21.10.1969
Efri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2260)

18. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Í 92. gr. sveitarstjórnarl. frá 29. marz 1961 er kveðið á um, hvert sé hlutverk sýslufélaga. En sýslunefndir eiga að sjá um, að þetta hlutverk sé rækt. M. a. segir í greininni, að sýslufélag skuli annast stjórn allra sveitarstjórnarmála, er varða sýsluna í heild, svo og gera till. um hvað eina, er verða má sýslunni til gagns. Þegar litið er til þessa ákvæðis 92. gr. sveitarstjórnarl., svo og annarra ákvæða sömu gr., og jafnframt haft í huga, að sýslun. láta oft til sín taka þýðingarmikil héraðsmálefni svo sem skólamál, vegamál, heilbrigðismál og raforkumál, þá liggur það í hlutarins eðli, að gerðir sýslunefnda snerta iðulega hagsmuni hvers einasta mannsbarns innan sýslufélagsins. Út frá þessu sjónarmiði hlýtur það að teljast fyllsta sanngirni og réttlætismál, að réttur kjósenda til að velja fulltrúa í sýslun. og hafa þar áhrif sé sem jafnastur, en í þessum efnum hefur ætíð gætt stórfellds misræmis eftir því, hvar menn hafa búið í hreppi.

Að því er ég bezt veit, mun sú regla hafa gilt, frá því sýslun. voru settar á stofn, að hver hreppur hefur valið einn fulltrúa í sýslun., alveg án tillits til þess, hvort hreppurinn var fámennur eða fjölmennur, og þessi regla gildir enn samkvæmt 94. gr. sveitarstjórnarl. Í þessu felst að mínum dómi misrétti, sem hefur farið vaxandi á síðustu áratugum, vegna þeirrar þróunar, að sífellt fjölgar þeim hreppum, sem eru annars vegar mjög fámennir og hins vegar mjög fjölmennir. Þessu til stuðnings má benda á tölur. Árið 1960 voru einungis 6 hreppar á öllu landinu með færri en 100 íbúa, nú eru þeir 41. Árið 1920 náði enginn hreppur á landinu íbúatölunni 2000, en nú eru 3 hreppar með yfir 2000 íbúa.

Í grg. með frv. því, sem hér er til umr., get ég þess að finna megi fjölmörg dæmi um, að minni hluti sýslubúa eigi meirihluta í sýslunefnd. Þegar ég fór að athuga þetta betur, þá komst ég að því, mér til mikillar undrunar, að í hverri einustu sýslu landsins er það minni hluti sýslubúa, sem stendur að baki meiri hluta hinna kjörnu fulltrúa sýslunnar. Það er mjög algengt, að um það bil þriðjungur sýslubúa eigi meiri hluta í sýslunefnd, og í einstökum sýslufélögum er misræmið enn geigvænlegra, t. d. eiga 18% af íbúum Snæfellsnessýslu meiri hlutann í sýslunefndinni, en í Árnessýslu er það 21% af íbúunum, sem standa að baki meiri hlutanum í sýslunefnd. Þessar tölur sýna svo glöggt, sem unnt er, að ekki er lengur hægt að una við það fyrirkomulag, að fjölmenn hreppsfélög eigi einungis einn fulltrúa í sýslunefnd.

Af ástæðum þeim, sem hér að framan voru raktar, þá hef ég leyft mér að flytja frv. það á þskj. 18 til breytingar á sveitarstjórnarl., sem hér er til 1. umr. Meginefni frv. er það, að hreppar með yfir 400 íbúum skuli kjósa 2 fulltrúa í sýslunefnd. Í þessu felst mikil leiðrétting, þó að hún sé ekki fullnægjandi. Það er auðvitað matsatriði, við hvaða íbúamörk eigi að fjölga sýslunefndarmönnum eins hreppsfélags úr einum í tvo, en ef miðað er við 400 íbúa, eins og frv. gerir ráð fyrir, þýðir það, að alls 41 hreppur fær 2 sýslunefndarmenn, eða sem næst 5. hver hreppur á landinu.

