26.01.1970
Neðri deild: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

123. mál, tollskrá o.fl.

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er nú svo, að þrátt fyrir frestun á afgreiðslu þessa máls fram yfir hátíðar, þá hefur sannarlega ekki gefizt of rúmur tími til þess að ræða það í n. og annars staðar.

Eitt af því, sem að mínu áliti hefði verið ástæða til að ræða nánar undir meðferð málsins og m.a. í nefndum, það eru þau kjör, sem ræktunarframkvæmdunum í landinu eru búin í tollskránni, eins og nú er ráðgert, að hún verði. Það er engin breyting gerð á tolli á stórvirkustu og þýðingarmestu ræktunarvélunum, á jarðýtum og skurðgröfum. Hann er í frv. 25%, eða óbreyttur frá því, sem hann hefur verið. Aftur á móti höfum við það í bakhöndinni, að söluskattshækkun kemur á þessar vélar, þannig að verð þeirra hækkar eftir þessar aðgerðir.

Nú er það svo, eins og mörgum alþm. er kunnugt, að ræktunarsamböndin, sem annast jarðvinnsluna í stærstu dráttum, standa mjög höllum fæti eftir síðustu gengisfellingar. Þau skulduðu þá bæði í erlendum gjaldeyri og eins gengistryggðum lánum í Búnaðarbankanum og gengisfellingin varð þeim mjög mikið áfall. Mér virðist, að það sé í sjálfu sér alveg óeðlilega stór hluti af verði þessara véla, eins og nú er og enn frekar eftir samþykkt mála, eins og þau liggja hér fyrir, sem rennur til ríkissjóðs, því af meðaljarðýtu, eins og ræktunarsamböndin nota, geta gjöldin til ríkissjóðs numið allt að 1 millj. kr. Þetta mál var rætt í fjhn., en tiltölulega lauslega. Sérfræðingar ríkisstj., sem voru til viðtals við nefndir, töldu ekki rétt að fara neitt inn á þetta svið, og það virtist ekki heldur vera neinn meiri hl. fyrir því í n. En mér þykir þó rétt með lítilli brtt., sem við stöndum að 2 þm., eins og ég mun síðar greina, að kanna vilja hv. þd. í þessu efni.

Ef við lítum aðeins á eina tegund þessara véla, sem um leið eru þær mikilvægustu og langstærsti pósturinn í vélakaupum ræktunarsambandanna, allt svo jarðýturnar, þá er það að vísu svo, að þó að þessar vélar séu að mestum hluta notaðar við ræktunarstörf, þá eru þær einnig notaðar við önnur störf, í fyrsta lagi til vegagerðar og svo að nokkru við byggingarvinnu. En að því er varðar vegagerðina, þá er þar um beina tilfærslu að ræða, því að langmestur hluti vegagerðarinnar í landinu er kostaður af ríkissjóði. Og að öðru leyti, að því er viðkemur byggingarframkvæmdum, þá get ég nú ekki séð, að það væri hundrað í hættunni, þó að aðeins slaknaði á tollheimtu af vörum til bygginga, því að við meðferð tollskrárinnar hefur yfirleitt verið sneitt hjá því, að lækka nokkuð tolla af þeim vörum, nema þá einungis þeim, sem heyra beint undir EFTA–meðferð og fara til frekari vinnslu innanlands.

Með vísun til þessa, sem ég nú hef sagt, þá viljum við hv. 5. þm. Norðurl. e. leyfa okkur að leggja fram skrifl. brtt., sem við biðjum hæstv. forseta að leita afbrigða um, en hún er við 1. gr. um að nr. 84.23.02 orðist svo: „02. Jarðýtur, tollskrártollur 7%.“