29.04.1970
Sameinað þing: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

Almennar stjórnmálaumræður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Út af því, sem Benedikt Gröndal sagði í sambandi við ræðu Ingvars Gíslasonar, vil ég segja þetta: Það, sem skiptir mestu máli, er að leysa verkefnin eins og þau eru á hverjum tíma. Það er ekki ábyrgðarlaust fleipur, þó að á það sé bent, að slíkt skorti í sambandi við námsmenn nú. Ingvar Gíslason beitti við það réttum rökum við stjórnvöld. Þannig á að vinna að verkefnunum og þannig eiga stjórnvöld að meta þá að verðleikum, sem benda þeim á verkefnin á þann hátt.

Jón Þorsteinsson taldi í ræðu sinni í gær, að það væri í lagi, þó að launum hinna öldruðu og annarra tryggingaþega hefði verið haldið niðri, þar sem stjórnarliðum hefði einnig tekizt að halda niðri launum hjá þeim lægst launuðu.

Út af ræðu landbrh., Ingólfs Jónssonar, vil ég segja þetta: Á þessum áratug er búið að láta bændur tvisvar sinnum fá lausaskuldalán. Sannar þetta ágæti afkomu þeirra, eins og ráðh. hélt fram? Ráðh. sagði, að bændur hefðu fengið hækkuð rekstrar- og afurðalán. Sannleikurinn er sá, að rekstrarlán eru að krónutali þau sömu og þau voru 1959. Afurðalánin hafa hins vegar fylgt svipuðu hlutfalli og þau fylgdu þá, eða um 67%. Vegna óðaverðbólgunnar eru það að sjálfsögðu fleiri krónur heldur en þá voru. Ráðh. sagði, að það hefðu aldrei verið betri skil í Búnaðarbankanum á lánum bænda en á s. l. hausti. Veit ekki hæstv. landbrh., að það þurfti að gera upp við Búnaðarbankann, áður en hægt væri að fá lausaskuldalán?Ætli það sé ekki samhengi þar á milli? Ráðh. var undrandi yfir því og hældi sér mikið af, að það væri meiri aðsókn að bændaskólunum núna heldur en var á kreppuárunum, þegar Íslendingar voru nærri helmingi færri en nú er. Ráðh. hældi sér af frv. því, sem lagt var fram hér í gær um lífeyrissjóð bænda. Þetta mál var flutt hér inn á Alþ. á árunum 1957 og 1958. Það var búið að semja frv. um þetta eða skila nál., þegar vinstri stjórnin fór frá. Það hefur tekið núverandi valdhafa allan þann tíma síðan að átta sig á því, að þetta væri gott mál.

Ingólfur landbrh. sagði hér, að framsóknarmenn hefðu verið á móti Búrfellsvirkjuninni. Hann veit hins vegar, að allir framsóknarþm. greiddu atkv. með þeirri virkjun, þegar hún var hér til meðferðar á hv. Alþ. Hann veit einnig, ráðh., að Framsfl. hélt því fram, að það væri hægt að virkja við Búrfell, þó að álbræðslan kæmi ekki til.

Fjmrh. talaði hér í kvöld og sagði, að skattvísitalan hefði ekki fylgt framfærsluvísitölunni fullkomlega. Rétt er nú það. En sannleikurinn er sá, að það er sama skattvísitala og var ákveðin 1967 gildandi enn þá, þótt það eigi að breyta henni í vor. Síðan eru búnar að verða tvær gengisbreytingar og öll sú verðhækkun, sem fylgdi í kjölfar þeirra.

Skuldasöfnunina við útlönd ræddi ráðh. nokkuð, og hann talaði um geigvænleg eyðslulán, sem hefðu verið tekin á tímum vinstri stjórnarinnar, áður en viðreisn tók við. Það voru lánin, sem fóru til þess að byggja sementsverksmiðjuna, áburðarverksmiðjuna, virkja Sogið og virkja austanlands og vestan. Þetta kallar fjmrh. geigvænleg eyðslulán. En hann gleymdi að geta þess, að í lok ársins 1958 þurfti ekki nema milli 5 og 6% af útflutningstekjum þjóðarinnar til þess að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum, en nú þarf um 15%. Ráðh. talaði um það, að þeir mundu sennilega snúa sér að því, ríkisstj.- menn, að kaupa smærri togara, eins og þeir felldu þó tillögu um í gær. Þetta er í samræmi við önnur vinnubrögð þeirra, eins og t. d. í fyrra, þegar þeir felldu tillögu frá okkur stjórnarandstæðingum um 350 millj. kr. til atvinnumála, en útveguðu svo þessa fjármuni í janúar. Ekkert er nema gott um það að segja, þegar þeir sjá að sér.

