rétta þeim hjálparhönd, sem vildu hverfa heim aftur, og það þyrfti þó ekki að vera deilumál. Ég flutti áreitnislausa till. um það efni og átti sannarlega ekki von á því, að forsrh. Íslands mundi hafa neyð þessa fólks í flimtingum, tala um það kaldrifjuðum orðum með háðsglott á vör. En nú þekki ég þennan hæstv. ráðh. svolítið betur en áður og það gera fleiri. Gylfi Þ. Gíslason má hins vegar eiga það, að hann er ekki kaldrifjaður. Hann hefur verið í skoplegu uppnámi síðustu dagana og ekki getað fundið nægilega stór orð til þess að hrakyrða ungt fólk, sem ekki hefur farið að settum reglum við að vekja athygli á mjög örlagaríkum efnahagsvandamálum sínum, vandamálum, sem skera úr um framtíð og lífshamingju hundraða æskumanna. Slíkt hið sama gerði Birgir Finnsson áðan, þannig að árásirnar á unga fólkið virðast eiga að vera kjarni í stefnu Alþfl.

Þegar ég heyrði Gylfa Þ. Gíslason flytja þessa fordæmingarræðu sína hér í gær, minntist ég annarrar ræðu, sem þessi sami maður flutti hér í salnum fyrir 21 ári. Þá höfðu orðið stórfelldustu átök, sem gerzt hafa hér á landi á þessari öld, vegna þess að miklum meiri hluta Íslendinga fannst þjóðarmetnaður sinn særður með inngöngunni í Atlantshafsbandalagið. Og Morgunblaðið hrópaði þá hástöfum um kommúnistíska byltingu. En Gylfi var þá á annarri skoðun en nú. Hann stóð með hinum svokölluðu byltingarmönnum. Hann var samherji minn og annarra, sem tóku þátt í mótmælunum. Hann fordæmdi aðgerðir lögreglunnar og aftók með öllu, að menn yrðu ofsóttir fyrir mótmæli sín.

Hann er hins vegar ekki samur maður lengur. Hann hefur glatað hugsjónum sínum, jafnt um íslenzkan sósíalisma sem sjálfstæði Íslands. Hann hefur engan skilning á ungu fólki. Hann er orðinn ómengaður íhaldsmaður. Og einmitt þess vegna er honum um megn að leysa vandamál nemendanna, eins og ólgan í menntamálum hefur nú sannað í meira en ár. Ráðh. sagði, að við Alþb.-menn hefðum ekki fordæmt þá atburði, sem gerzt hafa að undanförnu. Þetta er ekki heldur rétt. Ég lýsti yfir því hér á þingi fyrir 10 dögum, að ég fordæmdi það ástand, sem leiddi til slíkra atburða, og ég fordæmdi þá menn, sem ábyrgð bæru á því, að framhaldsmenntun væri í vaxandi mæli að verða forréttindi hinna auðugu. Það er ekki neinn Herbert Marcuse og ekki nein æskulýðsfylking, sem veldur ólgunni meðal unga fólksins, heldur Gylfi Þ. Gíslason sjálfur með þröngsýnum sjónarmiðum sínum og skilningsleysi á viðhorfi unga fólksins.

Á laugardaginn var flutti ég ásamt Þórarni Þórarinssyni till. um að styrkja lánasjóð námsmanna svo, að hann gæti fullnægt allri lánaþörf frá og með árinu 1974. Viðbrögð Bjarna Benediktssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar urðu þau að banna forseta að taka málið til umr. Mér þætti fróðlegt, ef Benedikt Gröndal, einn af forsetum Nd., skýrði frá því hér á eftir, hvort það bann á að standa til þingloka. Þá spurningu ber ég fram í nafni þúsunda heimila, sem sent hafa unglinga til framhaldsnáms.

