12.12.1969
Efri deild: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur gert hér að umræðuefni störf í þn. og lagði bókstaflega á það mikla áherzlu, að ég léti til mín heyra um álit mitt á störfum þn. Ég vil aðeins taka það fram, að ég hef ekki kvartað við formenn þn. um störfin og á meðan verður að ætla, að ég sé ekki mikið órólegur. Ég hef á þeim árum, sem ég hef gegnt ráðherrastarfi, ekki þurft að kvarta yfir því, að n. hafi ekki afgr. þau mál, sem ég hef lagt áherzlu á. (Gripið fram í.) Hins vegar leyni ég því ekki, ef ég má ljúka setningu minni, að ég hefði kosið, að þau mál, sem vísað hefur verið hér til hv. sjútvn., hefðu hlotið skjótari afgreiðslu en raun ber vitni um. Form. n. hefur gert grein fyrir því, hverjar ástæður eru fyrir því, að n. hefur ekki komið saman og tekið þá sök á sig. (Gripið fram í.) Má ég ljúka máli mínu fyrir hv. þm.? Ég óska eftir því að fá að ljúka setningunum, áður en gripið er fram í fyrir mér.

Önnur atriði í ræðu hv. þm. eru mjög athyglisverð. Hann bauð, — ég vona að ég leggi ekki öfugt út af orðum hans, — hann sem formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins bauð samstarf um þingstörfin. Þetta er yfirlýsing, sem er mjög mikilvæg og mér finnst, að ætti að athuga vel og láta á það reyna, hver vilji er að baki þessum orðum.

Það þyrfti að skipta forsetum milli stjórnar og stjórnarandstöðu, sagði hv. þm. Ég er búinn að sitja hér á þingi síðan 1953 og hef setið hér í stjórnarandstöðu líka. Ég vissi ekki til, að flokkur þessa hv. þm., sem sat fyrri hl. þingtíma míns í ríkisstjórn, byði nokkurn tíma stjórnarandstöðu þessi skipti. En ég fagna því, að þarna virðast vera komin ný sjónarmið, sem ég, eins og ég áðan sagði, tel þess virði, að sé látið að vinna og skoða til hlítar. En þá verða menn að hafa þá sömu skoðun, hvort sem þeir eru í stjórnarliði eða stjórnarandstöðu, en ekki bara þegar þeir sjálfir sitja í stjórnarandstöðunni.

Það þarf almennt, sagði hv. þm., að taka upp ný vinnubrögð í samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég undirstrika það, sem ég er reyndar búinn að segja hér áður, að ég tel það vera þess virði að láta reyna á það, þegar formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins gefur slíka yfirlýsingu, hvað bak við þessi orð býr. Er þetta bara almenn óánægja yfir því að koma ekki málum sínum fram eða er þetta raunhæfur vilji og er þessi vilji víðar í stjórnarandstöðunni heldur en hjá flokki hv. þm.?

Að öðru leyti tel ég ekki, herra forseti, að ég þurfi að taka þátt í þessum umr., og hefði reyndar ekki gert, nema af því að þm. beindi sérstaklega til mín þeirri spurningu, sem ég tel mig hafa svarað. En ég ítreka það, að ég tel það þess virði, að á það sé látið reyna, hvort hér er um að ræða almennan áróður, sem við erum nú vanari, eða raunverulegan vilja til nánara og bætts samstarfs.