18.03.1970
Sameinað þing: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

Framkvæmd vegáætlunar 1969

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í vegalögum er svo fyrir mælt að leggja skuli fyrir Alþ., svo fljótt sem auðið er eftir að það kemur saman, skýrslu um framkvæmdir líðandi árs. Þessu ákvæði í lögunum þarf að breyta. Það liggur í augum uppi, að ekki er mögulegt að gera fulla grein fyrir framkvæmdum ársins fyrr en það er liðið og helzt ekki fyrr en nokkru eftir áramót. Þess vegna er skýrsla um framkvæmdir fyrir árið 1969 til umr. eftir að langt er liðið á þingið.

Framkvæmdir í vegagerð á s. l. ári fóru fram eftir vegáætlun og má segja, að áætluninni hafi verið haldið í öllum atriðum, og mun hv. þm. vera kunnugt um það.

Samkv. vegáætlun var gert ráð fyrir, að tekjur vegasjóðs gætu orðið á árinu 514.1 millj. kr., en rauntekjur urðu ekki nema 494.6 millj. kr. Halli á vegáætlun vegna minnkandi tekna varð 19.5 millj. kr. Tekjur af gúmgjaldi voru 9.7 millj. kr. lægri en áætlað hafði verið. Þungaskattur var 3.1 millj. kr. undir áætlun og tekjur af benzíngjaldi gáfu 6.7 millj. kr. minna en reiknað hafði verið með. Ástæður fyrir þessu geta verið margvíslegar, benzínnotkun hefur eðlilega verið minni á s. l. sumri en venjulega, vegna þess hvernig tíðarfarið var, og fólk ferðaðist minna af þeim ástæðum. Gúmslit hefur einnig orðið minna af þessum sömu ástæðum, og einnig eru ástæðurnar þær, að verð á gúmi og benzíni hækkaði og innflutningur bifreiða dróst mjög saman, eins og alltaf á sér stað á fyrstu mánuðum eftir miklar verðhækkanir. Ástæða er til, að nú sé komið á eðlilegt jafnvægi í þessum málum. Eftir að leyfisgjöld af bifreiðum hafa verið felld niður, mun innflutningur bifreiða aukast á ný.

Eins og fyrr var greint var halli á vegáætlun vegna minni benzínsölu, minni þungaskatts og lægra gúmgjalds en reiknað hafði verið með 19.5 millj. kr. Auk þess var unnið að viðgerðum á vegum vegna flóða og vetrarviðhaldi umfram það, sem áætlað var, fyrir 8 millj. kr. Og er því raunverulegur halli vegasjóðs á árinu 27.5 millj. kr. Viðhaldskostnaður þjóðvega er alltaf mjög mikill og fer alltaf eftir tíðarfari, hvort sú upphæð, sem áætluð er á þann lið, nægir. Á s. l. ári voru áætlaðar 175 millj. kr. til viðhalds þjóðvega. Af þessari upphæð var áætlað, að 25.5 millj. kr. færu til vetrarviðhalds, þar af 16.9 millj. kr. á tímabilinu janúar til júní, en 8.6 millj. kr. á tímabilinu okt. til des. Kostnaður við vetrarviðhaldið reyndist vera 28 millj. kr. Tjón af völdum náttúruhamfara verður flest ár. Í lok febr. og í marz urðu mikil flóð víðs vegar á landinu, en þó sérstaklega á Suður- og Vesturlandi. Kostnaður við viðgerðir á skemmdum af völdum þessara flóða var 5.2 millj. kr. Einnig þurfti að styrkja varnargarða á Mýrdalssandi og í Mýrdal vegna vatnavaxta s. l. sumar. Kostnaður við það var 0.9 millj. kr. Beint tjón af völdum flóða á árinu var samtals 6.1 millj. kr.