Út af dreifingu raforkunnar á þessu ári vil ég segja það, að það var samstaða um það í fjvn. að knýja það mál áfram, og það hefur borið árangur.

Ráðh. lét í ljós undrun sína yfir því, að við skyldum í stjórnarandstöðu flytja tillögur til útgjalda í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Það hefur nú verið svo, að þessi tillöguflutningur hefur ekki verið meira en 1–2% af heildarútgjöldum fjárlaganna. Hins vegar hafa umframtekjur á s. l. 10 árum verið yfir 3000 millj. kr. Þrátt fyrir það hefur verið greiðsluhalli hjá ríkissjóði, svo að hundruðum millj. kr. nemur, á síðustu þremur árum samfleytt.

Ráðh, talaði um það, að stjórnarandstæðingar mundu gleyma erindi sínu, þegar þeir væru komnir í stjórnarstólana, þó að þeir ættu einhver góð áform, á meðan þeir væru í stjórnarandstöðu. Hér talaði sá, sem þekkti og reynsluna hafði. Árið 1958 talaði Magnús Jónsson af hálfu stjórnarandstöðu við 1. umr. fjárl. Þá sagði hann m. a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er áreiðanlega hægt að spara á mörgum sviðum. En það þarf í senn réttsýni og kjark til að gera slíkar ráðstafanir á viðunandi hátt. Án einbeittrar forystu fjmrh. á hverjum tíma er þess ekki að vænta, að andi sparnaðar og hagsýni ráði í ríkisrekstrinum.“

Hvernig hefur framkvæmdin á þessu verið hjá hæstv. fjmrh.? Síðan hann tók við fjármálastjórninni 1965, hafa fjárl. hækkað um 150%. Sparnaðarfyrirheitin, sem hann átti í tölusettum liðum úr nál. fjvn., er hann var formaður fyrir, hafa gleymzt. Til verklegra framkvæmda var varið áður yfir 20% af ríkistekjunum, nú er ekki varið nema 9% af útgjöldum fjárl. Vegna verklegra framkvæmda eru nú skuldir, sem nema um 1200 millj. kr.

Og þá eru það nefndirnar. Ráðh. talaði um sóknarnefndir, skólanefndir og áfengisvarnanefndir. Hvernig var nú viðhorf þeirra ríkisstj.-manna á árinu 1960, þegar þeir voru að byrja viðreisnarstjórnina, til nefnda? Þá sögðu þeir þetta m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndir eru margar í íslenzku þjóðfélagi og margar of dýrar. Sumir menn vilja jafna nefndum og ráðum við plágur Egyptalands. En hér þarf að hafa hóf á um fjölda nm., kostnað við nefndir og ævilengd þeirra.“

Nú óskaði ríkisstj. eftir því að fá tíma til ársins 1971 til þess að geta svarað því, hve margar nefndir störfuðu á hennar vegum árið 1969 og hvað var greitt í laun til þeirra. Hins vegar varð að samkomulagi, að ríkisstj. á að ljúka því verki á árinu 1970. Ekki kann ég skil á því, hvort nefndir og ráð á vegum ríkisstj. núna eru eitthvað í líkingu við plágurnar í Egyptalandi. Ekki er mér heldur ljóst, hvernig ríkisstj.-menn meta hugtakið að standa vel við fyrirheit, ef sparnaður þeirra í nefndaskipun er færður til tekna á þeim reikningi. En minna vil ég einnig á sparnaðarfyrirheitin, sem lögbundin voru 1968. Sparðatíningur var upp á 40 millj. kr., sem átti að spara. En í reyndinni fóru þeir sömu fjárlagaliðir um 106 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Þetta eru staðreyndir um framkvæmd þeirra í sparnaði og hagkvæmni í ríkisrekstrinum. Svo kemur hæstv. forsrh. og segir: „Okkur hefur tekizt frábærlega vel.“

Í framhaldi af þessu vil ég minna á nokkur verkefni, sem ekki verður umflúið að veita fé til á næstu árum. Ég hef sýnt fram á það, hvað stjórnarstefnan hefur leikið ríkissjóð grátt. Ég nefni þar fyrst atvinnumálin. Forysta ríkisvaldsins, beinn eða óbeinn fjárstuðningur úr ríkissjóði, þarf þar að koma til. Ég minni á rannsóknir og vísindi, sem krefjast mikils fjármagns. Þjóðin getur ekki unað því að ganga aftur á bak í tryggingamálum, eins og gert er með afgreiðslu á tryggingunum á þessu þingi. Kaupmáttur ellilauna er nú minni en hann var fyrir nokkrum árum. Tryggingakerfið verður að nota í enn þá ríkari mæli en verið hefur til að jafna aðstöðuna í þjóðfélaginu.

