20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

Aðgerðir námsmanna í sendiráði Íslands í Stokkhólmi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. er ekki staddur á Alþ. í dag, en ég hygg mig muna það rétt, að hann hafi áður andmælt þeirri frásögn hv. þm., sem hann hefur viðhaft áður hér á hinu háa Alþ., að hann sem forsrh. hafi farið fram á það við sænsk stjórnvöld, að þau styrktu íslenzka námsmenn. Það, sem hér mun vera um að ræða og hv. þm. fer ekki rétt með, er það, að á þingi Norðurlandaráðs mun hafa borið á góma í umræðum, — ég veit ekki, hvort um það var nokkurn tíma flutt formleg till., — hvort það væri hugsanlegt, að íslenzkir námsmenn og þá væntanlega námsmenn annarra Norðurlanda, utan Svíþjóðar, sem stunduðu nám í Svíþjóð, gætu notið aðildar að sænska námslána- og námsstyrkjakerfinu. En Svíar búa við einna fullkomnast námslánakerfi fyrir stúdenta í víðri veröld. Þetta mál mun eitthvað hafa verið rætt í umr. á þingi Norðurlandaráðs og eitthvað verið rætt milli þingfulltrúa á því þingi. En niðurstaðan, eins og við var að búast og algerlega eðlilegt var, hefur orðið sú, að sænsk yfirvöld hafa sagt, að þau gætu ekki veitt erlendum stúdentum aðgang að námslánakerfi sínu. Ég held, að sú niðurstaða hafi engum þurft að koma á óvart og í raun og veru engum komið á óvart, þannig að þetta mál hefur mér vitanlega ekki verið á dagskrá síðan þetta umrædda Norðurlandaráðsþing var haldið í Stokkhólmi fyrir nokkrum árum. Þetta hygg ég vera sannleikann í málinu og að forsrh. hafi þegar, a. m. k. einu sinni áður, tekið fram þessar staðreyndir sem hinar réttu í málinu.

Að því er það snertir, sem hv. þm. sagði, að þeirri meginreglu hafi verið fylgt að auka lán og styrki til íslenzkra námsmanna erlendis sem svarar gengisbreytingunum tveimur, sem átt hafa sér stað á undanförnum árum, þá er það rétt, að það hefur verið gert. Gengislækkanirnar báðar voru að fullu bættar íslenzkum námsmönnum erlendis, bæði að því er snertir lánveitingar til þeirra og styrki. En það var gert meira. Fjárveitingarnar voru auknar meira en þessu nam. Ég vil ekki halda því fram, að þær hafi verið auknar svo mikið, að kaupmáttur heildarteknanna hafi getað haldizt óbreyttur, enda varla við því að búast, þar sem Íslendingar sjálfir hér heima fyrir urðu að sætta sig við milli 15 og 20% kjararýrnun vegna áfallanna á árunum 1967–1968. Það gefur auga leið, að 15–20% kjararýrnun allra Íslendinga heima fyrir, sem kom í kjölfar um það bil 50% minnkunar útflutningstekna, hlaut einnig að einhverju leyti að bitna á þeim Íslendingum, sem nám stunda erlendis, og kannske eitthvað meira á þeim vegna þess, að framfærslueyrir þeirra er allur í erlendum gjaldeyri. En ég legg á það áherzlu, að Alþ. og ríkisstj. hafa gert sér far um að draga sem mest úr því, að þessi áföll skyllu óeðlilega þungt á íslenzkum námsmönnum erlendis. Hinar stórauknu fjárveitingar undanfarinna ára bera vitni um góðan vilja Alþ. og stjórnarvalda til þess að gera íslenzkum námsmönnum erlendis þessi áföll sem bærilegust. Og ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég vona það og treysti því, að áframhald verði á þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið um það að auka fáa, ef nokkurn útgjaldalið íslenzkra fjárl. örar en einmitt þann, sem gengur til þess að styrkja íslenzka námsmenn heima og erlendis.

Að síðustu vil ég ljúka orðum mínum með því að harma það, að hv. þm. skuli ekki hafa borið gæfu til þess að taka eindregna afstöðu gegn þeim leiðinlegu tíðindum, sem gerðust í Stokkhólmi í morgun. Ég er sannfærður um það, að íslenzkir stúdentar erlendis almennt fordæma þessar aðgerðir. Gleggsta vísbendingin um það er sú, að aðeins um 15 skuli hafa tekið þátt í þeim af mörgum tugum, ef ekki á annað hundrað íslenzkra námsmanna í Svíþjóð. Fregnirnar báru auk þess greinilegan vott þess, að tilætlunin var, að sams konar aðgerðir ættu sér stað í Osló og Kaupmannahöfn. Fyrst ég hef engar fregnir um þær fengið frá utanrrh. til þessarar stundar, þá vona ég, að til þeirra aðgerða hafi ekki komið. Þær voru fyrirhugaðar, þær voru skipulagðar, fyrir því hef ég orð forustumanna stúdentanna í Stokkhólmi sjálfra. En hafi ekki orðið af þeim, sem ég vona, þá bendir það ótvírætt til þess, að íslenzkir stúdentar í Kaupmannahöfn og Osló eru ekki hrifnir af slíkum vinnubrögðum, og því fagna ég sannarlega.