Spyrja má, hvort ekki sé unnt að ná svipuðu markmiði og frv. þetta stefnir að með öðrum hætti og þá einkum með því að sameina fámennustu hreppana nágrannahreppunum og gera fjölmennustu kauptúnáhreppana að kaupstöðum. Því er til að svara, að sameining einstakra hreppsfélaga, sem hér hefur verið rædd við umr. um annað mál — sameining hinna einstöku hreppsfélaga út um hinar dreifðu byggðir landsins tekur óhjákvæmilega mjög langan tíma. Þar eru mörg ljón á veginum. Það hefur líka ýmsa annmarka í för með sér að gera fjölmennustu kauptúnin að kaupstöðum, t. d. veikir það sýslufélögin, og ekki er heldur vitað til þess, að áhugi sé til staðar í viðkomandi kauptúnahreppum fyrir slíkum breytingum.

Sannleikurinn er sá, að misréttið innan sýslufélaganna er svo stórfellt, að það veitir ekki af að berjast gegn því á tvennum vígstöðvum. Verði á hinn bóginn í framtíðinni um róttækar breytingar á sveitarstjórnarskipan landsins að ræða, þarf, þegar þar að kemur, að taka sveitarstjórnarlögin í heild til endurskoðunar og þar með einnig þau ákvæði, sem hér er lagt til að gera breyt. á. Hitt er svo annað mál, að þetta frv., ef að lögum verður, getur í vissum tilvikum greitt fyrir sameiningu sveitarfélaga, einkum ef tveir hreppar eru sameinaðir, sem hvor um sig hefur undir 400 íbúa, en hafa samanlagt meira en 400 íbúa.

Menn kunna að velta því fyrir sér, hvernig á því standi, að þessu máli hafi ekki verið hreyft fyrr og engar kröfur komið fram frá hinum fjölmennari hreppsfélögum um fleiri fulltrúa í sýslunefnd. E. t. v. felst skýringin í því, að oddvitar sýslunefndanna, sýslumennirnir, eru hlutlausir embættismenn, sem leggja sig fram um að ná samkomulagi um afgreiðslur mála innan sýslunefndanna. Deilur og ágreiningsefni séu því miklu fátíðari á þessum vettvangi heldur en innan hreppsnefnda og bæjarstjórna. Auk þess komi sýslunefndirnar sjaldan saman og séu almennt álitnar valdalitlar stofnanir. Taki því naumast að vera að deila um hlutföll valda og áhrifa innan þeirra.

Þessar skýringar, sem ég hef heyrt fram bornar, geta þó að mínum dómi ekki réttlætt það að láta þetta mál kyrrt liggja. Lögum samkvæmt geta sýslunefndirnar haft mikil völd, og gerðir þeirra geta verið afdrifaríkar um þýðingarmikil hagsmunamál sýslubúa, og jafnvel þótt menn skoði sýslunefndirnar sem veigalitlar stofnanir, réttlætir það ekki, að þessar nefndir séu kosnar á ranglátan hátt.

Ég hef hér að framan gert grein fyrir aðalefni frv., sem fram kemur í 1. gr. þess. Í 2. gr. frv. felst sú breyt. ein, að vitnað er til 15.–19. gr. sveitarstjórnarl. í stað 16.–19. gr., en 15. gr. sveitarstjórnarl., sem fjallar um skilyrði fyrir hlutbundnum og óhlutbundnum kosningum, á vel við um sýslunefndarkosningar samkv. 1. gr. frv.

Í sambandi við flutning þessa frv. vil ég minna á, að sýslunefndarkosningar eiga að fara fram næsta vor. Njóti þetta frv. meiri hluta fylgis á Alþ., sem ég vissulega vonast eftir, er nauðsynlegt að samþykkja það í tæka tíð, svo kosningareglur frv. geti gilt í sýslunefndarkosningunum að vori.

Í grg. með frv. þessu eru birtar tölur, er varpa ljósi á hinn gífurlega mismun á íbúafjölda hreppa innan sömu sýslu. Það er víða hægt að finna hrepp, sem er 10 sinnum fjölmennari en annar hreppur í sömu sýslu. Jafnvel má finna dæmi þess, að einn hreppur sé allt að því 100 sinnum fjölmennari en annar. Þessar staðreyndir ættu að leiða í ljós, að þær umbætur, sem frv. Þetta gerir ráð fyrir, eru í raun réttri algert lágmark.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.