20.01.1970
Efri deild: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (2266)

18. mál, sveitarstjórnarlög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr., en mér þykir þó rétt eftir þær umr., sem hér hafa orðið, að koma fram með þær hugleiðingar, sem með mér hafa orðið, við skoðun þessa máls.

Þegar ég sá þetta frv. fyrst fyrir mér hér í þingi, þá kom mér það nokkuð mikið á óvart, að það skyldi hér koma fyrir till. um breytingu á málefnum sýslunefnda, og þó væri þar aðeins fjallað um þá hluti, sem ég, eftir 35 ára setu í sýslunefnd, hafði aldrei orðið var við, að væri neinn vandi við að fást. Hins vegar er mér það ljóst og hef orðið þess iðulega var á þessu árabili, sem ég hef átt sæti í sýslunefnd, að þar er við annan vanda að fást, stórlegan, sem er tekjuþörf sýslufélaganna. Það má segja það, að nú hin síðari ár hafi nokkuð verið breytt um starfshætti á sýslufundum frá því, sem áður var, og hafa ýmis málefni verið tekin úr höndum sýslunefndanna, sem tóku þar iðulega nokkuð mikinn tíma og voru á sínum tíma allmikil átakamál milli sveitarfélaganna. Þar á ég sérstaklega við vegamálin, sem nú eru að mestu horfin úr höndum nefndanna, en falla að verulegu leyti núna undir Vegagerð ríkisins og er stjórnað af henni að mestu leyti.

Eins og högum er háttað, eru tekjustofnar sýslufélaganna engir í raun og veru, aðrir en þeir, sem sýslufélögin fá með niðurjöfnun á sín hreppsfélög. Og þau verkefni, sem sýslunefndirnar aðallega starfa að á þessum tímum og skipta sínum tekjum til, munu víða vera í fyrsta lagi til heilbrigðismálefna, eins og sjúkrahúsa og elliheimila og slíks, svo og fræðslumála. Misjafnlega mikið er það þó, sem til þeirra gengur frá sýslufélögunum, en ef ég miða við það sýslufélag, sem ég er kunnugastur í, þá ganga þeir fjármunir mest til húsmæðraskóla, iðnskóla og tónlistarskóla. Þá eru það lögreglumálefni og embætti byggingarfulltrúa. Þetta eru höfuðþættir þeirra mála, sem sýslan hefur afskipti af nú og leggur fjármagn til.

Það vill svo til, að þessi málefni öll, ef þau eru í nokkru lagi, munu fyrst og fremst verða til þess að verða tekjuaukandi fyrir þau sveitarfélögin, sem stærri eru, vegna þess að þessar stofnanir, sem ég hef hér rætt um, og þeir starfsmenn, sem ég hef einnig minnzt á, eiga búsetu fyrst og fremst í stærri sveitarfélögum. Þar með er þessi starfræksla orðin tekjuaukandi fyrir stærri sveitarfélögin.

Það er rétt, sem hér hefur verið bent á, að það er mesta misræmi, sem verður milli íbúanna, á bak við fulltrúa í sýslunefnd Árnessýslu, þar sem Selvogshreppur var með 26 íbúa, en Selfosshreppur 2405 íbúa. Það er þess vegna mjög eðlilegt, að á það sé bent, að þetta sé mjög óeðlileg skipting. En um leið og þetta er skoðað, hygg ég, að menn ættu að setja sig í spor þeirra manna, sem búa í þessum minnstu og fámennustu hreppum og huga að því, hvort þeir óskuðu frekar eftir því að vera stórt atkv. á bak við sýslunefndarmann úr Selvogi eða smærra atkv. á bak við sýslunefndarmann á Selfossi.