Það hefði verið ástæða til að gera margt fleira að umtalsefni úr þessum umr. En ég verð að viðurkenna, að ég hef næsta takmarkaðan áhuga á þessu sérkennilega pólitíska framhaldsleikriti, sem útvarpað er yfir þjóðina. Ég hef miklu meiri áhuga á hinu, sem menn segja og gera utan þingsalanna næstu vikurnar, því að nú er fram undan eitt af þeim sjaldgæfu tímabilum, þegar fólkið í landinu, kjósendurnir sjálfir fara með völdin og taka ákvarðanir, en þurfa ekki að láta sér nægja að heyra óminn af orðræðum okkar bak við hina bergmálslausu múra Alþingishússins.

Kjarasamningar þeir, sem nú eru fram undan, og sveitarstjórnarkosningarnar, geta gerbreytt stjórnmálaþróuninni á skömmum tíma. Kjarasamningarnir eru ekki aðeins mikilvægir vegna þess, að þeir geta tryggt þúsundum einstaklinga og fjölskyldna bætt kjör. Þeir snerta einnig það grundvallaratriði í stjórnmálaátökum síðustu ára, hvort Ísland á að vera varanlegt láglaunasvæði, eins og stjórnarflokkarnir stefna að, og kalla nú því nafni „að flýta sér hægt“. Það er mikið ánægjuefni, að verkalýðsfélögin eru nú staðráðin í því að snúa vörn í sókn. Það kemur m. a. fram í því, að félögin ætla nú sjálf að fara með samninga sína, án þess að lúta forsjá forseta og varaforseta Alþýðusambandsins.

En auðvitað verður þessi barátta vandasöm og reynir á órofa samheldni launamanna og skilning á eðlilegu samhengi í þjóðfélaginu. Í því sambandi er ástæða til að beina athyglinni að Framsfl. Tíminn hefur tekið mjög undir kröfur verkalýðssamtakanna og ber að fagna því. En atvinnufyrirtæki samvinnuhreyfingarinnar og Framsfl. eru á sama tíma í innilegustu faðmlögum við Vinnuveitendasamband Íslands, og ýmis fyrirtæki bænda hafa verið innlimuð í þau íhaldssamtök gegn vilja eigenda sinna. Ef fyrirtæki þau, sem Framsókn ræður yfir, ganga tafarlaust til samninga við verkalýðsfélögin, í samræmi við þá stefnu, sem Tíminn hefur boðað, nær launafólk skjótlega rétti sínum án þeirra kostnaðarsömu átaka, sem annars kunna að vera fram undan. Framkoma þessara fyrirtækja verður úrslitadómur um heilindi Framsfl. og afstöðu launamanna til þess flokks. Ég vil skora á Halldór E. Sigurðsson, sem talar hér á eftir og er einn af aðalleiðtogum Framsóknar, að skýra frá því, hvort ekki megi vænta þess, að fyrirtæki Framsóknar gangi til tafarlausra samninga, í samræmi við stefnu Tímans, og tryggi þannig sem skjótastan árangur í þessum mikilvægu átökum.

Kjarasamningarnir haldast einnig í hendur við sveitarstjórnarkosningarnar, og menn veita því athygli, hvar á listum forystumenn verkalýðssamtakanna er að finna og á hvaða listum konur ganga til stjórnmálabaráttunnar til jafns við karla. En umfram allt vil ég biðja menn að minnast þess, að sveitarstjórnarkosningarnar skera einnig úr um framtíð ríkisstj. Þessi stjórn er orðin svo völt og sjálfri sér sundurþykk, að hún mun gefast upp, ef stjórnarflokkarnir fá alvarlega áminningu í kosningunum og Alþb. styrkir stöðu sína að sama skapi. Kjósendur eiga þess kost eftir mánuð að losna við ríkisstj. Bjarna Benediktssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar úr stjórnarráðinu. Þess vegna beinist athyglin næstu vikurnar að því, sem gerist utan þingsalanna, þar sem launafólkið, yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar, hefur valdið. Ég óska landsmönnum til hamingju með þau tækifæri og býð góða nótt.