Viðhald á vegum yfir sumarmánuðina var ofaníburður, mölun og hökkun efnis, viðhald brúa, rykbinding vega og heflun. Áætlaður kostnaður við það var 129.2 millj. kr. Var reynt að láta sem minnst af viðhaldsfénu fara í gagnslausar aðgerðir snemma vors. Nýttist fjárveitingin því að þessu sinni betur en fyrr. Eins og flestir munu hafa veitt athygli voru vegirnir óvenjulega góðir s. l. sumar, þrátt fyrir miklar rigningar víða um landið. Til viðhalds á hraðbrautum var varið um 4 millj. kr.

Unnið er að aukinni hagræðingu í vegaviðhaldi. Í maí 1969 voru verkstjórar hjá Vegagerðinni kvaddir til tveggja daga fundar. Aðalefni fundarins var hagræðing í viðhaldi malarvega og möguleikar á betri nýtingu viðhaldsfjárins. Verkfræðingur frá Vegagerðinni hefur ferðast um Noreg og Svíþjóð og kynnt sér viðhald malarvega í þessum löndum.

Unnið var að vegmerkingu á árinu. Lokið er merkingu á akfærum hraðbrautum og 94% af þjóðbrautum hefur verið merkt, en aðeins 41 % af landsbrautum hefur verið merkt. Vinna ber að því að ljúka við vegmerkingar svo fljótt sem auðið er.

Eins og vegáætlunin heimilar, hefur rn. aflað fastra lána til nokkurra þeirra vega, sem tilgreindir eru í III. kafla vegáætlunar 1969. Til einstakra vegaflokka nema þessi lán eftirtöldum upphæðum: Til hraðbrauta 32.4 millj. kr., til þjóðbrauta 21.9 millj. kr. og til landsbrauta 9.8 millj. kr. Af þessum lánum eru 32.4 millj. samkv. framkvæmdaáætlun ríkisstj., en 31.7 millj. kr. samkv. Vestfjarðaáætlun. Um skiptingu þessara lána vísast til grg. um framkvæmdir á einstökum vegum. Þar sem grg. sú liggur fyrir prentuð á borðum hv. þm., þykir ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir skiptingu lánanna. Föst lán vegasjóðs í árslok 1969 voru 577.3 millj. kr. Vegasjóður greiðir aðeins 6.8 millj. kr. af kostnaði við þessi lán. Fjárveiting úr ríkissjóði árið 1970 er 52.5 millj. kr. og áætlað veggjald af Reykjanesbraut 15 millj. kr.

Á árinu var fylgt þeirri reglu, sem gilt hefur undanfarið ár, að samþykkja aðeins bráðabirgðalán til þeirra vegaframkvæmda, sem fjárveitingu hafa í vegáætlun næstu ár. Þannig voru tekin lán til þjóðbrauta, landsbrauta og sýsluvega með sama hætti og áður, en einnig voru tekin lán til hraðbrauta á árinu að upphæð 19.7 millj. kr.

Sjá má á þeirri skýrslu, sem lögð hefur verið fram, hvernig unnið var við einstaka vegi. Er því ekki ástæða til að rekja það nánar. Við lestur skýrslunnar kemur í ljós, að unnið hefur verið að framkvæmdum fyrir þær upphæðir, sem vegáætlun er byggð á, þótt áætlun hafi ekki staðizt fjárhagslega, eins og áður var getið. Verður því að útvega það fjármagn, sem vantar samkv. vegáætlun.

Auk vega og brúa hefur verið unnið að uppgræðslu og girðingum, eftir því sem ástæður voru til. Hefur uppgræðsla Vegagerðarinnar meðfram vegum borið mjög góðan árangur.

Til rannsókna á Skeiðarársandi voru veittar 3.5 millj. kr. Hluti af þessari upphæð fór til þess að greiða áfallinn kostnað frá árinu 1968, að öðru leyti fór fjárveitingin til ýmiss konar rannsókna og framkvæmda á s. l. ári. Skeiðarársvæðið hefur verið mælt með tilliti til kortagerðar eftir loftmyndum. Kortrannsóknir hafa verið gerðar og varnargarðar verið byggðir í tilraunaskyni. Vatnamælingar voru gerðar s. l. sumar í sambandi við jökulhlaupið í Grænalóni. Á þessu ári er einnig fjárveiting til áframhaldandi rannsókna á þessu svæði. Verður unnið að því að fá úr því skorið, með hvaða hætti heppilegast verður að koma öruggum samgöngum á yfir Skeiðará.

