20.01.1970
Efri deild: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2267)

18. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. minni hl. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Mér kom það eitt í hug við þessa umr., hvort ekki væri hægt að leita einhverra fordæma, þar sem um fulltrúaval væri að ræða, sem mætti bera saman við þá skipan, sem ég hef leitazt við að koma á sýslunefndakjör með þessu frv. Meðan gamla kjördæmaskipanin var við lýði, voru sýslurnar í landinu sérstök kjördæmi, og þessar sýslur voru ýmist einmennings- eða tvímenningskjördæmi. Ég held, að menn hafi yfirleitt verið sammála um það, eins og reyndar var, að hinar fjölmennari sýslur væru tvímenningskjördæmi en hinar fámennari einmenningskjördæmi, þó að byggðaþróun síðan hafi kannske eitthvað raskað því, en þannig hygg ég, að þetta hafi verið sett í upphafi. Skiptir þar engu eða litlu um það að vísu, hvort í tvímenningskjördæmi ættu að vera hlutfallskosningar eða ekki. En ég hygg, að öllum hafi komið saman um það, að það væri eðlilegt, að fjölmennari sýslur hefðu tvo þm. og hinar fámennari einn, og það er í raun og veru alveg hliðstæða við þetta, sem hér er verið að gera.

Nú verður það auðvitað svo eftir þessu frv., að hin fámennari hreppsfélög hafa verulega meiri áhrif í sýslunefndunum, þó að þarna fari fram nauðsynlegar lágmarksleiðréttingar að mínum dómi. En mér finnst ekki hægt að líta á þetta, eins og t. d. er talað um kjördæmaskipun landsins og sagt, að í höfuðborginni eigi að vera fleiri kjósendur á bak við hvern þm., en aftur færri úti í dreifbýlinu. Mér finnst ekki hægt að líta á sýslur á sama hátt, t. d. að Selfoss hafi einhverja höfuðborgaraðstöðu í Árnessýslu eða eitthvað slíkt. Þetta eru nú nefndir, sem koma ekki saman nema einu sinni á ári, enda er það, eins og ég sagði áðan, grundvallaratriðið, að sýslunefndirnar eru yfirleitt að leysa hagsmunamál sýslubúa í heild. Þær eru ekki endilega að leysa ágreiningsmál á milli hreppsfélaga eða þar sem hagsmunir hreppsfélaganna togast mikið á, heldur eru þær að leysa vandamál sýslubúa í heild, og eftir sveitarstjórnarlögunum verður maður að segja, að hvert það mál, sem snertir hagsmuni sýslubúa, sé málefni sýslunefnda.

Þá vil ég víkja hér að lokum að því, sem segir hér í þessu niðurlagi nál. meiri hl. Þar segir, að „ef á annað borð telst nauðsynlegt að hreyfa við ákvæðum laga um sýslunefndir, fer að okkar hyggju bezt á því, að þau verði tekin til rækilegrar endurskoðunar í heild.“ Mér finnst, að þetta deilumál hér snúist öðrum þræði um það, hvort þm. eigi að eigin frumkvæði og á sjálfstæðan hátt að beita sér fyrir breytingum á löggjöfinni. Menn hafa kvartað undan því og stundum með réttu, að Alþingi væri að verða afgreiðslustofnun fyrir alls konar sérfræðinga, en þm. hefðu sjálfir tiltölulega lítið frumkvæði. Og það ber líka mikið á því, þegar þm. vilja sjálfir breyta einhverjum l., þá flytja þeir ekki frv., þá flytja þeir þáltill. í Sþ. um það, að þessi og þessi lög verði tekin til endurskoðunar. Stundum er löggjöfin svo margþætt, og það svo margt, sem þm. vill breyta, að þetta er kannske æskilegt, en í öðrum tilfellum er þetta alveg óþarft. Reyndar má segja, að það sé ósköp eðlilegt, að einstakir þm. hafi beint frumkvæði um það að breyta landslögum, þegar þeim býður svo við að horfa, og það eigi ekki alltaf að vísa þessum tilraunum á bug með því, að þetta þurfi allt rækilegri endurskoðunar við.