22.01.1970
Neðri deild: 41. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

123. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef gefið út sérstakt nál. á þskj. 256, þar sem ég geri grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Eins og þar kemur fram, þá er augljóst að sú breyting, sem nú er ráðgert að gera á tollskránni, er fyrst og fremst bundin við þá ákvörðun, sem tekin hefur verið hér á Alþ., að Ísland gerist aðili að EFTA. Meginbreytingarnar eru því fólgnar í því, að gera ráð fyrir sérstökum EFTA–tolli, þar sem um er að ræða um 30% tollalækkun á EFTA–vörum, séu þær fluttar inn frá EFTA–löndum og um 50% lækkun á tollum á ýmiss konar efnisvörum til iðnaðar og talsverðri lækkun á tollum á ýmiss konar vélum og tækjum. Hér er því ekki um að ræða almenna endurskoðun tollalöggjafarinnar, sem ég tel þó, að hefði verið brýn þörf á að gera, því að á því leikur enginn vafi, að í tollalöggjöfinni gætir margs konar misræmis og þar eru ýmis ákvæði, sem tvímælalaust eru óheppileg og þyrfti að leiðrétta. Það er enginn vafi á því, að það þyrfti að stefna að því, að lækka tolla á margvíslegum vörum, einkum til framleiðsluatvinnuveganna og sömuleiðis ýmiss konar tolla, sem nú eru farnir að hvíla óeðlilega þungt á álagningunni á ýmsum nauðsynjavörum einstaklinga og heimila. En hér er sem sagt ekki um neina slíka endurskoðun að ræða á tollalöggjöfinni, heldur aðallega um að ræða breytingar af þeim ástæðum, sem ég hef greint frá. Ég tel, að ýmsar þær tollalækkanir, sem felast í frv., séu til bóta og er þeim samþykkur, bæði að ýmsar þeirra brtt., sem koma frá n. eða eru hér fluttar af formanni fjhn., séu til bóta, aðrar aftur nokkuð vafasamar. Hið sama er að segja um þær breytingar á tollskránni, sem felast í sjálfu frv. Ég get því verið með sumum þeirra, en öðrum ekki.

Ég tel að sérstaklega sé eitt ákvæði, almenns efnis, mjög varhugavert í þeim breyt., sem hér liggja fyrir, en það er það, að gert er ráð fyrir því, að taka upp mismunandi tollstiga á sams konar vöru, eftir því hvort varan er flutt inn frá EFTA–löndum eða frá öðrum löndum. Ég tel sérstaklega varhugavert, að hafa þennan tollamismun svo háan sem raun verður á hér í ýmsum gr. Það verður sem sagt að hafa það í huga, að tollstigar hjá okkur eru í mörgum tilfellum mjög háir og þegar slíkir tollstigar eru lækkaðir um 30%, þá myndast hér býsna mikill tollamismunur. Ég tel að þetta ákvæði geti verið mjög hættulegt í framkvæmd og það sé mjög sennilegt, að af því leiði vandkvæði fyrir okkar útflutning í vissum tilvikum. Ég held að það leiki enginn vafi á því, að þetta misræmi, sem þarna verður tekið upp, muni leiða til þess, t.d. í viðskiptum okkar við Austur–Evrópulöndin og jafnvel við fleiri lönd, að þau muni fara að taka tillit til þessa óhagræðis, sem þau verða þarna fyrir, við ákvörðun þess verðs, sem þau vilja gefa fyrir okkar útflutningsvörur. Þá er þetta ákvæði, sem sett er nú inn í okkar tollalöggjöf vegna EFTA–aðildar, farið að bitna verulega á okkar útflutningsatvinnuvegum.

Þetta atriði hafði verið allmikið rætt í EFTA–nefnd á sínum tíma og þá kom það fram m.a. hjá viðskrh. að hann taldi, að hér gæti verið um mjög verulega hættu að ræða og því yrði að gæta þess, að þessi tollamismunur yrði sem minnstur. Það kom mér því nokkuð á óvart, að sjá gert ráð fyrir því, í því samkomulagi, sem gert var um aðild Íslands að EFTA og hér í tollalagabreyt., að það yrði svona gífurlega mikill tollamismunur eins og raun er á. Ég efast að vísu ekki um það, að hér hefur verið um einhvern ytri þrýsting að ræða frá þeim aðilum, sem vilja njóta hér forréttinda á íslenzkum markaði, en ég tel, að grundvallarsáttmáli EFTA sé þess eðlis, að það hefði ekki átt að ganga að slíkum kröfum, þótt þær hefðu komið fram, vegna þess að hér er verið að skapa EFTA–ríkjunum óeðlilega sérstöðu á íslenzkum markaði. Í öðrum EFTA–löndum er þetta ekki svona, því að þó þar hafi myndazt nokkur mismunur á tollstigum gagnvart EFTA–löndum og svo öðrum löndum, þá er sá mismunur yfirleitt mjög lítill, sem leiðir af því, hvað tollar í þeim löndum voru yfirleitt lágir fyrir.