Talsvert hefur verið gert að því að bæta ýmsa fjallvegi landsins.

Heildartekjur sýsluvega 1969 námu 25 millj. og 740 þús. kr. Er gert ráð fyrir, að tekjur sýsluvegasjóða hækki nokkuð og verði á árinu 1972, þegar núgildandi vegáætlun lýkur, 27 millj. 264 þús. kr. Nokkur breyting var gerð á sýsluvegum með breyt. á vegal. árið 1969. Hefur flestum að athuguðu máli fundizt þær breyt. eðlilegar.

Til vega í kaupstöðum og kauptúnum var varið samkv. vegáætlun 51 millj. 301 þús. kr. Íbúatala í kaupstöðum og kauptúnum var á árinu 168 þús. 971. Þéttbýlisfénu er skipt samkv. 32. og 34. gr. vegalaga, eins og fram kemur í skýrslu þeirri, sem fyrir liggur. Segja má, að það fjármagn, sem kaupstaðir og kauptún fá greitt úr vegasjóði samkv. vegal., hafi gerbreytt ástandi gatna víðast hvar á landinu.

Til véla- og áhaldakaupa var varið, samkv. því sem er á vegáætlun, 14 millj. kr. Eftirfarandi vélar voru keyptar: Tveir stórir vegheflar með útbúnaði til snjóruðnings, einn snjóblásari, ein mælingabifreið, ýmsar minni vélar og tæki, svo sem véldælur, lofthitarar, snjótennur, festivagn o. s. frv. Auðvitað þyrfti það fé, sem varið er til vélakaupa, að vera talsvert meira en hér er um að ræða, því að það skiptir miklu máli að hafa góðar vélar og hafa ekki allt of slitnar vélar. Það verður til þess, að vegaviðhaldið bæði að vetri og sumri getur orðið ódýrara. Til byggingar áhaldahúss á Akureyri var varið talsverðri upphæð. Þótti nauðsynlegt að hefja þá byggingu. Það er aðeins fyrri áfangi, sem steyptur var upp, og er síðar ætlað að bæta við það hús.

Til tilrauna í vegagerð var varið 3.1 millj. kr. Nauðsynlegt þykir að verja talsverðu fé í þessu skyni, og hafa tilraunir, sem gerðar hafa verið, borið góðan árangur og leitt til þess, að menn vita betur nú, hvernig að ýmsum framkvæmdum ber að standa.

Í sept. s. l. ákvað ríkisstj. að hraða lagningu hraðbrauta, þ. e. auka framkvæmdir við Vesturlandsveg og Suðurlandsveg. Stefnt er að því að ljúka vegagerð upp í Kollafjörð og austur að Selfossi á árinu 1972, eins og ætlað er í vegáætlun, með því að nota þær lánsheimildir, sem þar eru fyrir. Er óvíst, að það þurfi að nota allar heimildirnar, þó að þessum verkum verði lokið á áætlunartímabilinu. Sótt hefur verið um lán í Alþjóðabankanum í þessu skyni og er talið líklegt, að það fáist.

