18.03.1970
Sameinað þing: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

Framkvæmd vegáætlunar 1969

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með öðrum þm. og þakka hæstv. ráðh. fyrir skýrslu þá, sem hann hefur flutt hér um vegamálin, og mig langar til að minnast á nokkur atriði í sambandi við hana og þær umr., sem hér hafa farið fram.

Ég vil þá fyrst segja það í sambandi við merkingar á blindhæðum, að þeim hefur farið fjölgandi og eru til mikilla bóta, en þó varð ég var við það s. l. sumar, að það er enn þörf frekari merkinga á mörgum stöðum, og á ég þá við leiðina frá Reykjavík og norður í land. Ég veit, að hv. ráðh. hefur þetta í huga.

Þá er það annað, sem ég hef orðið var við. Þeir, sem ferðast um landið, kvarta mikið yfir því, að á of mörgum stöðum eru smábrýr mjórri en vegurinn. Og þó að ég hafi ekki hjá mér neina skýrslu um slys, sem hafa orðið í sambandi við þessar brýr, þá býður það hættunni heim, að brýr séu mjórri en sjálfur þjóðvegurinn, og skapast þá örlítið bil sitt hvorum megin við brúarendana.

Þá leyfi ég mér hér með að minna á, að í kjördæmi, sem ég er þm. fyrir, Norðurl. v., er okkar ágæti Langidalur í A.-Húnavatnssýslu allt of oft illfær yfirferðar, því veldur fyrst og fremst lega vegarins, og er því fyllsta þörf að hraða gerð nýrrar brautar í þeim ágæta dal. Þá vil ég aðeins í sambandi við vetrarviðhaldið og snjómoksturinn minna hæstv. ráðh. á það, að það góða fólk, sem byggir Siglufjörð, er óánægt með það, að Siglufjarðarvegur skuli aðeins vera mokaður einu sinni í viku, og mér skilst, að það sé „prinsip“, sem ekki megi frá víkja. En t. d. Akureyrarleið er mokuð tvisvar í viku. Akureyri er þéttbýliskjarni og má rökstyðja, að það sé eðlilegt, að mokað sé oftar til Akureyrar, og það er ekki ætlan mín að fara að draga úr því. Ekki er Akureyringum og Eyfirðingum það of gott. En ég minni á það, að á þennan stað eru þó flugferðir tvisvar á dag, en engar til Siglufjarðar. Og ég vildi nú beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh., að hann hlutist til um, að framvegis verði Siglufjarðarvegur mokaður tvisvar í viku, svo að það dýra mannvirki sem Strákagöng eru nýtist betur en nú er. Orðlengi ég þetta því ekki frekar.