20.03.1970
Efri deild: 60. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2251)

135. mál, verðgæsla og samkeppnishömlur

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu um verðgæzlu og samkeppnishömlur, eins og það heitir, hefur verið til meðferðar í allshn. þessarar hv. d. nú um nokkurt skeið. Þegar til afgreiðslu n. kom á málinu, reyndist n. ekki eiga samstöðu um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum tilteknum breytingum, eins og hv. dm. hafa nú heyrt frsm. meiri hl. n. mæla fyrir hér úr þessum ræðustóli. Að vísu blandaðist nú hjá honum inn í þau meðmæli nokkuð um heimilisástandið í hans flokki, og þó að hann segði þar ekki mjög mikið, þá má ætla, að þau orð séu ekki alveg mælt að ástæðulausu, enda hefur það komið fram í málgagni flokksins, að ekki munu allir flokksmenn vera ánægðir með þessa upprennandi löggjöf, sem hér er á ferðinni. En að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér frekar í það mál.

Við, sem minni hl. n. skipum, höfum heldur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins, og má þó frekar telja, að þar sé um að ræða ágreining um málsmeðferð, heldur en það hafi nokkru sinni komið fram, að við séum í rauninni ósammála um afstöðu til málsins. Ég hefði talið rétt, að þessi hv. þd. tæki efnislega afstöðu til málsins, og hef lagt til, að frv. verði fellt, en þeir hv. framsóknarmenn leggja til, að því verði vísað frá með rökst. dagskrá, einkum sökum þess, að það sé ekki tímabært að afgreiða það nú. En efnislega vildi ég fara örfáum orðum um álit mitt á þessu frv.

Ég tel, að ef frv. yrði að lögum og kæmi til framkvæmda, mundi það þýða í fyrsta lagi afnám verðlagseftirlitsins í landinu. Menn geta haft mismunandi skoðanir á verðlagseftirlitinu, en mitt mat er þó það, að það hafi í mörgum tilvikum verkað sem hemill á skefjalausar verðhækkanir, sem annars mundu orðið hafa. Í viðbót eða í beinu framhaldi af því, að verðlagseftirlitið hefur gegnt sínu hlutverki — hvort það hefur gert það fullkomlega, eins og til var ætlazt eða ekki, um það má deila, tel ég að það hafi haldið niðri vöruverði í landinu. Rökrétt afleiðing af því, að það yrði lagt niður, væri þá sú, að vöruverðið mundi hækka — ekki bara af því, að það sé árvisst, að það haldi áfram verðhækkanir af sama toga og við höfum búið við í stærstum mæli vegna gengisfellinga íslenzkrar krónu, heldur líka vegna þess, að álagning verzlana á vöruverð mundi verða meiri, og að því er ég hlýt að ætla, í mörgum tilvikum algerlega óhófleg. Við höfum séð dæmi um það, og verðlagseftirlitið hefur fengizt við mál af því tagi, og þau sýna ljóslega, að sú er tilhneiging kaupsýslustéttarinnar að fara upp yfir allt velsæmi í álagningu á vörum.

Í þriðja lagi mundi samþykkt þessa frv. með þeim afleiðingum í framkvæmd, sem það hlyti að hafa, gefa einni stétt landsmanna, þ. e. a. s. kaupsýslustéttinni í rauninni sjálfdæmi um kjör sín, en það er allt annað en aðrar stéttir landsmanna búa við. Ég veit það og viðurkenni að sjálfsögðu, að frv. gerir ráð fyrir því, að settar verði nokkrar hömlur gegn því að hringar eða samsteypur geti haldið uppi óeðlilegu verði, og ég vil á engan hátt gera lítið úr þessu ákvæði frv. Ég tel það til kosta þess. En engu að síður tel ég kostina vera svo smávægilega í samanburði við ágallana, að ég met það þannig, að þeir séu þar hnepptir inn í allt annað mál til þess að reyna að fleyta fram og fá hylli Alþ. eða fá stuðning Alþ. við verðlagsákvæðin, þ. e. a. s. við það að leggja niður verðlagseftirlitið. Ég tel, að ef stjórnarvöldunum hefði verið einhver teljandi alvara í því að vilja koma fram eftirliti með áhrifum hringavalds, þá hefði það verið flutt sem sérstakt mál og ekki í sambandi við annað mál, sem er í rauninni annars eðlis.

Þær brtt., sem meiri hl. n. flytur hér, tel ég flestar horfa til bóta, og gæti út af fyrir sig léð flestum þeirra stuðning. En ekki breytir það því, að eftir sem áður álít ég, að frv. horfi til hins verra. Það væri skaði fyrir íslenzkt þjóðfélag að taka upp þá hætti, sem frv. gerir ráð fyrir, miðað við hitt að halda hinum, sem nú eru í gildi, og þess vegna legg ég til, að frv. verði fellt.