1. júlí n. k. er gert ráð fyrir að setja gjaldmæla í dísilbifreiðar, sem eru 5 tonn eða stærri. Talið er nauðsynlegt að koma þessu á hér. Reynslan hefur sýnt það í Noregi, að það hefur gefizt vel. Benzíngjaldið er lagt á í því skyni, að menn borgi til veganna eftir því, hvað þeir aka mikið, en með því að leggja sama þungaskatt á jafnþungar bifreiðar kemur þetta mjög ójafnt niður. Sumar bifreiðar jafnþungar aka ekki nema 10–15 þús. km á ári, en aðrar 50–60 þús. eða jafnvel meira. Með því að setja gjaldmæla í bifreiðarnar kemur það réttláta út, að þeir, sem nota vegina mest, borga mest til veganna. Norðmenn hafa fram að þessu verið þeir einu, sem hafa tekið upp þetta kerfi, en nú eru Svíar að undirbúa það hjá sér og gera þeir ráð fyrir, að það taki ekki gildi fyrr en 1974. Það var einhvern tíma sagt, að það væri skrýtið, hvað Vegagerðin og rn. væru lengi að útbúa þetta hér og koma þessu í framkvæmd, því að það eru a. m. k. tvö ár síðan farið var að tala um að setja gjaldmæla í bifreiðar. En ef Svíar ætla sér 4–5 ár til undirbúnings þessu, þá er ekki mikið þó að Íslendingar hafi ætlað sér a. m. k. tvö ár.

Það er rétt að taka saman hér til glöggvunar það, sem reyndar stendur í skýrslunni, hvað unnið hefur verið við einstaka vegi, og svo einnig, hvað margar brýr hafa verið gerðar á árinu.

Fullnaðarfrágangur og undirbygging hraðbrauta á árinu var á 10.7 km löngum vegi. Lagning malarslitlags var 7 km, lagning varanlegs slitlags annars var 1.6 km, brýr 10 m og lengri 54 m, tvær brýr. Á þjóðbrautum voru undirbyggðir vegir 44.6 km, lagt slitlag 47.2 km, brýr 10 m og lengri fjórar, 120 m, smábrýr þrjár, 16 m. Á landsbrautum voru undirbyggðir vegir 36 km, lagt slitlag 36.5 km, brýr 10 m og lengri tvær, 32 m, smábrýr sex, 35 m. Á sýsluvegum, brýr 10 m og lengri, þrjár, 33 m, smábrýr sjö, 39 m. En yfirlit um vegaframkvæmdir á sýsluvegum liggur ekki enn fyrir hjá Vegagerðinni. Fjallvegir: Það var ein brú lengri en 10 m, 21 m.

Þá hefur oft, þegar skýrsla um vegaframkvæmdir hefur verið til umr. hér á hv. Alþ., verið um það spurt, hvað mikið fé hafi farið í snjómokstur og viðhald í einstökum tilfellum. Ég hef ekki enn fengið í hendur sundurliðaða skýrslu um árið 1969, en ég er hér með árið 1968 og það var ekki gerð grein fyrir því hér, þegar vegaskýrsla var til umr. fyrir árið 1968, og þykir mér því rétt að lesa það upp hér.

Reykjaneskjördæmi: Vetrarviðhald 2 millj. 45 þús. kr., almennt viðhald 11 millj. 720 þús. kr., vegheflun 5 millj. 68 þús. kr., viðhald brúa 360 þús. kr., rykbinding 1 millj. 774 þús. kr., vatnaskaðar 1 millj. 264 þús. kr. Samtals 22 millj. 231 þús. kr. Vegalengd í km 410.

Vesturlandskjördæmi: Vetrarviðhald 4 millj. 410 þús. kr., almennt viðhald 13 millj. 34 þús. kr., vegheflun 5 millj. 298 þús. kr., viðhald brúa 1 millj. 680 þús. kr., mölun efnis 4 millj. 576 þús. kr., rykbinding 367 þús. kr., vatnaskaðar 2 millj. 511 þús. kr. Viðhald samtals 31 millj. 877 þús. kr. Vegalengd vega 1450 km.

Vestfjarðakjördæmi: Vetrarviðhald 7 millj. 402 þús. kr., almennt viðhald 9 millj. 567 þús. kr., vegheflun 1 millj. 939 þús. kr., viðhald brúa 645 þús., rykbinding 31 þús., vatnaskaðar 185 þús. Samtals 19 millj. 769 þús. Vegalengd vega 1300 km.

