26.01.1970
Neðri deild: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

123. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls gat ég þess, að ég hefði til athugunar að flytja hér brtt. við frv., sem miðaði að því, að reyna að tryggja það, að sú tollalækkun, sem gerð verður með þessu frv., nái því að koma fram í verðlaginu. Nú hef ég leyft mér að flytja hér till. um þetta efni, sem er skrifleg brtt. og óska ég eftir því, að hæstv. forseti leiti afbrigða um þá till., sem á hér að koma undir atkv., en till. er svo hljóðandi:

„Aftan við frv. bætist svo hljóðandi: Ákvæði til bráðabirgða:

Verðlag á öllum þeim vörum, sem tollur er lækkaður á samkv. lögum þessum, skal háð ákvörðun verðlagsnefndar samkv. l. nr. 54. 1960, um verðlagsmál og skal það vera meginstefna nefndarinnar að sjá um, að tollalækkun, sem gerð er með lögum þessum, komi fram í lækkandi útsöluverði.“

Ég tel, að þegar gert er ráð fyrir því að lækka tolla sem nemur í kringum 500 millj. kr., miðað við áætlaðan innflutning til landsins á heilu ári, – og þessi tollalækkun nær til ærið margra vörutegunda, – þá sé alveg nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að sjá um að þessi tollalækkun komi þeim raunverulega til góða, sem í veðri hefur verið látið vaka a.m.k., að ættu að njóta þessarar tollalækkunar. En á því leikur auðvitað enginn vafi, að það er talsvert mikil hætta á því, að ýmsir viðskiptaaðilar og milliliðir kunni að reyna að ná til sín þessari tollalækkun og gera sinn hag þeim mun betri. Það má að vísu segja, að þetta atriði hefði fremur átt heima í löggjöf, sem fjallaði beinlínis um verðlagsmál, en ég tel, að þetta atriði sé svo nátengt þeirri tollalækkun, sem hér er um að ræða, að það sé eðlilegast að setja þetta ákvæði inn sem bráðabirgðaákvæði í tollskrána, inn í þá tollskrá, sem nú verður samþ. og gerir ráð fyrir þessari tollalækkun, sem hér er um að ræða.

Sem sagt, till. mín miðar aðeins að því, að skipa svo fyrir, að verðlag á öllum varningi, sem nú kemur til með að njóta tollalækkunar, skuli ákveðið af verðlagsnefnd þeirri, sem starfar samkv. lögum og skal það brýnt fyrir n., að hún skuli hafa það sem meginstefnu sína, að sjá um það, að þessi tollalækkun komi fram í útsöluverði. Um þetta fjallar mín till. og vænti ég, að hæstv. forseti leiti eftir afbrigðum um hana, svo að hún geti komið hér til atkvgr.