Hver trúir því, að þjóðin komist hjá því að auka fé til stuðnings við námsmenn? Enginn, sem metur samtíðina rétt. Við verðum að auka námslán, taka upp námslaun. Það verður að jafna aðstöðu æskufólks með beinum styrkjum, svo að búseta í landinu ráði þar ekki um, hvort æskufólk getur stundað nám eða ekki. Hver er sá, sem heldur því fram, að ríkisvaldið geti lokað eyrunum fyrir óskum íþróttamanna um fjárstuðning? Enginn, sem þekkir sinn vitjunartíma. En það, sem mestu máli skiptir þó, er það, að Alþingi og ríkisstj. taki á þessum málum eins og sæmir, af framsýni og fyrirhyggju, en láti ekki hrekja sig út í framkvæmdir með uppþotum og hálfgerðu ofbeldi, eins og nú er að gerast. Fálm, fyrirhyggjuleysi og handahóf einkennir framkvæmdir ríkisstj., eins og læknadeilan í fyrra, stofnun Menntaskólans við Tjörnina, gagnfræðadeildirnar, námslán nú, húsnæðismálafrv., kvensjúkdómadeildin, félagsheimilasjóðsfrv. og ótal fleiri mál sanna. Það er á rök, en ekki ofbeldi, sem ríkisstj. á að hlusta og hafa manndóm til að meta.

Eitt af þeim málum, sem sýnir betur en flest annað, hvaða stefnu ríkisstj. fylgir í efnahagsmálum, er hækkun á söluskattinum. Með þeirri ráðstöfun er tekjuöflun ríkissjóðs færð frá þeim, sem hafa meiri fjárhagsgetu, til hinna efnaminni. Hér er um tilfærslu að ræða, sem nema mun þúsundum millj. kr. Að gera slíka ráðstöfun án þess að gera nokkra hliðarráðstöfun, svo sem að undanþiggja nauðsynjavöru söluskatti eða beita tryggingakerfi í auknum mæli í þágu þeirra efnaminni og barnmörgu fjölskyldnanna, er furðulegt. Þeir Alþfl.menn ættu að lesa sínar eigin ræður og fyrri forystumanna sinna um afstöðu til söluskatts sem tekjustofns frá 1950. Það gerði þeim ekkert til, þótt þeir vissu, hvernig Alþfl.-menn hugsuðu og töluðu þá, enda þótt ljóst sé, að þeir meta ráðherrastóla sína meira en afkomu láglaunafólks í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Þessu þinghaldi er senn að ljúka. Ýmislegt verður eftirminnilegt frá því fleira en það, sem ég hef upp talið, og það, að ríkisstj. felldi sitt eigið frv. Það, sem mér finnst einna athyglisverðast, er, hvað stjórnarstefnan virðir lítið félagsleg störf og félagslega samstöðu. Á þeirri lífsskoðun hennar er byggð aðförin að lífeyrissjóðunum. Hún metur ekki og virðir ekki, virðist ekki skilja þau félagslegu störf, sem þar eru að baki. Hún virðir ekki félagslegan rétt þeirra til að stjórna þessum fjármunum sínum. Sama skoðun liggur til grundvallar, er hún leggur niður byggingarfélög verkamanna með löggjafaratriði, sem auk þess orkar mjög tvímælis, þó að ekki sé meira sagt, og leggur verulega skatta á íbúa í hinum einstöku byggðarlögum og getur alveg útilokað hina fámennari og fátækari staði að njóta þeirra kjara, er lög um verkamannabústaði veita. Því hafa þeir gleymt, sem þóttust muna, að höfuðtilgangur með lögum um verkamannabústaði var að styðja þá, er minnst höfðu efnin. Ég nefni félagsheimilalöggjöfina. Ungmenna- og æskulýðsfélög hafa unnið og vinna enn þá ómetanlegt starf til menningar- og félagslegs þroska út um allt land, með byggingu og starfrækslu félagsheimila, með leikstarfsemi og með íþróttastarfsemi. Þessu fólki er ekki sýnd sú sjálfsagða kurteisi, að sýna því frv. til breytinga á lögum um félagsheimilasjóð, hvað þá að nokkur væri þar til kvaddur til ráða. Þó getur það ráðið um framtíð félagslegrar starfsemi þessara samtaka. Í því frv. er einnig réttur hinna, er minna mega sín, vanvirtur. Slík beiting valds, slík lítilsvirðing á samtökum fólksins, slík trú á rétt hins sterka, er ekki sú forysta, sem íslenzka þjóðin þráir eða þarfnast. Slík forysta býður ofbeldinu heim.

Íslenzka þjóðin þarf að breyta um stjórnarstefnu. Hún þarf samstöðu um stefnu, sem byggir og verndar félagslega samstöðu fólksins. Það munu framsóknarmenn gera. — Góða nótt.