Norðurlandskjördæmi vestra: Vetrarviðhald 3 millj. 222 þús., almennt viðhald 9 millj. 354 þús., vegheflun 2 millj. 162 þús., viðhald brúa 1 millj. 277 þús., rykbinding 35 þús., vatnaskaðar 566 þús. Samtals 16 millj. 616 þús. Vegalengd er 1210 km.

Norðurland eystra: Vetrarviðhald 6 millj. 62 þús., almennt viðhald 8 millj. 868 þús., vegheflun 2 millj. 513 þús., viðhald brúa 359 þús., mölun efnis 3 millj. 343 þús., rykbinding 261 þús., vatnaskaðar 362 þús. Samtals 21 millj. 533 þús. Vegalengd 1280 km.

Austurlandskjördæmi: Vetrarviðhald 7 millj. 215 þús., almennt viðhald 10 millj. 456 þús., vegheflun 2 millj. 566 þús., viðhald brúa 1 millj. og 50 þús., mölun efnis 450 þús., rykbinding 2 þús., vatnaskaðar 6 millj. og 30 þús. Samtals 28 millj. 209 þús. Vegir 1630 km.

Suðurlandskjördæmi: Vetrarviðhald 1 millj. 562 þús., almennt viðhald 13 millj. 391 þús., vegheflun 5 millj. 734 þús., viðhald brúa 935 þús., mölun efnis 8 millj. 414 þús., rykbinding 266 þús., vatnaskaðar 3 millj. og 418 þús. Samtals 33 millj. 719 þús. Vegalengd 1560 km.

Ég tel rétt að lesa þetta upp, því að það hefur oft verið um þetta spurt og í þessu felst nokkur fróðleikur, hvernig þessu viðhaldsfé er skipt, sem hlýtur að vera áraskipti að, eftir því hvernig tíðarfarið er víðs vegar um landið, sem er oftast allbreytilegt.

Þá er það greiðsluhallinn, sem áður var um getið, 27.5 millj. kr., sem Vegagerðin hefur nú ýtt á undan sér, eytt meiru á árinu heldur en tekjurnar raunverulega leyfðu til þess að halda vegáætluninni. En það er vitanlega ljóst, að þess fjár verður að afla. Þessa skuld verður að greiða. Það er ekki vitað, hvernig árið 1970 kemur út, en við gerum okkur vonir um, að það verði a. m. k. minni halli á því ári, að tekjur vegasjóðs standist betur, m. a. vegna þess að lengra er nú um liðið frá verðhækkunum á gúmmíi og benzíni og enginn vafi er á því að meiri innflutningur á bifreiðum verður á þessu ári heldur en því síðasta. En jafnvel þó að vegáætlunin stæðist árið 1970, þá er hér 27.5 millj. kr. baggi, sem verður að greiða. Nú er heimild til að endurskoða vegáætlunina í haust, og ég geri ráð fyrir, að flestir þm. óski eftir því, að sú endurskoðun fari fram, og þá er vitanlega mjög æskilegt, að möguleikar væru á því að afla vegasjóði aukinna tekna, ekki aðeins til þess að greiða þessa skuld, heldur talsvert meira til þess að endurskoða framkvæmdaáætlunina víðs vegar um landið. Það er mál, sem ekki verður rætt að þessu sinni. Það er eðlilegt, að það bíði til haustsins. En ég þykist vita, að þess verði óskað að nota þá heimild, sem fyrir hendi er til endurskoðunar á vegáætlunum.

Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara fleiri orðum að svo stöddu um vegáætlunina. Eins og ég sagði áðan, þá liggur skýrslan fyrir prentuð á borðum hv. þm. og þeir munu hafa kynnt sér hana, og það er ekki ástæða til þess að vera að lesa mikið upp úr henni. En þær skýringar, sem ég hef hér gefið í stuttu máli, vona ég að verði að nokkru leyti til leiðbeiningar, og að sjálfsögðu er ég tilbúinn til þess að svara þeim spurningum, sem fram kynnu að koma.