Ég hef því flutt hér sérstaka brtt. á þskj. 257 um það, að taka upp það ákvæði, að þó að EFTA–tollurinn verði í tollskránni auðkenndur sérstaklega, – m.a. með tilliti til þess, sem á eftir hlýtur að koma, þ.e.a.s. á næstu árum, í sambandi við það samkomulag, sem gert hefur verið um aðild Íslands að EFTA, – þá tel ég rétt að hafa á öllum þeim vörutegundum, sem EFTA–tollurinn nær yfir, ákvæði um það, að ytri tollurinn á þeim skuli vera hinn sami og EFTA–tollurinn, þ.e.a.s., það verði ekki gerður hér mismunur á. Till. mín er allt svo miðuð við þetta. Ég tel, að hún sé það skýr, að þar fari ekkert á milli mála. Þá kemur það skýrt fram, hvort menn geta fallizt á þetta sjónarmið mitt eða ekki.

Þá bendi ég einnig á það í mínu nál., að þessi tollamismunur getur í ýmsum tilvikum beinlínis leitt til þess, að hagstæðara verði fyrir innlenda innflytjendur að kaupa þær vörur erlendis, sem dýrari eru í erlendum gjaldeyri. Það getur beinlínis verið hagstæðara fyrir innflytjanda að kaupa vöru í EFTA–landi, þótt hún sé þar dýrari en í löndum utan EFTA, vegna þess að hún á hér heima í lægri tollflokki. Þannig getur útsöluverð hennar hér innanlands eftir sem áður verið nokkuð lægra heldur en ef varan hefði verið keypt í landi utan EFTA, fyrir minni gjaldeyri, fyrir lægra verð. Það er því veruleg hætta á því, að þetta ákvæði beinlínis leiði til þess, að við séum að eyða gjaldeyri okkar að ástæðulausu.

Ég bendi á það enn, að einmitt vegna þess, hvað hér er um mikinn mismun að ræða, – en í ýmsum tilvikum verður þetta þannig, að á sams konar vöru verður ytri tollurinn 65% en EFTA–tollur 45%, þá getur þessi tollamismunur orðið enn þá meiri, þar sem t.d. ytri tollurinn er 90% en EFTA–tollur 65%, – þá getur til þess komið, að óeðlileg og þjóðhagslega óhagkvæm utanríkisviðskipti þróist í skjóli þessa mismunar.

Annað ákvæði, sem ég hef í huga að flytja brtt. um, en hef ekki gert enn, – geri það e.t.v. við 3. umr., – það er ákvæði, sem ég tel að vanti í frv., en það er að setja hér eitthvert öryggi inn um það, að sú tollalækkun, sem ákveðin er með frv., skili sér í reynd út í verðlagið. Ég tel að það hefði átt að setja hér inn ákvæði til bráðabirgða um, að verðlagsnefnd skuli ákveða verðlag á þeim vörum, sem eiga að lækka í tolli samkvæmt þessum l., á þann hátt, að hún tryggi það, að tollalækkunin komi fram í útsöluverði vörunnar innanlands. Ég hef ekki flutt um þetta till. enn, en hef það til athugunar fyrir 3. umr.

Þá vil ég að lokum aðeins benda á það, að auðvitað er það svo, að þær verðbreytingar, sem verða á varningi í landinu vegna þeirrar tollalækkunar, sem felst í þessu frv., verða mjög handahófskenndar. Verðlag lækkar væntanlega eitthvað í reynd á einstaka vörum, t.d. þeim, sem hafa verið í háum tollflokki og verða síðan fluttar inn undir EFTA–tollskrárákvæðum, jafnvel þó að á þær kunni að bætast 3 1/2% viðbótarsöluskattur, en mjög margar vörutegundir verða eftir þessa breyt. í sama tollflokki og þær voru áður, en fá nú á sig 3 1/2% hækkun á söluskatti og koma þar með til með að hækka í verði. Margar nauðsynlegustu vörur, t.d. þær sem útflutningsframleiðsla okkar þarf á að halda, eins og vélar, tæki og áhöld, sem voru komnar í tiltölulega lága tollflokka, koma yfirleitt til með að hækka í útsöluverði vegna hækkunarinnar á söluskattinum. Hér verður því yfirleitt ekki um neina teljandi verðlækkun að ræða vegna tollalækkunarinnar. Því verður vitanlega að líta á þetta mál allt í samhengi, þar sem söluskatturinn er í rauninni hin hliðin á þessu tollalækkunarmáli.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Mín afstaða til málsins kemur fram í mínu nál. á þskj. 256 og í þeirri brtt., sem hér liggur fyrir frá mér. Mun ég svo síðan taka afstöðu til einstakra till., eftir því sem mér þykir ástæða og efni standa til.