04.12.1969
Efri deild: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

Fréttir í hljóðvarpi og sjónvarpi

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum var skýrt frá því, að sjónvarpið íslenzka hefði náð nýjum áfanga að því er varðar útbreiðslu, þegar teknar voru í notkun allmargar endurvarpsstöðvar á Norður- og Austurlandi. Sjónvarpið nær nú til allra landshluta. Það er orðið gildur þáttur í íslenzku þjóðlífi. Það er orðið staðreynd, sem reikna verður með í æ ríkara mæli. Um þetta áhrifamikla tæki, stjórn þess og starfshætti mætti vissulega margt segja og það væri ekki nema eðlilegt, að Alþ. léti sig þau mál nokkru skipta og ræddi þau rækilega. Til þess er ekki vettvangur hér utan dagskrár, en að gefnu sérstöku tilefni vil ég leyfa mér að vekja á því athygli, að af einhverjum ástæðum, óútskýrðum að því er ég held, virðist liggja við því algert bann hjá þessari stofnun að geta um útkomu nýrra bóka. Þetta á við um allar bækur, jafnt íslenzkra höfunda sem annarra. Þessi afstaða ráðamanna sjónvarpsins hefur ekki aðeins vakið furðu hjá íslenzkum rithöfundum og þeim mönnum, sem fást við bókaútgáfu. Ég held, að fjöldi almennra sjónvarpsáhorfenda spyrji einnig, hver ástæða geti legið til þess, að svo gildur þáttur íslenzkrar menningar sem ritun og útgáfa bóka óneitanlega er hefur verið settur, að því er virðist, í algert fréttabann hjá sjónvarpinu. Í gær barst mér bréf um þetta mál frá stjórn Rithöfundasambandsins, og ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa aðalefni þessa bréfs, þar sem það gerir ljósa grein fyrir gangi þessa máls, sem ég vek hér athygli á. Í bréfinu segir:

„Eins og þér er kunnugt, hefur fréttastofa sjónvarpsins frá fyrstu tíð til þessa dags haft þann hátt á að skýra ekki frá útgáfu íslenzkra bóka. Þó að íslenzka þjóðin hafi jafnan látið sig bækur miklu varða og áþreifanlega sýnt, að bókmenntir eru henni hugleiknar og hjartfólgnar, lætur fréttastofa sjónvarpsins sem nýjar bækur sæti engum tíðindum eða þjóðinni komi þær ekki við. Engin skýring er gefin á þessu háttalagi. Stjórn Rithöfundasambandsins samþykkti á fundi sínum 17. nóv. 1968 svo hljóðandi ályktun í þessu máli:

„Stjórn Rithöfundasambands Íslands leyfir sér að átelja það, að fréttastofa sjónvarpsins virðist með öllu ganga fram hjá tíðindum af útgáfu bóka eftir íslenzka höfunda. Stjórnin skorar á ráðamenn sjónvarpsins að breyta þessari afstöðu sinni.“

Ályktun þessari var komið á framfæri við útvarpsstjóra, einnig blöð og fréttastofnanir. Í samningaviðræðum við Ríkisútvarpið fyrr á árinu var þráfaldlega yfir þessu kvartað. Á fundi, sem stjórn Rithöfundasambandsins átti með útvarpsráði 1. okt. s. l., var málinu enn hreyft og fastlega mælzt til, að bót yrði á ráðin. Allt hefur þetta komið fyrir ekki. Enn lætur fréttastofa sjónvarpsins sem bókaútgáfa sé ekki til á Íslandi eða ekki umtalsverð. Mun þó torvelt að benda á annað, sem meiri svip setur á þjóðlífið þessar vikurnar eða meira umtal veki manna á meðal en nýju bækurnar, sem nú eru að koma út. Hér er því um að ræða ámælisverða vanrækslu í fréttaflutningi.

Stjórn Rithöfundasambandsins leyfir sér nú að fara þess á leit við þig sem alþm. og fyrrv. formann sambandsins, að þú hreyfir þessu máli utan dagskrár á Alþ. til þess að kanna, hvort upplýsast megi, hverju framkoma fréttastofunnar sætir og hvort menntmrh. og alþm. telji hana geta upp á sitt eindæmi lýst einn meginþátt íslenzkrar menningar í fréttabann.“

Þetta voru meginatriði þess bréfs, sem mér barst í gær, og við þetta bréf hef ég í rauninni engu að bæta öðru en því, að ég vænti þess, að ráðamenn sjónvarpsins endurskoði afstöðu sína til þessa máls, og komist sem allra fyrst að þeirri niðurstöðu, að leysa beri bækur úr þessu undarlega og algerlega óskiljanlega fréttabanni. Ég treysti fréttamönnum útvarps og blaða til að koma þessari áskorun á framfæri. Ég hygg, að ég mæli þar ekki aðeins fyrir hönd rithöfunda og þeirra manna, sem við bókaútgáfu fást, heldur fyrir hönd sjónvarpshlustenda almennt, þegar ég fullyrði, að sjónvarpið getur ekki ámælislaust haldið áfram að láta eins og ritun nýrra bóka og bókaútgáfa á Íslandi sé ekki til. Hinu hlálega fréttabanni að því er tekur til bókmennta verður að linna, áður en það bakar íslenzkum höfundum og íslenzkum bókmenntum meira tjón en þegar er orðið.